englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, mars 31, 2005

Sjóræningjar

Ég fór með Sverri í göngugreiningu áðan. Þegar við rennum upp að Össuri og hann les á skiltið, hrópar hann upp yfir sig: mamma! Össur! Ertu að fara að fá þér tréfót?

Óraunverulegur raunveruleiki

Ég las einu sinni bók. Bókin byrjar á því að sonur kemur inn í líkhús, til að kveðja föður sinn - látinn. Kemst þá að því að pabbi hans var kona. Kona sem hafði klæðst sem karlmaður og lifað sem karlmaður, svo lengi sem sonur hans mundi - og miklu lengur en það.

Eitthvað finnst manni þetta óraunverulegt. Strákurinn var reyndar ættleiddur, þannig að ekki var það vandamál. En mamman/eiginkonan var ekki samkynhneigð. Hún var gift karlmanni. Hjónin ræddu aldrei um þetta mál (vandamál myndu sumir segja) og lifðu alla sína hjónabandstíð, sem maður og kona.

Ástæðan fyrir því að konan tók upp á því að útbúast og lifa sem karlmaður var sú að hún var djassisti. Spilaði á trompet. Var ekki tekin alvarlega sem kvenkynsdjassisti og í stað þess að gefast upp, fór hún þessa leið. Hún/hann sló í gegn. Enginn vissi.

Yeah rigth! hugsar maður.

Þessi saga er þó ekki úr lausu lofti gripin. Höfundur hennar (Jackie Kay) ákvað að skrifa hana eftir að hún las um djassista. Þessi var píanóleikari. Karlmaður. Þegar hann deyr, kemur í ljós að hann er hún. Þessi mæti (og frægi) píanóleikari hafði ekki átt eina konu eins og söguhetjan okkar, heldur þrjár. Og engin þeirra vissi að þær væru giftar konu. Aldrei.


Það er líklegt að svona aðstaða komi manni í örlítið ójafnvægi. Svo ekki sé meira sagt.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Kennarafundur

Ég hef ekki verið dugleg að mæla mér mót við leiðbeinandann minn. Var upphaflega hrædd um að honum þætti ég of ósjálfstæð í vinnubrögðum en núna er ástæðan annars eðlis.
Síðast þegar ég bað um fund, afboðaði ég á síðustu stundu...vegna veikinda. Var alveg svakalega slöpp allan daginn áður en fundurinn átti að vera - en undur og stórmerki gerðust strax og ég var búin að afboða...ég læknaðist.

Ég er búin að bóka fund með honum á morgun. Ég er með svo mikla hálsbólgu að ég get varla andað, hvað þá talað. Er samt að hugsa um að reyna að brjótast út úr þessu karma og láta slag standa.

Í versta falli morsa ég bara.

Orð í tíma töluð

- Er eitthvað að angra þig?
- Já...á ég að segja þér svolítið?
- Já, segðu mér svolítið
- Ég var með annarri stelpu um daginn
....
- Hvað viltu frá mér?
- Bara væntumþykju, hlýju og virðingu
- Ég virði þig alveg
- Já, en eitt af þremur er ekki nóg
- ég get líka alveg sýnt þér hlýju, ég var að því rétt áðan.
....
- Mér finnst ég skítug, bara á því að liggja hérna við hliðina á þér
- Viltu að ég fari undir hina sængina?
- Nei, ég vil að þú farir
....
Mikið er gott að vakna ein í stóru rúmi

mánudagur, mars 28, 2005

Skil ekki

Af hverju eru strákar með stór brjóst ekki í bikiní í sundi..nú eða sundbol?

Maður spyr sig

Við Sverrir vorum úti að keyra um daginn:

Mamma, hvernig var "og" skrifað þegar þú varst 4 ára?
Ég svara samviskusamlega: og
S: Já, er það? Veistu að einu sinni var "og" skrifað "ok"?
(Kannski hann sjái mig ekki eins mikla stelpu og ég hef hingað til haldið?)

Ég hef annars stundum velt því fyrir mér hvort ég ætti að taka kristnifræðina fastari tökum á heimilinu. Ég hef tekið þá ákvörðun að reyna frekar að útskýra fyrir honum hvernig ég sé þetta (og svo hvernig hinir kjánarnir sjá þetta) og láta hann svo taka sjálfstæða ákvörðun út frá því.

Runnu samt á mig tvær grímur í morgun. Sverrir hefur erft þann leiðilega ávana frá pabba sínum að geta ekki einbeitt sér. Algjört fiðrildi. Hann er allan daginn að klæða sig og gleymir oft að klára skyldurnar sínar og fer að leika sér- eða dettur inn í einhvern rosalegan hugarheim.

Ég var búin að segja honum 73x að fara að klæða sig og búa um rúmið í morgun. Í 74 skipti fór hann inn í herbergið sitt, en kom mjög fljótlega fram aftur. Hálfklæddur byrjaði hann að sýna mér hvernig maður á að bera sig að, þegar maður er með sverð og hvernig maður gerir þegar maður kastar spjóti.

Eftir að hafa fengið kennslu í þessum mikilvægu efnum, rak ég hann aftur inn í herbergi og sagði honum að klára verkin sín. Stuttu síðar var hann aftur kominn fram, búinn að hneppa skyrtunni og allt. Byrjaði að leika sér. Ég leit inn í herbergi til hans og sá að það var ekki búið að búa um.

Ég hækka rómið örlítið og sendi hann inn til að búa um rúmið. Á meðan hann gengur inn til sín, styn ég: Jésúss almáttugur.

Og þá heyrist í frumburðinum sem allt veit: Mamma, það er bannað að blóta!

sunnudagur, mars 27, 2005

Eitur

Ég er búin að reyna í nokkurn tíma að losa um æxlið. Það hefur gengið erfiðlega. Ég vissi ekki að æxli væru úr teygjanlegu efni. Það er undarleg tilfinning að finna það sem maður reynir að losa líkama sinn við, skjótast aftur inn, eins og gormur sem neitar að þjóta út í buskann.
Ég fann búrhnífinn og skar og skar. Langt síðan ég notaði hann, sargar smá. Ekki mikið, enda ekki svo langt. Svo byrjaði ég að ýta.
Út með þig helvítis æxli. Ég vil ekki sjá þig meir. Aldrei. Aldrei. Aldrei.

Hvað er þetta? Er þetta lyktin af þér?

Aldrei. Aldrei. Aldrei.

Ég held á þér í lófanum. Eins og að halda á grænu hlaupi. Var það ekki meira magn en þetta, sem fyllti mig? Svo grænt. Eins og mygla en samt örlítið út í eitur.

Ég vona að ég hafi náð öllum rótunum.

Gleðilega..

Gleðilega páska allir saman. Vona að þið hafið öll haft það gott á þessum ótrúlega löngu páskum.

föstudagur, mars 25, 2005

Að sjá fram í tímann

Við Sverrir vorum alveg að deyja úr forvitni með hvort við hefðum unnið miða á Kalla á þakinu eða bol með mynd af honum. Eftir mikla umræðu um hvort maður megi opna páskaeggin áður en páskarnir koma og vangaveltur yfir því hvað við værum eiginlega með mikið af súkkulaði inní eldhúsi, sagði sonurinn að ég mætti alveg opna mitt egg (samt ekki fyrr en ég var búin að segja honum að ég myndi auðvitað gefa honum með mér).

Fyrir þá sem ekki eru búnir að kaupa sér páskaegg, þá segi ég og skrifa að Freyju páskaegg, með kornkúlusúkkulaði, er lang lang besta páskaegg sem ég hef nokkurntímann á ævinni smakkað (og þá dreg ég heldur úr).

Málshátturinn er líka flottur:
Góður ræðumaður getur ekki borið sig saman við góðan hlustanda.

Ég er með smá móral yfir því að ég sé slæmt fordæmi fyrir barnið, en well...

fimmtudagur, mars 24, 2005

Ótrúleg heppni!

Útvarpsmaðurinn var að tala um páskana í útvarpinu í gær. Hann talaði um hvað maður gæti nú djammað ótrúlega mikið á næstu dögum. Það vildi nefninlega svo skemmtilega til að páskarnir eru langir í ár.

Ég segi nú ekki annað en þvílík heppni að páskarnir komi upp á sunnudegi þetta árið!

...held ég verði að fara að hlusta á aðra útvarpstöð.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Af kóngum

Jæja nú erum við alveg rétt bráðum að fá nýjasta íslendinginn okkar til landsins. Það var nú ekki seinna vænna að við tækjum að okkur annað sirkusdýr, það er svo langt síðan að Keikó dó.
Ég skildi aldrei almennilega hvernig stóð á því að við tókum Keikó að okkur. Ekki frekar en ég skil af hverju við erum að flytja Bobby Fischer inn til landsins.

Við erum náttúrulega mjög sérlunduð þjóð. Erum vön að haga okkur eins og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Setjum það ekki fyrir okkur að fara upp á móti áhrifa miklum þjóðum, jafvel þó að það setji alþjóðasamstarf okkar í hættu. Reyndar finnst mér það eina jákvæða í þessu Fischer máli vera að við settum okkur upp á móti Bandaríkjunum. Svolítið úr karakter, en þar er okkur rétt lýst: svolítið úr karakter, og okkur er alveg sama.

En þegar Bobby kominn og líklegast farinn? Hvað gerum við þá?

Mér dettur í hug að við ættum jafnvel að snúa okkur að íslenska unglingsstráknum sem situr í stofufangelsi í Bandaríkjunum. Svona úr því að við erum farin í slag við krýnda kónga yfirborðsmennskunnar. En það gengur kannski ekki? Við viljum auðvitað halda áfram að vera best í öllu (samkvæmt höfðatölu) og við höfum ekki enn fengið titilinn "konungar yfirborðsmennskunnar" og okkur langar í hann. Þannig að við höldum áfram markvisst að reyna við titilinn og látum strákinn dúsa í sínu stofufangelsi. Hann fór jú í læknisleik sem barn og eins og við vitum þjóða best, þá er það ávísun á lífstíðar fangelsi að beita fólk kynferðislegu ofbeldi. Það er einmitt þess vegna sem við látum kynferðisafbrotamenn dúsa marga mánuði í fangelsi eftir að hafa nauðgað oft og ítrekað.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Breytingar

Fór út að hlaupa í dag og endaði í pottinum í Vesturbæjarlauginni - hafði þó fataskipti áður en ég fór í pottinn. Hitti strák í pottinum sem ég er búin að kannast við í mörg ár. Við vorum að spjalla. Hann er búinn að vera á sjónum meira og minna síðustu 10 ár. Frændi hans er alltaf að reyna að fá hann til að stunda íþróttir með sér, en hann er búinn að týna íþróttagallanum og svo eru skórnir svo lélegir. Við hlógum að þessum skemmtilegu afsökunum og svo skellti hann sér í laugina og synti fjórar ferðir. Vildi ekki ofgera sér, svo langt síðan síðast.

Tók Notebook á vídeoleigunni. Falleg ástarsaga. Ég held áfram að trúa því að svona ást sé til og ég geti fundið hana. Það er eitthvað svo endalaust fallegt við tilhugsunina um sálufélaga.

Á leiðinni af leigunni keyrði ég Laugarveginn. Það er greinilega að koma vor. Fullt af fólki á gangi og nokkur slatti af útlendingum. Ég vissi ekki þegar ég sat á Kaffi tár um daginn, með mömmu, Kristjönu systur og Nonna stjúpa, að það væri í síðasta skipti sem ég gerði það í gamla lookinu. Við vorum einmitt að ræða hvað staðurinn væri skemmtilegur og sjarmerandi.
Núna er búið að rífa allt niður og sá ég glitta í gráa veggi.

Sverrir fékk páskaegg í pósti frá ömmu sinni, ég er ekki enn búin að fá neitt.
Var að hugsa um að kaupa mér eitt númer 2, svona fyrir málsháttinn...en eins og strákurinn benti réttilega á, þá eru þau alveg ÓTRÚLEGA lítil.

Er verið að fylgjast með manni?

Fyrir nokkru síðan datt hilla sonar míns í sundur. Ég er búin að fara nokkrar ferðir í Góða hirðinn en aldrei séð neitt sem mér lýst nógu vel á. Er líka búin að fara nokkrar ferðir í Ikear og var búin að fá augastað á eina nokkuð góða.
Var búin að bera hana undir Sverri og fá hana samþykkta. Það eina sem mig vantaði núna voru peningar til að sleppa við að stinga henni óséð ofan í tösku. Var ekki enn búin að sjá hvernig það vandamál yrði leyst.

Svo hringdi dyrabjallan mín. Það var Úlli nágranni, sá sami og hafði gefið mér símanúmerið hjá Sævari bifvélavirkja. Úlli er mikill framkvæmdamaður, hann ætlar t.d. að byggja ofan á húsið sitt og er búinn að koma ófáar ferðir með teikningarnar - í svona grendarkynningu.

Ég opnaði fyrir Úlla og það fyrsta sem hann sagði var að hann væri ekki með neina pappíra til að láta mig skrifa undir. (Alveg eins og sölumaður, hugsaði ég) Hann væri hins vegar með hillu, vantaði mig nokkuð hillu? Hann væri sko með tvær mjög fínar hillur, hann væri búinn að setja aðra í geymslu en fór svo að hugsa hvort hann gæti ekki gefið einhverjum hina?

Ég stökk með honum yfir og leit á gripinn. Ekkert smá fín hilla. Hann og sonur hans báru hana yfir til mín. Það verður gaman hjá okkur Sverri um páskana. Að raða í hillur er hin besta skemmtun.

mánudagur, mars 21, 2005

Sund

Við HHH fórum í sund í gær, gagngert til að skoða tattúmanninn. Ég held að þegar Hörður sá kauða, hafi hann fattað að ég segi stundum satt. Við leituðum líka að langa sleða, en það var ögn erfiðara, þar sem við höfum engar upplýsingar um hann. Svo náttúrulega var bara slúðrað - út í eitt.

Ég komst að því að það er alveg hægt að slúðra sunnudagsslúður við stráka líka.

sunnudagur, mars 20, 2005

Unaðslegar stelpur!

Þessi helgi sem senn er á enda, er ein af skemmtilegustu helgum sem ég hef upplifað. Kóræfing á föstudaginn og ekki var leiðinlegt að vera með öllu þessu fólki sem á heima í útlöndum og á Akureyri. Ég held að það séu bestu partýmeðmæli sem hægt er að fá, þegar fólk kemur frá útlöndum, gagngert til að fara í partý hjá P&I.

Það fólk var sko ekki svikið.

Til að vera alveg viss um að fá sem mest út úr helginni, ákvað ég að halda matarboð á laugardaginn. Upprunalega planið var ... nei það var ekkert plan. Ekki nema að fá nokkrar skemmtilegar stelpur í mat. Og það tókst svo sannarlega.

"Skemmtilegar stelpur" er í raun understatement. Ég var enn brosandi þegar ég vaknaði í morgun. Ég hreinlega vissi ekki að það væri hægt að hlæja svona mikið. Var að kíkja í spegilinn og mér sýnist á öllu að ég þurfi ekki að gera magaæfingar út vikuna.

Var að reyna að finna út hver hápunktur kvöldsins hefði verið og ég hreinlega gafst upp. Við vorum svo skemmtilegar og auðvitað sætar að það virtist ekki nema eðlilegt framhald af öllu þegar var farið að tala um samkynhneygð, að allar vorum við sammála um að það væri miklu betra að kyssa stelpur en stráka og að í raun væri miklu betra að vera með stelpum - bara svona yfir höfðuð. Miklu mýkri og betri lykt af þeim. Á tímabili stefndi allt í það að 10 stelpur kæmu út úr skápnum. Held að niðurstaðan hafi verið sú að þetta mál yrði sett í gerjun og tekið fram aftur við tækifæri.

Þvílík heppni að þekkja svona konur.

föstudagur, mars 18, 2005

Fullyrðing

"Maður mætir auðvitað til leiks sem kona"
Kristín Ingólfsdóttir skólastjóri í viðtali í útvarpinu.

Skólastjóri

Konan í útvarpinu sagði að Kristín Ingólfsdóttir væri fyrst íslenskra kvenna til að gegna embætti rektors Háskóla Íslands.
Mér finnst það gott.
Mér fannst alveg vera kominn tími á að þessar rússnensku drægju sig í hlé.

Gimsteinar

Í kvöld ætla ég að taka með mér kol og sjá hvað setur.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Þetta var nú gott...á mig

Ég hef stundum gert grín að okkur íslendingum. Við erum mjög sérstök þjóð, ég held að því verði seint neitað. Uppfull af þjóðerniskennd og rífum kjaft við kónga og presta. Við erum best, mest og frábærust. Við erum fallegust, gáfuðust og listrænust og ég veit ekki hvað og hvað.

En við nennum ekki að mótmæla. Auðvitað blöskrar okkur að kennarar séu með svona lág laun. Auðvitað erum við mjög langt því frá ánægð með hvernig olíufélögin tóku okkur í rassgatið (ósmurt mundu jafnvel sumir segja). Við erum líka - mörg okkar - ekki par hrifin af þessari stóriðjuvæðingu. LÍN - vá..hvar á ég að byrja?

En...nei...við nennum ekki að mótmæla. Getur ekki einhver annar gert það? Ég þarf að fara í vinnuna. Var akkúrat á leiðinni á kaffihús. Hvað get ég svosem gert????

Ég er ekkert undanskilin.

Það er allt búið að vera vitlaust í Rúv undanfarna daga. Ég hef ekki alveg vitað hvað mér hefur átt að finnast um þetta allt saman. Reyndar hefur mér stundum verið hugsað til ormagryfu Þorgerðar Katrínar og vorkennt Auðunni voðalega mikið. Þvílíkt lið þarna í útvarpinu! Allt í rugli og fólk bara neitar að vinna með þessum manni.

Svo sá ég starfsferils- og menntunnarskrá þeirra fimm sem Bogi mælti með og hans Auðunns.
Ok! Nú skil ég þetta. Maðurinn er kannski ekki alveg rétti maðurinn í þetta starf.

Og þá rann upp fyrir mér ljós.

Það sem starfsfólk útvarpins hafði verið að gera, var ekkert annað en það sem ég hef alltaf verið að gagnrýna íslendinga fyrir að gera ekki. Og ég leit niður á þau fyrir það! Mér fannst þau vera með yfirgang og frekju, þegar þau voru í raun bara að gera það sem manneskjur eiga að gera: krefjast virðingar.

En ég dreg það nú samt ekkert til baka, að ekki vildi ég fyrir mitt litla líf vera Auðunn Georg Ólafsson.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Hor og hráki

Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að reyna að verða mér út um hlaupafélaga. Finn að mig vantar keppni, svo ég bæti mig - líka til að ég hundskist út þegar letin er að drekkja mér.
Ég er nú búin að láta hlaupahópinn í Vesturbæjarlauginni vita af mér og sagði þeim að ég kæmi einn góðan veðurdag. Hugsaði með mér að ég nennti nú ekki að fara að byrja að hlaupa með einhverju ókunnugu fólki í janúar...en nú er kominn mars. Well.´

Eins og Gísli á Uppsölum, þá hef ég þróað með mér ákveðna hegðun sem kannski "hinum" finnst ekki endilega ákjósanleg eða smekkleg. Mín hegðun snýr að hlaupunum. Ég hræki út í eitt og snýti mér eins og 10 sjóarar.

Hef stundum velt því fyrir mér í vetur, þegar ég er að hlaupa í rokinu og kuldanum, að kannski fari bara best á því að ég hlaupi ein áfram. Ég fæ þessar hugdettu þegar ég snýti mér út í rokið og enda kannski með draslið í andlitinu. Ég reyni vissulega að snúa mér frá vindi en ekki að honum, þegar þessi úrgangslosun á sér stað. Yfirleitt tekst það mjög vel. Hrákinn fýkur nettur til hliðar og ég er laus allra mála.

En ef ég væri að hlaupa með einhverjum og ég tala nú ekki um ef ég væri inní hópi fólks þá væru góð ráð dýr. Er ekki viss um að það sé til mikið af fólki sem tæki því að á það væri hrækt - nb við erum ekki að tala um eitt skipti á leiðinni. Ég er því síður örugg um að það finnist mikið af fólki sem kynni því vel að fá hor á sig...jafnvel þó það komi úr mínu fallega nefi.

Ég sé ekki alveg lausn á þessu vandamáli...

þriðjudagur, mars 15, 2005

Atvinnuviðtöl

Ég er búin að fara í nokkur atvinnuviðtöl undanfarið. Eftir að hafa stúderað "atvinnuviðtalsfræðin" finnst mér þessi viðtöl oft á tíðum vera ósköp amatörsleg. Ég má samt ekki við því að setja mig á háan hest, þar sem ég er þeim meginn við borðið sem ég er.

Þrátt fyrir að vera yfirleitt nokkuð örugg með mig og viss um eigið ágæti, þá veit ég samt aldrei hvernig hinir koma til með að sjá mig og upplifa. Eitthvað sem ég teldi vera fyndið eða eitthvað sem ég teldi svo sjálfsagt að ég tæki ekki einu sinni eftir því að ég segði það, gæti stuðað spyrla það mikið að ég kæmi ekki lengur til greina í "hið eftirsótta starf"

Ég horfði á Kastljós um daginn, þar sem Ágúst og Kristín voru í hálfgerðu atvinnuviðtali. Það eru margir á kjörskrá og sjálfsagt nokkrir eins og ég - og nenna ekki á kostningafundi eða hafa sig ekki í það að lesa heimasíðu þeirra.

Ég varð óskaplega glöð að fá þetta beint í æð, þar sem ég lá í sófanum. Var ekki enn búin að taka endanlega ákvörðun, mikil innri togstreita og magabólgur. (Ok ekki mikil togstreita, en ég hugsaði samt um þetta). Ég hlustaði og hlustaði.

Óskaplega titraði rödd Ágústar og hvað skrjáfaði í blússunni hennar Kristínar. Hún var samt með mjög milda rödd, ég velti því fyrir mér hvort mér þætti það kostur eða galli. Var ekki enn búin að ákveða mig.

Það er ekki mikið sem skilur á milli feigs og ófeigs. Stundum bara ein setning eða eitt orð.

Ágúst var að mæra starfið sem hafði farið fram í Háskólanum undanfarið og sagði eitthvað á þá leið: Við erum búnir að byggja upp mikið... bla bla bla...

Og ég hugsaði með mér að það væri nú gott að hann og hinir strákarnir eru búnir að byggja upp svona fínan háskóla.
Ég hins vegar ætla að kjósa stelpuna með mjúku röddina, í skrjáfublússunni.

mánudagur, mars 14, 2005

Fuglaflensa

Fuglaflensan virðist vera lífseig. Fyrst þegar ég heyrði af henni varð ég smá smeyk, svo hætti ég því. Í morgun var þó verið að segja frá því í fréttunum að vísindamenn og læknar í Asíu væru hræddir um að heimsfaraldur gæti farið af stað. Þessi flensa virtist vera að smitast á milli manna og óttuðust þeir að milljónir manna myndu láta lífið.

Það er alltaf svolítið skerí að heyra svona fréttir. Ég varð allt í einu fegin að vegabréfið mitt var útrunnið og stóð mig að því að vona að við einangruðumst svolítið hérna á Íslandi. Það er nú alls ekki svo slæmt að vera hér í hreina loftinu og tæra vatninu. Og svo eru íslenskir karlmenn svo svakalega sterkir og við öll svo klár að tefla.

Fréttamaðurinn hélt áfram: vísindamenn höfðu sérstakar áhyggjur af tveimur mönnum sem veiktust, og að því er virtist höfðu smitast af fjölskyldu sem þeir höfðu verið að hjúkra. Við nánari skoðun kom í ljós að annar þeirra hafði smitast af öðrum manni. Ekki í fjölskyldunni. En sá maður hafði smitast við það að drekka hrátt andablóð!

Mikið óskaplega sem ég þarf að vera þyrst, ef ég fer að drekka andablóð, þar sem fuglaflensu faraldur geysar!
Það er náttúrulega ekki í lagi með þetta lið!

sunnudagur, mars 13, 2005

laugardagur, mars 12, 2005

Fallvölt frægð

Við mæðginin vorum í spurningaleik "mömmu og sverris" í gær. Sá sem er fyrstur að fá fimm stig vinnur. Dæmi um spurningar eru: Hvaða búð er með bláum stöfum? (rétt svar er BYKO). Erfiðast spurningin sem kom var: Hvaða staður byrjar á s?

Þrátt fyrir varnarorðin um að þetta væri mjög erfið spurning. Þá reyndi ég að svara. Gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir, án árangurs. Rétt svar var: Sólbaðsstofan Smart - En ekki hvað???

Þegar leik var lokið, tjáði sonur minn mér að hann hefði nú alveg getað haft þetta erfiðara. Hann hefði t.d. getað beðið mig að nefna eldpókemon. Við þessar upplýsingar komst ég í mikinn keppnisham og sagði honum að þá hefði ég spurt hann að því hver hafi skrifað "sjálfstætt fólk".

Eftir að hafa fengið að vita að tjarmilljon væri eldpókemon, sagði ég honum að Halldór Laxnes hafi skrifað Sjálfstætt fólk. Svo útskýrði ég fyrir honum hver sá maður er/var. Sagði honum frá Nóbelsverðlaununum og svona.

Sverrir: Þá er hann rosalega frægur!
Jóda: Já ætli það ekki.
S: það er ekkert gott að vera frægur
J: ha?
S: Eins og konungur rokksins. Hvað heitir hann aftur?
J: Elvis Presley?
S: Já. Hann var rosalega frægur og hann tók fullt af eiturlyfjum. Til að skemmta sér og sofa og svona og svo drapst hann.

....

S: það er í mesta lagi gott að vera frægur í svona 2-3 daga.

föstudagur, mars 11, 2005

Gambling

Mér leið pínulítið eins og fjárhættuspilara í gær og áður en ég fór að sofa. Ég tók ekki þátt í rektorskostningunum. Hef samt alveg skoðun á því hver kemur til með að fá þetta embætti. Nennti bara ekki að færa mig á milli bygginga til að taka þátt. (Ekki frekar en að ég hafi farið að mótmæla langdregnu kennaraverkfalli í haust sem leið)

Þannig að þegar ég fór að sofa var ég spennnt. Ætli ég hafi unnið eða var kannski einhver augnlæknir orðinn skólastjóri í skólanum mínum?

Svo vakna ég og sé að þau tvö sem ég þurfti að taka afstöðu til, komust áfram í úrslit. Einhverra hluta vegna datt mér Idol í hug. Á að halda manni í einhverri spennu endalaust?

Kjósa aftur? Uhh... nú sýnist mér að ég komist ekki lengur upp með að loka augunum og bera fyrir mig leti. Ég hef það á tilfinningunni að um tvo gjörólíka stjórnendur sé að ræða.
Ætli ég þurfi ekki að leggjast í stjórnendafræðin um helgina og meta þessa einstaklinga út frá því?

Eða ætli sé kannski nóg fyrir mig að lesa auglýsinguna á starfinu og velja út frá því?

fimmtudagur, mars 10, 2005

Lærdómur

Ég flúði heimili mitt svo ég hætti að þrífa í stað þess að læra.
Kom mér vel fyrir í skólanum.
Er með mitt eigið skrifborð og ljós og stól og hillur og ruslafötu með poka í.
Búin að vera rosadugleg.
Læri og les eins og vitlaus væri (sem ég kannski er)Svo í dag...
...mætti ég með fötu, sápu, gúmmíhanska og tusku í skólann í morgun...
og byrjaði að þrífa...

miðvikudagur, mars 09, 2005

Hahahahahahaha

Ég er búin að sitja sveitt undanfarna daga við það að reyna að skilja einhver hagfræði módel um atvinnuleysi og peninga og eitthvað annað dót. Ég er búin að lesa sömu blaðsíðurnar aftur og aftur og aftur en litlu bætt við skilninginn við hvern lestur.
Svo datt mér í hug að kíkja á eina skemmtilega hagfræðinginn sem ég þekki. Hann er ekki bara eini skemmtilegi hagfræðingurinn sem ég þekki, heldur er hann einn af skemmtilegustu mönnum sem ég þekki.

Allavegana

Ég fer til hans og sýni honum þetta og spyr hvort hann geti útskýrt þetta fyrir mér á mannamáli. Hann spyr mig á móti af hverju í ósköpunum ég sé að stúdera þetta. Hann sé búinn að vera að stúdera þessar kenningar í 15 ár og skilji þær ekki ennþá - og hann er nb prófessor í skólanum mínum.

Hann ráðlagði mér að sleppa þessu. En ef ég vildi endilega gera þetta, þyrfti ég fyrst að lesa eina bók og svo aðra og svo....
Ég sá fyrir mér 15 ár í einhverjum hagfræðipælingum, kyssti hann á ennið og þakkaði honum kærlega fyrir að hafa bjargað lífi mínu.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Einn og þrír

Ég loka augunum og hugsa um þrjá. Ef ég hefði þrjár hendur, eins og ég hef þrjár geirvörtur, gæti ég haldið í þær allar á sama tíma. Ég gæti staðið á höndum og vinkað. Ef ég hefði þrjá fætur, gæti ég hlaupið eins og þrífætt stelpa. Kannski hefði ég fimmtán tær? Þá gæti ég örugglega sparkað út í loftið án þess að missa jafnvægið.

Ef ég hefði þrjú höfuð, þyrfti ég að kaupa mikið af andlitskremi. Ef ég hefði þrjá nafla, þyrfti ég að fara að finna hinar mömmurnar mínar.
Ef ég hefði þrjú hjörtu, gæti ég elskað mikið meira. Ef ég hefði þrjú hjörtu, gæti ég án nokkurra vandræða gefið þér eitt og haldið áfram að lifa - bara nokkuð eðlilegu lífi.

Ég er alls ekki að segja að þú sért hjartalaus. Það er frekar svona eins og hjartað þitt sé bilað. Og eins og með allt í dag, þá er það einnota. Betra að fá nýtt en gera við.

Ef ég hefði þrjá heila í stað þriggja hjarta, myndi ég kannski geta talið mér trú um að ég ætti ekki að vera að standa í þessari vitleysu. Þá myndi ég kannski læra af reynslunni. Kannski.

Mikið er ég glöð í eina hjartanu mínu að ég er bara með einn heila. Ég stend í báðar fætur og veifa þér af öllum kröftum með báðum höndum. Ég veit ekki hvort ég er að veifa þér "hæ" eða "bæ" enda með svo lítið af öllu...

mánudagur, mars 07, 2005

Sjálfsmynd

Mér líður svo undarlega. Nei annars, mér líður vel. Undarleikinn felst kannski í því hvað mér líður vel. Ég finn hvernig ég geng um í einhverju þæginlegu rými. Og í fyrsta sinn í langan tíma, geng ég um, ég svíf ekki. Það er gott að ganga, eignlega betra heldur en að svífa.
Á sama tíma og mér líður vel, veit ég að það er ekki sjálfgefið að þessi líðan endist. Samt finnst mér hún svo þétt. Svo massíf.
Ég held að ég sé alveg að verða fullorðin. Það styttist amk í það. Mér er alltaf að verða skýrari og skýrari í hausnum. Ég er veit ekki bara hvað ég vil ekki, heldur veit ég líka hvað ég vil.
Amk stundum.

Svo stundum vil ég það sem ég vil ekki og þá fara hlutirnir að vandast.

laugardagur, mars 05, 2005

Sundhringir

Ég fór í sund í dag og komst að því að vinur minn með skjaldamerkið á bringunni, fer ekki bara í sund á sunnudögum.

Svo komst ég að því að það er betra að kæla sig niður áður en maður fer í gufu.

Ég var í sundi með tveimur góðum konum. Þær voru úti á galeiðunni í gærkvöldi. Hittu fyrir hóp af karlmönnum. Eða á ég að segja karlmenn? Ég veit ekki. Það fer eftir því hvernig maður skilgreinir karlmennsku. Hópur giftra manna. Allir nema einn tóku niður hringanna áður en þeir héldu út. Þeir voru að hneykslast á þessum eina sem hélt hringnum á puttanum.

Ég segi ekki meir...

föstudagur, mars 04, 2005

Skemmtilegt fólk

Ég hitti félaga minn í gær. Við höfðum ekki sést í nokkurn tíma og vorum við eitthvað að spjalla um daginn og veginn. Hann sagði mér að nú byggi hann í nágrenninu (við mig og bókhlöðuna, þar sem við vorum að spjalla).
Þar sem frænka mín hafði sagt mér að hann hefði ekki viljað segja henni hvar hann byggi, ákvað ég að nú væri lag og spurði hvert hann hefði flutt. Hvort við værum miklir nágrannar eða...?
Ég hafði mjög gaman af því að sjá að hann fór undan í flæmingi en vildi samt ekki vera dónalegur við mig. Og ákvað ég að nýta mér það.

Jú, jú, hann var bara hinu megin við Hringbrautina... "Já er það?" segi ég skeppnan. "Ertu þá í Melunum..eða?" Ég sé hvernig hann roðnar og verður eitthvað kjánalegur og svo viðurkennir hann að hann búi á Hringbrautinni. Hann búi þar í herbergi, með aðgang að baði. Hann hafi viljað hafa þetta eins einfalt og ódýrt og hægt er.

Ég er þeirrar skoðunnar að fólk vilji ekki sitja eitt að leyndarmálum og var hann ekkert að afsanna þessa kenningu mína þarna. Um leið og hann var búinn að viðurkenna fyrir mér hvar hann byggi, þá var eins og losnaði um málbeinið. Honum fannst þetta miklu þæginlegra (miðað við síðustu staðsetningu sína), nálægðin við skólann var ótvíræður kostur og svo bjó hann einn. Og það er gott fyrir svona einfara.
Ég horfði á hann og hugsaði með mér: einfari eða ekki, amk svakalegur sérvitringur.
Úr því að ég var byrjuð, var eins gott að halda áfram og ég spurði hann hvort hann þyrfti að deila baðherberginu með mörgum. En það var ekki. Bara einum fullorðnum manni, sem var svona einfari eins og hann. Mjög rólegur og þæginlegur maður. Enda eins gott, því ekki er gott að deila baðherbergi með hverjum sem er.

Fjölskylda mannsins býr öll í hverfinu og er þessi félagi orðinn hálfgerður partur af þeirri fjölskyldu. Fullorðni maðurinn á eina stúlku á sama aldri og félagi minn (nær þrítugu en tvítugu) og kemur hún stundum í heimsókn. Svo kemur fólkið á hæðinni fyrir ofan og hengir upp þvottinn sinn.

Mér finnst voðalega gott að tengja hlutina við mat svo ég segi: "Já, svo við eigum sama bakarí?"
"Jaá" segir hann dræmt, "svo er það náttúrulega Kjötborg og Pétursbúð"
Þegar ég segi honum að ég versli aðallega í Kjötborg, vegna nálægðarinnar, segir hann að hann verði bara endilega að kíkja einhverntímann í heimsókn.

Þá var komið að mér að roðna. Sumt fólk er gaman að hitta og spjalla við og jafnvel fara á kaffihús með, en ég var ekki alveg viss um að ég vildi mikið vera að fá hann í heimsókn. Þannig að ég fer eitthvað undan í flæmingi og segi honum að ég sé nú eiginlega aldrei heima. Ég sé alveg á fullu í þessu margblessaða verkefni mínu (ég mátti alveg segja það, af því að ég er búin að vera alveg svakalega dugleg í nokkra daga) og þá er eins og birti yfir andlitinu hans.

Hann skildi mig.

Hann sagði að það væri eiginlega alveg það sama með sig. Hann kæmi eiginlega bara heim til að borða, sofa og hugleiða. Og við þá iðju vildi hann ekki láta trufla sig.
Hann viðurkenndi fyrir mér að ég væri fyrsta manneskjan sem hann segði hvar hann byggi. (Hann er n.b. búinn að búa þarna síðan á haustdögum) Fjölskylda hans byggi nokkrum götum frá og þau vissu ekki einu sinni hvar hann héldi til. Hann ætti líka félaga, sem gætu tekið upp á því að droppa við í heimsókn og þá væri hann kannski nýbúinn í hugleiðslu og væri að fara að fá sér að borða...the rest goes without saying...

Boðskapur helgarinnar: Ef þú villt ekki fá fólk í heimsókn - Ekki segja því hvar þú býrð

fimmtudagur, mars 03, 2005

Uppruni

Hvað þýðir að láta í veðri vaka?... nei ég meina hvaðan kemur það?
Úr hverju? Ég þarf nefninlega að láta svolítið vaka í veðrinu en vildi helst vita upprunan áður en ég skelli því fram.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Búðarferð

Stundum finnst mér gaman að fara á hjóli í Bónus.
Ég fór í Bónus áðan.
Ég keypti ekki mikið. Ég var náttúrulega á hjóli.
Svo segir búðarstelpan: tveir pokar? "Nei, einn" segi ég.
það eru 859 krónur.
Fullur poki af mat. Ég kyssti hana næstum því.
Verðdæmi:
Tvö kg af kartöflum 125 kr
epli fuji 79 kr
léttAB mjólk 131 kr
Léttmjólk 35 kr

Ég hreinlega elska virka samkeppni!
Best að njóta þess, þangað til að einhver étur einhvern og allt fer í sama gamla horfið.

Hvað ertu eiginlega að gera?

Ég er að reyna að koma mér almennilega að verki í rannsókninni minni. Mér sýnist samt að ég sé með framkvæmdarkvíða á millistigi. Það lýsir sér þannig að ég fer yfirleitt og geri eitthvað. En hvað ég geri er svolítið á huldu, og þá ekki síst fyrir mér.
Finnst svolítið eins og ég sé ekki með upphaf og enda, svona eins og á hnykklunum. Heldur frekar eins og ég sé með grein, með mörgum, mörgum kvíslum. Og ég veit ekkert um hvaða kvísla ég á að byrja á.
Ætla samt að lesa smá sögu í dag. Fátt eins uppbyggilegt og að lesa sögu atvinnuleysis á Íslandi.

Svo er ég að bíða eftir að málarinn hringi í mig. Ég á nú ekkert endilega von á því að hann geri það fyrir föstudaginn. En hey! er maður ekki vanur að bíða eftir því að karlmenn hringi í sig? Og af hverju ekki að gera eitthvað sem maður er góður í og gerir nokkuð fyrirhafnarlaust?

Ég kvíði fyrir næstu 9 dögum. Sverrir er að fara til pabba síns og verður hjá honum í rúma viku. Ástæðan fyrir því er sú að hann er búinn að vera hjá mér í voða, voða marga daga. Ég afvandist viku/viku skiptunum og vil bara hafa hann hjá mér.

Ég er með eitthvað stöff undir fætinum. Þarna á svæðinu sem heitir ekki neitt. Ekki il og ekki hæll og ekki táberg - heldur hitt. Mig klæjar og ég á vont með að hlaupa. Sem er nú ekki gott, því veðrið er gott.

Ég er ekki ástfangin, meira svona pirruð. Líður vel, en samt illa. Á elskhuga sem vill ekki vera kærastinn minn.

Er loksins að lesa Da Vinci lykilinn. Er komin á blaðsíðu 112 (einn-einn-tveir) og í raun ekkert farið að gerast en ég er samt spennt. Undir venjulegum kringumstæðum væri ég hætt, en veit ég geri það ekki þarna. Enda ekki venjulegar kringumstæður.

Svo velti ég því líka stundum fyrir mér hvernig ég eigi að borga framkvæmdirnar á stigaganginum. Það komu engin tilboð í bílinn. Ég er farin að hallast að því að það fólk sem hefur verið að dáðst að kagganum, hafi í raun verið að gera grín að honum! Getur það verið?

Svaf vel, dreymdi skemmtilega og er nokkuð massíf í hjartanu - held að ég geti bara tekist vel á við daginn.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Spurning dagsins...

Hvað varst þú gömul þegar þú varst farin að vinda kröftuglega?