englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, júlí 31, 2004

Söknuður 1

Mikið er nú landið okkar fallegt. Ég hugsa þetta alltaf þegar ég keyri norður. Ég verð nú að fara að kynnast því betur, ferðast meira o.s.frv.
Á leiðinni á Akureyri stoppuðum við í Skagafirði og fengum steiktan fisk og kartöflur. Þar hitti ég yndisleg hjón. Hún 83 ára og hann 85. Er búin að þekkja þau í mörg ár en ég tók eftir því að hún virðist vera hætt að brytja matinn hans.
Ég hef aldrei heimsótt þau á ættaróðalið fyrr en í gær. Það er alltaf töluverð stemning að ganga inn á heimili annarra og ég tala ekki um sveitaheimili. Rólegur andi yfir öllu, fullt af myndum á veggjunum og púðum í sófum. Ég var boðin hjartanlega velkomin og fékk meira að segja að leggja á borðið.
Húsfreyjan bjó lengi vel í Reykjavík. Í 15 ár bjuggu þau hjónin í Þingholtunum. Upphaflega stóð ekki til að dvöl þeirra yrði svona löng, hún var í raun alltaf á leiðinni heim. Hún sagði mér frá konu sem kom að máli við hana og vildi endilega fá að kynnast henni, því kona sem býr í 15 ár við búslóð einhvers annars, hlýtur að vera sérstök kona. Ég reyndi að ímynda mér hvernig það væri og var fljót að sjá að það væri frekar sérstakt (jafnvel hálf glatað).
Hún sagði mér að hún hafi orðið svo glöð þegar þau fluttu aftur heim. Hún gat setið tímunum saman við eldhúsgluggann og horft út. Hvort sem það var á ljósin frá Varmahlíðinni eða á bílana koma yfir heiðina.
Hún gerði sér ekki grein fyrir því fyrr en hún var komin heim að sálin hennar hafði verið full af söknuði og þorsta. Þarna er hún á réttri hillu og tekur glöð á móti öllum sem hana heim sækja og nærir þá á allan mögulegan hátt.

Það er svo gott að koma heim. Það er svo gott að eiga "heim" til að koma til.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Stefnumót

Þegar ég hef fest svefn á ég stefnumót við þig. Við hugsum okkur til hvors annars og ég finn hvernig armar þínir umvefja mig. Á meðan við leikum okkur tala sálir okkar saman. Í hita leiksins reynum við að útliloka bjölluhljóminn sem kemur úr buskanum - en hann færist nær og nær. Að lokum verður hann ekki umflúinn. Augun opnast og nýr dagur er hafinn. Við tökum honum fagnandi, því að loknum nýjum degi kemur ný nótt og þá eigum við stefnumót. 


Aktu á löglegum hraða og horfðu í kringum þig

Þögn er ekki það sama og samþykki! Ekur þú eftir einn? En tvo? En þrjá? Hvað kallast það þegar maður drepur mann af því að maður var að flýta sér?

það er greinilega að koma verslunarmannahelgi. Mér hefur alltaf fundist þessi helgi vera hálfgert vesen. Ekki leiðinleg eða neitt svoleiðis. Ég er bara svo baldin að mér leiðist svona skyldu-ferðalög. Finnst miklu skemmtilegra að vera heima og hitta hina sem ekki nenna að fara á þjóðhátíð, í Eldborg eða út í Viðey.

Auglýsingarnar fara þó ekki framhjá mér. Heitustu böndin á þjóðhátíð og barnaböndin í Galtalæk. Ego vs Írafár. Reyndar er Írafár líka á Sauðárkróki um helgina. Veit ekki alveg hvernig maður flokkar böndin sem spila þar.

Mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega skemmtilegt að keyra bíl. Það klæðir mig miklu betur að sitja í faraþegasætinu og horfa út um gluggann. Þá get ég fylgst með fólkinu, gluggatjöldunum, blómunum og sjónum. Reyndar hefur mér fundist svolítið gaman að keyra í sumar. Ég er nefninlega á vinnubíl sem kemst upp Ártúnsbrekkuna á 90 (minn kemst næstum því á 90 niður Ártúnsbrekkuna).  Vinnubíllinn er nettur og get ég því lagt honum næstum því hvar sem er og svo eru græjurnar í honum miklu betri en stofugræjurnar mínar - sem segir reyndar lítið um gæði þeirra.
Gatnaframkvæmdir sumarsins taka þó örlítið kúlið úr rúntinum mínum. Það er ekkert svakalega töff að rúnta um með skvísusólgleraugu á 30 km hraða. Eða hvað?
Hraðakstursáróðurinn er að skila sér inn í sálartetrið mitt. Þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag ákvað ég að keyra á sérlega löglegum hraða. Dúllaði ég mér á 30 um götur bæjarins (með skvísusólgleraugun) og viti menn, það rann upp fyrir mér ljós og augu mín opnuðust. Ég sá ekki bara skóna sem stelpan með barnavagninn var í, heldur sá ég líka aftan á hælana. Ég náði að skoða fólkið í strætóskýlinu nokkuð gaumgæfilega (maðurinn hefði nú alveg mátt renna straujárni yfir mestu krumpurnar á buxunum sínum). Ég sá fallega gamla konu. Sjórinn var grænn grænn grænn og regnboginn heill. Nýjar gardýnur á Hofsvallagötunni og ég veit ekki hvað og hvað.
Þarna var þá kannski svarið við mínum vandamálum komið?
Keyra um á 30 og fylgjast með í leiðinni. Eftir því sem ég hugsaði þetta betur fóru að renna á mig tvær grímur. Hvað tek ég til bragðs þegar fer að hausta og hámarkshraðinn eykst aftur? Sjálf hef ég takmarkaða þolinmæði fyrir gömlum körlum með hatta sem keyra um á 35 km hraða, af því að það var hámarkshraðinn þegar þeir fengu bílpróf.
Ætli sé ekki betra að fá sér bara göngutúr eða plata einhvern í bíltúr?

Verslunarmannahelgin..
Vegna þess hvað ég er opin og sveigjanleg ætla ég ekki að vera heima þessa helgi heldur fara norður á Akureyri. Ekki á Halló Akureyri heldur á eina með öllu. Sem er víst vísun í eina útihátíð með öllu - fyrir alla en ekki pylsur, eins og ég hef haldið í öll þessi ár. Það á örugglega eftir að vera mjög áhugavert.


miðvikudagur, júlí 28, 2004

Af hverju eru þeir fljótari en þær?

Ég á það til að fara út að skokka. Var eitthvað að vandræðast með það í byrjun sumars hvort ég ætti að gera þetta af einhverri alvöru, hætta þessu gutli og fara alla leið með þetta. Til að það yrði að veruleika þyrfti ég líklegast að sleppa mínum mikilvægu dansæfingum og öllu því sem fylgir þessháttar ástundun. Þegar ég var að vega og meta hvort það væri nú ekki þess virði, þá heyrði ég hvíslað í eyrað mitt að allir öfgar væru vondir. Þannig að ég tók ákvörðun um að dansa um helgar og hlaupa á virkum dögum (þegar ég væri búin að jafna mig eftir dansæfingarnar).

Engin mót og engar keppnir hef ég sótt í sumar en skoða þó stundum úrslit og svona. Ekki ósvipað og fótboltastrákar sem spila einu sinni í viku með félögunum en fylgjast þeim mun betur með öllum leikjum sem hægt er - í sófanum heima.

Ein af lífsins staðreyndum er að þvælast fyrir mér: strákar hlaupa hraðar en stelpur. Ef við tökum t.d. Reykjavíkur Maraþonið í fyrra sem dæmi. Það munar 24 mín. á fyrsta karli og fyrstu konu í maraþoninu. Þegar fyrsta konan kemur í mark eru samt 12 karlmenn komnir í höfn. Ekki bólar á annarri konu fyrr en í 44. sæti.  og svo ekki aftur fyrr en í 61. sæti.

Ég skil ekki hvað veldur þessu.

Ég fer venjulega ein út að hlaupa. Ekki það að mér leiðist að vera í félagsskap annarra, heldur meira af því að enginn nennir með mér. Í dag tókst mér að narra vin minn með mér. Hann krossaði sig í bak og fyrir og ég veit ekki hvort hann hefur talið mig geðveikari (fyrir það að láta sér detta annað eins í hug að draga hann út í þetta) eða sig sjálfan (fyrir að láta hafa sig út í vitleysuna). Hann sló alla varnagla sem hægt var að slá og ég lofaði að fara mjög rólega, spæna ekki í burtu og vera almennt til friðs.
Nema hvað...
Hans ofurrólegi hraði var alls ekki ósvipaður mínum venjulega hraða. Þetta hentaði mér ágætlega alveg þangað til að hann fór að verða þreyttur - ÞÁ FÓR HANN AÐ GEFA Í!
Þegar við nálguðumst endastöðina hans (þá átti ég eftir að koma mér að minni endastöð) var hann farinn að spæna upp malbikið og ég skildi ekki neitt í neinu.
Þegar leiðir skildu var hann farinn að líkjast súperman á góðum degi en ég gat þá loks farið aftur í minn fallega kvenlega hraða.
Sjálf kom ég í mark á tíma sem hefur líklegast dugað mér í 66. sæti í blönduðum flokki, en þar sem ég var ein á ferð var ég fyrst allra - kvenna og karla.

stressaðra kynið

Morgnarnir hjá okkur mæðginunum eru yfirleitt nokkuð átakalausir, enda er sonur minn búinn að læra að á morgnanna drekkur maður kaffið sitt og les blöðin og talar ekki. Nei nú lýg ég. Hann er aaaalveg að fara að læra það. Ég lærði það fljótlega að til að fá rólega morgunstund, þarf ég að vakna aðeins fyrr en lífsnauðsyn telst. Þrátt fyrir það er alltaf ægilegt kapphlaup við klukkuna svona á síðustu metrunum.
Morguninn í morgun leit út fyrir að verða undantekning en var það auðvitað ekki, þegar upp var staðið og út komið.
Við vorum að fara út og hafði ég góðar 10 mínútur til að koma mér niður á Sundahöfn, þá kom í ljós að úlpan hans Sverris var ekki þar sem hún átti að vera.  "Hvar er úlpan þín?" "Ég veit það ekki" Hvar fórstu úr henni?" "það man ég ekki" "Varstu í henni í gærkvöldi, þegar þú varst að leika við strákanna?" "Ég man það ekki...ég heeeeld það"
Eftir mikla leit innan dyra sendi ég hann út í garð til að leita, með það að veganesti að flýta sér því við værum að verða of sein (en ekki hvað?). Þegar mig var farið að lengja eftir honum fór ég á eftir honum (til að reka á eftir honum), var hann ekki í garðinum.  Á meðan ég svipaðist um eftir úlpunni, leitaði ég að honum líka. Fann hann svo fyrir rest nokkrum görðum í burtu - AÐ BORÐA RIFSBER!!!
Hafði bara ekki fundið úlpuna.
Ég sagði honum að við þyrftum að taka pening úr bauknum hans til að kaupa nýja úlpu en hann hafði aldrei heyrt aðra eins fásinnu. Hann ætlaði sko ekki að fara að spreða peningunum sínum í þannig vitleysu.
Auðvitað búin að glata þessu forskoti sem ég hafði á tímann setti ég hann í peysu og sagði að þetta væri nýja úlpan hans, held að honum hafi verið nokkuð sama.
Svo þegar við hittumst  aftur að vinnudegi loknum, var hann peysulaus. Og enn byrja ég: "Hvar er peysan þín?" "ahhh..gleymdi henni hjá Kristjáni" "Úlpan þín í gær og peysan í dag!!!" Ég alveg að komast upp á Háa C-ið, þegar Venni pabbi hans Kristjáns segir: "úlpan er hjá okkur, varstu ekki búin að fatta það?" Og "sverrir, náðu í peysuna þína í bílinn"

Á morgun ætla ég að anda áður en ég andast.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Slúður

Ég er forvitin að upplagi. Hef átt frekar erfitt með að skilja hvernig fólk getur ekki spurt að hinu og þessu, bara af því að "gerir ekki svoleiðis" eða eitthvað annað álíka gáfulegt. Ég er stöðugt að skoða, spyrja, fylgjast með og safna.  Sumu raða ég svo saman og geymi inní mér, öðru deili ég með fleirum. Slúðra - gæti einhver hugsað. Kannski - kannski ekki. Ég nefninlega veit það ekki.
Það er í þessu eins og öllu: hvítt, svart og grátt svæði.
Hvenær hættir maður að vera forvitinn eða umhugað um náungann og fer að verða hnýsinn?
Hvenær hættir maður að "spyrja fólk að hinu og þessu" og fer að standa á sama um það?
Hvað eru almennar umræður um daglegt líf og fólk sem í því býr og hvað er slúður?
Það væri hægt að halda því fram að slúður væri á neikvæðu nótunum. Neikvæðar umræður um náungann. Kannski.
Er þá í lagi að tala um fólk svo lengi sem það er á jákvæðu nótunum? "Gvuuð hvað hún Sigga er alltaf smart" - er í lagi, en "Hallóóó fatastíll Gunnu er þvílíkt umhverfisslys að annað eins hefur ekki sést í aldir alda" er það ekki?

"Stelpan sem situr við hliðina á mér í skólanum, er alveg rosalega dugleg. Henni gengur vel í skólanum og allt virðist leika í höndum hennar. Hún er greinilega á réttri hillu í lífinu. Hún er svo heppin að eiga góða að, kærastinn hennar er frábær og börnin þeirra alveg stórkostlega skemmtileg" - Er í lagi

"Stelpan sem situr við hliðina á mér í skólanum, er ekkert smá löt. Henni gengur hryllilega í skólanum, það er eins og hún geti ekki gert neitt rétt. Hún ætti greinilega að vera að fást við eitthvað annað. Svo er kærastinn hennar alveg ömurlegur og ekki eru börnin skárri" - Er ekki í lagi

Er gott að spyrja ekki?
Ef maður spyr ekki, er maður þá ekki að gefa það til kynna að maður hafi ekki áhuga?
Ég held það. 

mánudagur, júlí 26, 2004

Súkkulaði þykir gott með rauðvíni

Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að sjá hvað við erum misjöfn - þ.e. mennirnir. Við erum víst eins misjöfn og við erum mörg, það segir amk máltækið. Ég er alveg að ná þeim þroska að skilja það að ekki hafa allir sama húmor og ég og það geta alls ekki allir lesið hugsanir mínar.
Ég fór í sjoppu um daginn, örugglega til að kaupa mér heislusúkkulaði eða eitthvað álíka gott fyrir kroppinn. Á afgreiðsluborðinu er í svona súkkulaði kassa, Nóa Síríus rjómasúkkulaði. Eins og sjálfsagt flest okkar kannast við. Það sem var hins vegar frábrugðið við þessi súkkulaðistykki var stærð og umbúðir. 40 gr stykki í nýjum umbúðum. Ég tek þetta upp og skoða vel og vandlega, svona til að ganga úr skugga um að ekki sé um nýtt súkkulaði að ræða - sem ég yrði þá auðvitað að smakka.
"Nú já, gamalt vín á nýjum belgjum" hugsaði ég og lagði súkkulaði stykkið aftur í kassann.
Afgreiðslustelpan horfði á mig og spurði mig hvort mætti ekki bjóða mér (ég held að hún hafi örugglega ekki verið að BJÓÐA mér), ég afþakka og segi að ég viti alveg hvernig þetta súkkulaði sé á bragðið.  "Nú" segir stelpan, "vinnur þú hjá Nóa og Síríus??????"
Ég meig næstum því á mig af innbyrgðum hlátri.

Svo veit maður náttúrulega aldrei, kannski var hún bara að snúa á hallærislegt svar mitt?? Og var sjálf alveg að míga á sig, hvað veit maður?

sunnudagur, júlí 25, 2004

Tónlist

Af því að ég hef svo ótakmarkaðan tíma aflögu fékk ég lánaðan gítar um daginn. Svo arkaði ég á bókasafnið og fékk mér fullt af gítarkennslubókum. Núna er ég að bardúsa við að læra C og G og svo á ég bara D-ið eftir og þá ætti ég að vera orðin nokkuð örugg með hlutverk í rokkhljómsveit.
Ég verð að viðurkenna að mér líður hálf ömurlega, þegar ég sit með einhverja kennslubók fyrir framan mig og skil ekki neitt í neinu. Myndin framan á kennslubókinni er ekkert að hjálpa mér að vinna mig upp úr "aumingjaskapa-fílingnum": hópur af krökkum á aldrinum 5-11 ára og allir kunna að spila á gítar. 
Tilfinningin er af svipuðum toga eins og þegar ég kom til Frakklands með stúdendtspróf í frönsku í farteskinu, svo skildi ég ekki orð. Meira að segja litlu krakkagemlingarnir töluðu betri frönsku en ég!!!
Getur verið að aldur segi ekki allt um allt? Og ég sem hélt að ég væri loksins að verða seif!

Vinátta

Hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvernær maður eignast vini. Hvenær verða kunningjar að vinum og hvernig vinir eru vinir. Eru vinir vinir þó að maður treysti þeim ekki fyrir öllum sínum hjartans málum? Eða geta vinir verið vinir ef maður teystir þeim kannski ekki neitt? Varla. Mér finnst þetta hugtak vera dýrmætt. Ég passa þetta orð. Það er ekki gott að ofnota það.
Ef allir sem maður hefur einhver persónuleg samskipti við eru titlaðir sem vinir, þá missir orðið merkinguna sína. Kannski ekki ósvipað og að vera sífellt að segja þeim sem maður elskar að maður elski hann.
Ég á fullt af alls konar vinum og enn fleiri kunningja. Ég á vini sem ég get talað við um mjög takmarkaða hluti og svo á ég vini sem ég get talað við um allt. Þetta er eiginlega svona skemmtilegur grautur af fólki. Suma þarf ég ekki að hitta eða heyra í í langan langan tíma, aðra langar mig að hitta oft oft. Þeir eru ekkert endilega betri vinir mínir, bara öðruvísi.

Það er svolítið undarlegt ferli sem fer í gang þegar maður er að eignast nýja vini. Þetta er viðkvæmt ferli. Svolítið brothætt. í sumar eignaðist ég nýjan vin.
Nýji vinur minn er strákur. Ferlið við að eignast strákavin er eiginlega miklu viðkvæmara en þegar maður eignast stelpuvin. Það getur alltaf einhversskonar misskylningur komið upp þegar miklar tilfinningar eru í gangi. Er alveg pottþétt að viðkomandi er bara vinur? Hvernig getur maður verið alveg viss? Ætli maður verði ekki bara að treysta? Traust er víst eitt það sem einkennir góða vináttu - sama hvernig vináttan er. Þannig að niðurstaðan hlýtur að vera sú að það er ekki hægt að kalla einhvern vin sinn sem maður treystir ekki.

Mér finnst ég vera heppin að þekkja fullt af fólki sem ég treysti og vona að treysti mér.

laugardagur, júlí 24, 2004

Eins og lélegt strákaband

Fyrir nokkrum helgum síðan var ég að ganga heim til mín eftir dansæfingu. Fyrir framan mig gengu hlið við hlið 4 strákar. Þeir voru eitthvað voðalega sætir eða kannski frekar krúttaralegir og gat ég ekki fyrir mitt litla líf tekið fram úr þeim án þess að segja neitt við þá. Þannig að þegar ég arka fram hjá þeim segi ég við þá: "þið eruð eins og lélegt strákaband svona aftan frá séð" Eins og gefur að skilja voru þeir ekkert svakalega hrifnir af þessu kommenti mínu en það var alls ekki illa meint.
Nema hvað svo í gær var ég enn og aftur að koma af dansæfingu. Þetta var löng og ströng æfing og ég var orðin óskaplega svöng. Til að geta lagt í Túngötuna skrapp ég inn á pizza e-ð á ingólfstorginu og pantaði mér rosalega girnilega margaritu sneið. Inni á staðnum var mikið stuð, enda voða sæt stelpa að vinna þar og viðskiptavinirnir voru allir strákar á hennar aldri. Ég er að fara að borga pizzuna mína og þá heyri ég sagt við hliðina á mér: "hey, það varst þú sem sagðir að við værum eins og lélegt strákaband!!!"
Ég varð hrædd í eitt augnablik, alveg þangað til að ég horfði í glettin, blá augu. Við hlógum að þessu saman og hinir vinirnir sem urðu fyrir þessu "aðkasti" frá mér komu og skoðuðu mig. Það kom svo í ljós að þeir voru eftir allt saman í hljómsveit og núna kalla þeir hana "lélega strákabandið"
Segja svo að maður hafi ekki áhrif...

Á eftir rigningu kemur stundum sól

Mér finnst alveg magnað hvað tæknin er skemmtileg. Að geta setið úti í garði og verið með tölvuna sína í fanginu og netið og allt. Auðvitað ekki þráðlaust net, því ég er svooo hrifin af snúrum. Það var skemmtileg rannsókn sem ég tók þátt í í gærkvöldi. Hún stóð reyndar alveg fram undir morgun. En það er víst þannig með svona rannsóknir, þegar þær eru viðamiklar taka þær oft langan tíma. Mér finnst fólk skemmtilegt. En ég skil það ekki alveg alltaf. Af hverju er fólk að fara út að "skemmta" sér, og stendur svo bara og lætur sér leiðast? Er ekki alveg að fatta það, jafnvel þó svo að það sé á einhverjum stað sem á að vera voða hipp og kúl.  Segi meira frá rannsókninni á eftir... sólin bíður mín.

föstudagur, júlí 23, 2004

Já rigningin

Sit annars núna og hlusta á disk með Möggu Stínu. Hún er sæt og diskurinn soldið sætur líka. Skil samt ekkert af hverju allt þetta vatn er að leka niður úr skýjunum. Hugsa að ég fari í pils og netasokka og græna regnkápu og drekki saft með röri.

þegar rignir verður sumt blautt annað ekki

Fór í Kolaportið um daginn. Þetta er merkilegt fyrirbæri, þ.e. kolaportið. Allir verða alltaf að vera að kaupa eitthvað, sumir kaupa nýtt dót og henda því gamla - í Kolaportið. Svo fara hinir og kaupa gamla dótið þeirra - í kolaportinu.
Ég fór að skoða bækur. Mér finnst óskaplega gaman að skoða og kaupa bækur. Sumar les ég svo þegar ég kem heim, aðrar fara beint upp í hillu - og svo þegar fram líða stundir, fara þær í kolaportið.
Ég skoðaði fallega ástarljóðabók. Það var búið að skrifa inn í hana með fallegu bleiku letri: Til þín frá mér. Mikil er ástin sem endar svo bara í Kolaportinu. Svolítið trist finnst mér. Ég skoðaði líka afmælisdagabók. Inni í henni fann ég litla úrklippu úr dagblaði sem á stóð: sumarbústaður til sölu. Ætli hún hafi látið verða af því að kaupa hann, eða ætli það hafi verið draumur sem aldrei rættist?
Hugsaði um þetta í smá stund og ákvað svo að best væri að ég færi heim og tæki bók úr hillunni minni, sem ég hefði aldrei lesið.