englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, október 27, 2005

Linkur

spurning hvort eigi eitthvað að vera að fylgjast með þessu?

þriðjudagur, september 06, 2005

Af hverju?

Ég er komin í nýja vinnu. Það er nokkuð gaman í þessari vinnu, ég er að takast á við fullt af spennandi og krefjandi verkefnum. Mér finnst yfirleitt gaman, en ekki alltaf. Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvað maður er skrítinn. þegar eitt er ekki gaman, er eins og hitt verði ekki gaman heldur. þegar mann langar til að leggjast út af á einum stað, langar mann að liggja bara út í eitt.

Ég veit nú alveg að ég læt þetta ekki ná tökum á mér. Ég kem ekkert til með að liggja, hvorki þar né hér.

En það er samt gaman að spá í það, hvað maður er einfaldur eftir allt saman. þarf oft ekki annað til en eitt urr, eitt öðruvísi en planað var, eitt bros eða klapp á bakið - til að breyta viðhorfi manns til alls annars.

Já stuðning. Það er kannski það sem hjálpar manni í gegnum allt. Ef maður finnur stuðning þeirra sem manni standa næstir. "Ég skil ekki endilega hvað þú gerir, og hef ekki endilega áhuga á því, en ég styð þig og ég er tilbúin til að tala við þig og sýna þér að líðan þín skiptir mig máli" það er kannski svoleiðis hugsunarháttur og viðhorf sem hjálpar manni í gegnum dagana...

það helsta

held að Sævar sé hættur að elska mig. Það er að verða tæp vika síðan ég og sambýlismaðurinn hjóluðum með bíllykilinn til hans en bíllinn stendur enn á sama stað.
ískápamaðurinn kom í gær og horfði á mig eins og ég væri geðveik...kannski er ég það bara?
en minn elskulegi pípari kom og lagaði til í þvottahúsinu, reyndar lekur enn örlítið...líklegast hefur hann skilið eftir smá dropa svo hann hafi tækifæri á að koma aftur í kaffi til mín og vonar að í það skiptið eigi ég ókekkjótta mjólk.
kannski fæ ég ljós í svefnherbergið í kvöld...
og ég á nýjan vask, reyndar fylgdi ekkert með honum. Þá meina ég ekkert, ekki einu sinni tappi - en hann var líka á svo ægilega hagstæðu verði...þarf bara að fara út í búð og kaupa botnvörpu..eða var það botnloki?

samstarfkonu minni þykir hún bara frekar heppin svona við hliðina á mér...ef frá er talinn einn sprunginn dvd-spilari.

föstudagur, september 02, 2005

Betra

Gott og fallegt veður í dag, finnst eins og gírarnir séu komnir í lag. Kannski þurfti bara að smyrja þá? Eða endurstilla?

fimmtudagur, september 01, 2005

Tóm

Tárin mín eru hol að innan. Ég sit bara og stari á þau falla niður á gólfið og verða að engu. Líkami minn fylgdi sálinni og er kominn í hnút. Hvenær tekur þetta enda? Er ekki komið nóg?

prumufýla og málning

Við Sverrir vorum að spjalla saman á meðan ég var að fara seinni umferð yfir loftlistana í eldhúsinu. Ég var eitthvað að stríða honum á prumpulyktinni hans og sagðist ætla að fara í skólann og segja í heimakrók að honum þætti prumpulyktin sín góð. Mér fannst þetta alveg ótrúlega fyndið, því ég veit sem er (og hann hefur ekki enn viðurkennt) að fólki finnst síns eigins prumpulykt betri en annarra.

Ég hefði líklegast samt betur sleppt því að vera með þetta uppistand, því á meðan ég var að hrella soninn, missti ég akríl lakk málningardolluna úr höndunum og innihald hennar helltist niður á vegginn, skenkinn og auðvitað á gólfið.

Það eina sem ég get sagt er að sem betur fer var þetta ekki rauð málning...

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

orð

Var eitthvað að lesa áðan og hnaut um þessar fyrirsagnir:
- Ábyrgð
- Upplýsingar frá...til
- Aðgengi að upplýsingum
- Frumkvæði að upplýsingagjöf
- Innri upplýsingamiðlun
- Framsetning upplýsinga
- Upplýsingagjöf vegna sérstakra aðstæðna

Framsetning og aðgengi að upplýsingum er án efa mjög mikilvægt, sama hvaða upplýsingar um er að ræða...

gæti ég fengið eina staka báru takk?

Ég reif niður flísar og byrjaði að mála...jú jú það var komið fram og raki í loftinu..jú jú, það var komið fram. Fann reyndar smá raka í vegg líka, en er ekki alveg búin að taka ákvörðun um hvort ég loki augunum fyrir því.

Múrinn sem var bak við flísarnar var eitthvað aumur og fór slatti af veggnum með flísunum. Ætlaði að spartsla í þetta en held að ég þrufi að múra. Er það ekki bara sandur og vatn og smá lím?

Eitthvað gengur brösulega að festa hurðina sem keypt var um daginn sem á að dekka þriggja ára gatið. Spurning um að fara bara í fyrstu lausnina? Setja tjald fyrir?

Ískápurinn minn byrjaði allt í einu að ýlfra. Ég skildi ekki alveg hvað var í gangi, datt helst í hug að þetta væru hávær mótmæli bjórleysi í þartilgerðumbjórrekka. En við nánari athugun kom í ljós að það voru klakataumar inní kælinum og frystihólfið var allt út í krapi (utan á skúffunum sem og inní þeim) og ýlfrið hélt áfram. Ég prófaði að slökkva á ísskápnum og eftir einhvern tíma hætti ýlfrið en krapið er ennþá. Ég er auðvitað ekki neinn sérfræðingur í ísskápum og er alls ekki að kaupa mér svoleiðis á hverjum degi, en ég held að þetta sé ekki alveg eðlileg framkoma hjá splunkunýjum ísskáp. Er að bíða eftir símtali frá ELKO.

Nágranni minn bankaði uppá í gærkvöldi
- Jóda, ertu búin að sjá kranann þinn inní þvottahúsi?
- ha? nei er hann eitthvað extra fínn?
- tja..

Ok. þrýsti jafnarinn er ónýtur. Tryggingin mín dekkar það ekki. Gólfið í þvottahúsinu er eins og vaðlaug fyrir litlar fætur eða stórfljót fyrir álfa. Spurning um að slá á þráðinn til píparanna minna og rifja upp gömul kynni?

Bíllinn minn er eitthvað búinn að ganga undarlega upp á síkastið. Fór og lét smurningamanninn kíkja á hann áðan. Sjálfskiptivökvinn lekur inn í vatnskassann. Þarf víst að skipta út því elementi og einhverri hosu og eitthvað. Það bullsauð á honum (þá meina ég bullsauð) og hann ýlfraði eins og nýr ískápur frá ELKO. Smurningamaðurinn bannaði mér að keyra á honum heim. Ég hlýddi, skildi hann eftir og smurningamaðurinn keyrði mig og sambýlismanninn heim. Þarf að hringja í Sævar bifvélavirkja og ath hvort honum þyki ennþá vænt um mig.

Ég var að panta mér tölvu í gær...
veit ekki alveg hvort ég þori að sækja hana...

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Nýr?

Erum við að fara að fá nýjan borgarstjóra...úr röðum sjálfstæðismanna? Sem þarf bara að raka sig 2 sinnum í viku?

mánudagur, ágúst 29, 2005

Af unnustum

-mamma ég á tvær kærustur núna.
- Ha?
- Já, Hildur þessi sem ég átti og svo Sólveig aftur, sem ég átti einu sinni
- Bíddu er það í lagi?
- Já, ég á bara eftir að segja Sólveigu það.
- Ha (ein ekki alveg að ná þessu) má maður eiga tvær kærustur?
- Já auðvitað, en maður má ekki giftast þeim báðum
- Má ég þá eiga tvo kærasta?
- Já, þú mátt bara ekki giftast þeim báðum
- Bíddu...(enn ekki alveg að fatta þetta) ertu viss um að þetta sé í lagi???
- já það er í lagi....
... veistu að maður þarf bara að læra litla "ð"...

föstudagur, ágúst 26, 2005

Framkvæmdir

Fyrir nokkru síðan stofnaði ég eldhúsútibú í stofunni og byrjaði að rífa niður flísarnar í aðalútibúinu. Mér sóttist það verk vel en viðurkenni að sú vinna sem kom í kjölfarið hefur farið hægar af stað. Ætli megi ekki segja að ég hafi hreinlega verið upptekin í öðru.
En ég málaði jú loftið um daginn...
Þegar bleika málningin var þornuð og orðin hvít komu í ljós rakablettir...en ekki hvað. Auðvitað varð að vera eitthvað smá klikk.
Ég talaði við doktorinn og sagði honum að hætta að bursla svona í baðinu. Hann lofaði því og hringdi í tryggingafélagið og fékk pípara í heimsókn.
Haldið þið ekki að Sigmar hafi kíkt til hans og beðið fyrir kveðju til mín. Skilið eftir símanúmerið sitt hjá honum og sagt að ég mætti alveg bjalla, til að fá sérfræðiálit á rakablettunum.
Ég hef nú ekki enn komið því í verk, en um helgina ætla ég að klára að mála og jafnvel sækja borðplötuna sem mér var gefin...(nei alveg róleg - ekki missa þig í framkvæmdarplönum)

Svo eru það tölvumál: Tölvan mín er enn lasin. Ég held eignlega að hún sé að deyja. Fékk boð um lyklaborð til prufu, en hvort sem það er snobb eða smámunasemi, þá finnst mér fartölva tengd við stóran skjá og aukalyklaborð einhvernvegin ekki alveg vera málið. Er að velta fyrir mér Dell og IMG

mánudagur, ágúst 22, 2005

menning

Við mæðginin vorum því miður aðskilin á menningarnótt. Við ætluðum að reyna að hittast (þ.e. rekast á hvort annað) en einhverra hluta vegna gekk það ekki alveg upp.
En hann kom í heimsókn daginn eftir og þá spjölluðum við aðeins um daginn og kvöldið.
Hann spurði að sjálfsögðu hvernig mér hafði gengið í hlaupinu og var bara eftir allt saman nokkuð sáttur við að ég hefði bara farið hálft maraþon. Reyndar var hann greinilega ekki alveg sáttur við að ég hefði bara lent í 26. sæti í mínum flokki, en medalían var flott.
- Vá mamma, þetta er stærsta medalía sem þú hefur fengið!!!

Við ræddum pínu um gildi þess að vera með og ekki endilega vinna sér inn sæti á verðlaunapalli... bla bla bla... (fannst honum a.m.k.)

- Sástu Rúslönu?
- Ha? var hún að spila á menningarnótt?
- Já, en ekki á stóra sviðinu. Hún var á litla sviðinu!
- Nei, ég hef bara alveg misst af því.
- Já, ég líka.

- Sástu fulla manninn?
- hmmm... það getur verið
- var hann í hvítum bol?
- tja..jafnvel
- þá er það sá sami og ég sá

- En sástu fullu konuna?
- örugglega
- var hún að syngja og henda rusli?
- nei, það held ég ekki
- þá hefur það ekki verið sú sama

- Sástu flugeldasýninguna?
- Já, sást þú hana líka?
- Já
- Gaman, þá höfum við verið að horfa á hana á sama tíma
- Já, fannst þér ekki gaman þegar allir voru að telja?
- Jú, það heitir að telja niður.
- Já, taldir þú?
- Já, ég líka

Þannig að þegar upp er staðið þrátt fyrir að við höfum ekki náð að hittast, þá töldum við saman niður og horfðum saman á flugeldasýningu í grenjandi rigningu og sáum fulla manninn í hvíta bolnum. Hjörtun slóu saman þó við héldumst ekki í hendur. Það gerðum við bara á sunnudaginn.

föstudagur, ágúst 19, 2005

tölvan i fokki

tölvan min er i meiriattar rul ruli
ekki æt að stroka ut o sumir stafir eru bara oskrifanleir
ef einver etur sat mer vað er i ani þa þætti mer ott að fa raðleinar um vað e ætti að era (aðafast) w

er þetta ekki sniðut?
amk fyndið?
sma???

a e ekki bara að skella mer til new you york o kaupa mer nyja tölvu?

pólitík

Getur einhver sagt mér hvað er í gangi hjá Össuri?

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Bleikur

Í gær kom ég mér loksins í það að byrja að mála. Málaði loftið. Fyrir áhugasama amatöra þá er komin á markað snilldar loftmálning, sem er ljósbleik en verður hvít þegar hún þornar. Sem þýðir enga helgidaga.
Ég varð svo fúl þegar gaurinn í BYKO sletti málningu á Sverri, þegar við vorum að kaupa græna málningu um daginn að ég gleymdi að kaupa málningu á veggina. Þannig að nú er bara að spartsla og skella sér svo aftur í BYKO.
Veit þó ekki alveg hvað mikið kemst í verk fyrir laugardaginn...þar sem næstum hver andardráttur og hugsun verður tileinkuð maraþoninu.

Talandi um maraþon. Sagði Sverri í morgun að ég væri að fara að hlaupa í maraþoni á laugardaginn. Brúnin lyftist á honum - það sem hann er endalaust stoltur af móður sinni...en brúnin seig jafn fljótt niður og hún hafði risið, þegar ég sagði honum að ég ætlaði að hlaupa hálft maraþon. Eitthvað voðalega lélegt við að gera eitthvað til hálfs. Hann tilkynnti mér að hann ætlaði að hvetja mig þegar ég hlypi heilt maraþon.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

hana...

Samþykki Skref 4 af 7


Ég staðfesti hér með að ég er bæði andlega og líkamlega fær um að ljúka viðkomandi vegalengd sem ég skrái mig í. Ég leysi því hér með framkvæmdaraðila Reykjavíkur maraþons undan allri ábyrgð á tjóni, meiðslum eða veikindum sem ég gæti orðið fyrir í viðkomandi hlaupi.

Já, ég samþykki

------------------------------------------------------------------

Kvittun fyrir greiðslu Skref 7 af 7

Takk fyrir skráninguna

Við höfum móttekið greiðslu fyrir eftirfarandi:

Nafn hlaupara Hlaup Vegalengd Keppnisnúmer Bolastærð
Elín Valgerður Margrétardóttir Íslandsbanka Reykjavíkurmaraþon 21 km Hálfmaraþon 1317 Small


og trúið mér þegar ég segi að þetta er ekki ókeypis!!!

Árstíðir

Vetur - vor - haust...
er það nema von að fólk ruglist aðeins á árstíðunum?

Framtakssemin er mig lifandi að drepa.
Í gær sótti ég mdf hurð sem ég lét sníða fyrir mig. Hurðin á að koma í staðin fyrir eldhússkápahurð sem losnaði frá hinum systkinum sínum fyrir uþb 3 árum (ok kannski tveimur)

Nú er spurning hvort ég meiki að kaupa hjarir innan næstu þriggja ára, svona til að halda tempóinu?

Talandi um tempó...það styttist óðum í Reykjavíkurmaraþon (og upphaf gæsaveiðitímabilsins) eru ekki allir búnir að skrá sig?

mánudagur, ágúst 15, 2005

Fyrsti dagur

Senn er fyrsta degi í nýju starfi lokið. Komin með skrifborð, tölvu og stól. Vonandi fæ ég ruslafötu og síma á morgun.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Hjálmar fyrir allan peninginn

Fór loksins að hlusta á Hjálma í gærkvöldi. Mikið sem það var nú gaman. Fannst reyndar undarlegt að ganga inn í reykelsismökk á Nasa. Þriðji hver maður gekk um með reykelsi í hönd. Miðað við tónlist Hjálma, dró ég þá ályktun að reykelsinsstækjan væri til að eyða annarri lykt. En ég veit svosem ekkert um það.

Húsið var stútfullt og þakkanði ég fljótlega fyrir að hafa endað í pilsi í stað gallabuxna. Tónlistin er náttúrulega skemmtileg, og gaman að fylgjast með þeim flytja hana. Greinilegt að hljómsveitarmeðlimir eru vinir sem hafa gaman af því að spila saman tónlist.

Flóra gesta var mikil. Fannst mér venjulegt fólk sem óvenjulegt fólk (hvernig sem sú aðreining á sér stað) vera jafn áberandi. Stórt og lítið, en þó fleiri ungir en aldnir - þó vissulega sé aldur afstæður.

Nokkrir frekar skemmtilegir karakterar voru sjáanlegir og verður þeim vonandi gerð skil seinna meir.

Mikið skemmti ég mér vel, dillandi mér við upplífgandi, seiðandi tónlist í góðum félagsskap...

föstudagur, ágúst 12, 2005

Gott mál

Er þetta ekki dásamlega fallegt?

Í bata eða fallin?

Sumir myndu kalla mig grænmetisætu í bata, aðrir gætu kallað mig grænmetisætu á fallbraut. Eins og venjulega er ég ekki að velta mér og mikið upp úr titlum, en ég hins vegar borðaði kjöt í gær. Ekki fisk og ekki fugl. Heldur hrefnu. Mér varð ekki meint af, fannst bara alveg ljómandi ágætt að borða þetta. En viðurkenni þó að svona daginn eftir örlar á örlítlilli klýgju við tilhugsunina um blóðið...en úr því að ég get gert að fiskum...

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Ballið er byrjað

Í gær sló ég niður flísarnar í eldhúsinu og undirbjó skápa fyrir málun. Fékk til mín fagmann (hljómar miklu betur en að segja Flosa hennar Nínu) til að meta ástand borðplötunnar og fékk falleinkun á hana. Undirbúningsvinnu verður senn lokið en ég er hvorki búin að ákveða hvernig flísar né hvernig málningu ég ætla að fjárfesta í...spennan er gífurleg á heimilinu.

Fram að þessu er ekkert sem bendir til þess að þessar framkvæmdir verði eins tímafrekar og dramatískar og baðherbergisframkvæmdirnar. En hvað veit maður? Ég átti svosem ekki von á því að fá pípara inn í fataskáp til mín, þegar ég sló niður fyrstu flísina inni í sturtuklefanum.
Hvað þá að Siggi smiður myndi rífa upp gólfið í svefnherberginu...allt út nokkra klukkutíma framkvæmdum á baðinu.

Það er alltaf gaman að byrja á svona framkvæmdum, en ég verð að segja það að ég hlakka mest til þegar þeim verður lokið.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Heimur okkar allra

Það er svo merkilegt að þegar maður lítur úr sínum eigins rassi, þá er bara fullt af öðru fólki til, sem er að gera fullt af skemmtilegum, skrítnum og sniðugum hlutum.
Ég fór í sveitaferð um síðustu helgi. Í sveitinni veiddi ég 57 fiska og gerði að þeim (ok ekki öllum, var pínu hæg til verka) og svo sigldi ég upp að Langjökli og hlustaði á hann stynja. Ég stakk hendinni ofan í vatnsuppsprettu. Á meðan ég var stödd í þessum ævintýra heimi var fólk að marsera niður Laugarveginn í skrautlegum klæðnaði og fagnaði innilega. Gleðin þeirra var ekkert síðri en mín, kannski bara öðruvísi. En það þarf ekkert einu sinni að vera að hún hafi verið öðruvísi. Gleðin yfir ástandi, fallegu ástandi.

Ólíkt mögum þeirra sem marseruðu niður aðal verslunargötu Reykjavíkur, var ég ekki timbruð á sunnudaginn. Ég var enn í vímu. Hreint súrefni og símasambandsleysi getur gert manni gott.

Annað er kannski ekki eins gott. Það virðist sem að á sama tíma og ég hélt upp á 32 ára afmæli mitt, var gamall maður að deyja í Noregi, ofan í blaðið sitt. Enginn saknaði hans. Það var ekki fyrr en tryggingafélagið tilkynnti að gamli hefði ekki sótt bæturnar sínar í 9 mánuði, að farið var að grenslast um hann. Og fannst hann látinn.

Reyndar minnir mig að ég hafi ekki haldið upp á afmælið mitt á neinn hátt og jafnvel verið eitthvað ófestlige. Kannski það hafi verið samúðin fyrir þeim sem deyja einir og enginn saknar?


Veltið því fyrir ykkur þegar þið lesið þessi orð, hvað hinir í heiminum eru að gera á þessum tímapunkti.

Njótið tilverunnar!

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

fullyrðing dagsins

- Þegar ég heyri minnst á Öskjuhlíðina langar mig alltaf svo í ferskju...eða apríkósu

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

lausnin fundin

Hver með sínu nefi

Við sambýlingarnir vorum í ísskápaleiðangri. Fundum loksins einn alveg rosalega fínan. Innréttingarnar voru alveg frábærar og allt eins og það á að vera. Meira að segja er svona flösku rekki, þar sem maður getur geymt sódavatnið sitt og stöku appelsínflösku. Þrátt fyrir að sjá alfarið um fjárútlát á heimilinu finnst mér eðlilegt að bera svona hluti undir sambýlismanninn. Honum leist rosalega vel á hann, en við ákváðum samt sem áður að skoða víðar áður en þessi skápur væri festur. Þegar við göngum út úr búðinni og erum enn að dásama gripinn, hvíslar drengurinn að mér: já, svo er svo sniðug hilla þar sem þú getur geymt bjórinn þinn!

Ég spyr hvort er það hann eða ég sem lifi í sjálfsblekkingu?

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Næsta mál á dagskrá

Þar sem baðherbergið virðist haldast nokkuð þétt og virkar ágætlega - reyndar eftir frekar mikið maus en virkar samt...þá er ég að ráðast í eldhúsið.

Já, maður er nú búinn að spjalla svo mikið við pípara undanfarna mánuði og svo þekki ég smið og málara að ég get ekki séð annað en að ég geti riggað einu eldhúsi. Veit reyndar að ég á Hauk í horni og jafnvel Hauka ef út í það fer. En sjáum til hvað ég kemst upp með að gera sjálf.

Er búin að fara í nokkrar flísa/eldhúsvaska/blöndunartækja/ískápa búðir og er næstum því búin að fá leið á þeim, án þess að vera búin að fjárfesta í einum einasta hlut. Fór heim með mosaíkflísaprufu í dag, finnst hún flott, en vex pínulítið í augum hvað þær eru litlar elsku flísarnar...en fallegar eru þær.

Svo er það alltaf spurning með gluggatjöldin...

mánudagur, ágúst 01, 2005

hananú

Það eru komin rauð lauf á trén

sunnudagur, júlí 31, 2005

Glöð

Ég nennti ekki að fara út úr bænum. Eins og einhverntímann hefur áður komið fram þá læt ég illa að stjórn. Vil ekki fara í útilegu þegar ég á að gera það. Langar bara að fara þegar mér hentar og á mínum forsendum. Svo þess fyrir utan þá finnst mér ég varla vera komin heim frá útlöndum og ekki nokkur ástæða til að rjúka langt frá heimili mínu og hafurtaski. Mér þykir þó nokkuð ljóst að það voru einn eða tveir sem fóru í ferðalag, ef marka má Sódómu á föstudaginn var. En djömmurum Reykjavíur til mikils sóma þá sáu þeir um að fylla bari bæjarins með útlendingum í þeirra stað. Ekki alveg það sama en kemur svosem út á eitt ef ekki stendur til að ræða mikið við ókunnuga.

Fann strákinn pissandi. Þegar Essó bensínstöðin í Kópavogi/Reykjavík var tekin í gegn hafði ég töluverðar áhyggjur af því hvað yrði um feita barnið. Eitthvað tuðaði ég inní mér þegar ég sá að bensínstöðin var tilbúin og Burger King komin í stað hlandpiltsins. Átti svo leið á þessa stöð í gærkvöldi og fann þá piltinn bak við hús. Eiginlega á betri stað en áður og enn í fullu stuði. Þá varð Jóda mikið kát.

Fékk svo símtal í gær. í þessu símtali var mér boðið í svona spagufudekur í Laugum á eftir. Ég er að fara á límingunum ég hlakka svo til.

Já, lífið er bara ótrúlega skemmtilegt.

föstudagur, júlí 29, 2005

Jæja, loksins

Jæja þá er ég komin með skjá og get hafið frásögn af ferðum mínum og sonar míns um heimsins höf og lönd. En veit ekki alveg hvar ég á að byrja, fæ svipaða tilfinningu og þegar ég lít yfir íbúðina mína og mér fallast hendur... svo mikið að gera að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ætli ég geri ekki eins og þegar ég byrja að taka til...á fötunum.

Við keyptum föt.

En fyrst fórum við í Legoland. Má eiginlega segja að ástæðan fyrir því að ég þarf ekki að fara í útilegu þessa helgi er sú að ég fór í útlilegu í Legolandi. Legoland er frábær skemmtigarður. Fyrir þá sem ekki hafa farið þangað, þá er einn dagur eiginlega ekki nóg. Taka tvo daga í þetta.
Ferðin varð reyndar hálf endasleppt hjá okkur Sverri, þar sem honum tókst að togna í hálsinum í stærsta rússíbananum. Við þurftum að fara með sjúkraleigubíl í næsta bæ og hitta lækni. Læknirinn gaf grænt ljós á að farið væri í Tivolí helgina á eftir.

Sú ástæða sem sonurinn gaf fyrir tognuninni var sú að þegar við fórum niður fyrstu brekkuna, þá öskraði hann og opnaði þ.a.l. munninn upp á gátt og þá kom voðalega mikill vindur upp í munninn á honum og hann tognaði í hálsinum.

Ég viðurkenni fúslega að ég átti mjög erfitt með að halda tárunum inní augunum og hnúturinn í maganum var voða voða stór. En einhverra hluta vegna treysti ég þessum sænska lækni (sem talaði við mig á einhverskonar skandinavísku og ensku við sverri) og eftir að heim í tjald var komið og tveir bjórar komnir í magann, leystist hnúturinn og tárin fóru aftur inn í pokana.

Rennandi blaut og frekar köld sofnuðum við svo öll svefni þeirra sem eiga hann skilið og sváfum alveg þangað til við vöknuðum.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

vandamál lífs míns

Veit ég vel að margir myndu flokka þetta undir lúxusvandamál en mér finnst voðalega erfitt að eiga bilaða tölvu...

mánudagur, júlí 25, 2005

krapp

æ hvað mér finnst skemmtilegt að eiga svona tölvu og eiga í viðskiptum við svona netfyritæki. Er sumsé komin heim og með fullt af krassandi sögum úr ferðalaginu..en ´til að byja með liggur netið niðri og svo fer skjárinn. Núna er ég að skrifa nokkurnveginn blindani og vona að þetta komist nokkuð skammarlaust til skila. Vona líka að tölvan mín komist í lag í nótt. Annars verður henni hent á haugana og hver vill lenda í því???

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Gaman

Jahérnameginn...
ef ég á ekki bara eftir að þurfa frí þegar ég kem heim - til að jafna mig eftir fríið.
Dýragarður í dag og Legoland í fyrramálið

Ég held ég verði bara að segja að þetta frí er bara frábært...

Strætó

Í gær fór Ásvallagötufjölskyldan í strætó í bæinn. Án nokkurra skamma náðum við að kaupa klippikort og fundum vagn. Einhverra hluta vegna soguðumst við inn á Strikið, þar sem gullmenn og blísturssalar spókuðu sig um í sólinni. Mikið var á þessari beinu braut sem gladdi augað, fyrir okkur bæði. Risastórir legókassar og mannhæðaháir R2D2-ar og fallegir skór og fínir kjólar.
Reyndar vorum við ósköp stillt í verslunarháttum, fyrir utan einn poka af ristuðum möndlum og vatnsbrúsa (yeah right!!)

Hér allt til alls, meira að segja danskt McDonalds og íslendingar í massavís.

Ég gæti haldið langa tölu um matvöruverð, en nenni ekki að standa í því. Get þó sagt eitt, að ég tel að þrátt fyrir að bónusfeðgar hafi gert gott mót, þá má einhver annar taka upp þráðinn þar sem þeir skildu við hann - virðast vera næg verkefni þar.

Á heimleið sáum við ekta indjána syngja, spila á panflautur og dansa, á meðan Pokahontast gekk um og hvíslaði fögrum róm: sídís.

Ég er líkegast ekki mesti túristinn hér, þar sem ég var spurð til vegar og gat hjálpað.

Í dag er það svo dýragarðurinn...

mánudagur, júlí 18, 2005

Svíþjóð

Í Svíþjóð er töluð sænska, en á skáni er töluð skánska. Á flugvellinum í Kaupmannahöfn byrjaði ég strax að reyna að babbla á dönsku - alveg gjörsamlega eins og innfædd..ur íslendingur. En á skáni var ég í útlöndum. Það eina sem ég reyndi að segja á skandinavísku var : skal jaag betalle for poserne? og búðarstelpan skildi mig og sagði já. Og þá sagði ég: jaag skal har tvo tak!

Í Svíþjóð rákum við töluverða útgerð, þar sem rækjur og kræklingar voru veiddir grimmt. Aflinn var svo settur á klemmu og krabbar látnir bíta á agnið. Að því loknu voru krabbarnir teknir heim í litla húsið. Þar sem var viðbúið að þeir lifðu ekki lengi svo fjarri heimaslóðum var þeim gefin skemmri skírn og að dauða loknum, veitt formleg - afar hátíðleg útför.

Eitthvað var rætt um að sigla út á haf á eðlunni, til að veiða úthafsrækjur. En ekkert varð af því.

Heiðrún og fjölskylda voru búin að vera í stanslausri sól og því kom ég bara með bikiní og stuttermaboli frá Íslandi en stuttu eftir að Ásvallagötufjölskyldan kom á svæðið, byrjaði að rigna. En það kom nú ekki að sök, þar sem við erum nokkuð vatnsheld öll sömul.

Það var bara eitt sinn sem við héldum að jörðin væri að rifna, svo miklar voru þrumurnar og grunar mig að Þór (Óðinsson) hafi verið í garðinum okkar að fremja einhvern gjörning. Hins vegar hafði ég það of gott við hlið hrjótandi sambýlismanns míns, að ég nennti ekki að kíkja á kallinn.

Næsti bær var undirlagður af árlegu rósafestivali. Heiðrún er án efa ókrýnd rósaprinsessa - og mun verða það um aldur og æfi.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Iceland Express

Það er svo langt síðan ég hef flogið til útlanda að Iceland Express var ekki til þegar ég flaug síðast. Ég var búin að standa lengi í langri langri röð á fulgvellinum, þegar einhverskonar innritunarvísa (sbr. sætavísa) sagði að ég væri í röð fyrir Icelandair og ég þyrfti að fara í aðra röð...langt langt í burtu. Eitthvað hefur umkomuleysi mitt skinið úr augunum, því innritunarvísan bauðst til að ganga með mér og kom mér fram fyrir röðina (ekki í fyrsta skipti sem mér tekst að koma mér fram fyrir röð...en það er nú önnur saga)

Ég náði að kaupa mér stórkostlega myndavél, með leiðavísum fyrir öll möguleg þjóðarbrot, nema kannski helst kínversku. Er auðvitað ekki búin að læra alveg á hana, en það stendur allt til bóta.

Mér sýnist að Iceland Express hafi bætt við nokkrum sætaröðum til að auka hagnað sinn. Amk fannst mér óskaplega þröngt á milli sætanna. Það sem undir stólinn fór, kom ekki til baka. Ég var alvarlega að hugsa um að rukka manninn sem sat við hliðina á mér um helminginn af fargjaldi mínu. Hann var (og væntanlega er enn) stór og mikill á velli og þar sem ég er ekkert sérstaklega umfangsmikil, notaði hann tækifærið og stal helmingnum af sætinu mínu.

Í stað þess að heimta peninga af honum ákvað ég að hefna mín og fór óteljandi sinnum á klósettið. Var síður en svo hress með það þegar frekknótta flugfreyjan reyndi að gifta mig honum og róaðist ég ekki fyrr en hún baðst innilegrar afsökunnar.

Stutt stopp á flugvellinum í Kaupmannahöfn og lest til Svíþjóðar...

framhald næst

fimmtudagur, júlí 14, 2005

tímaskortur

langaði svo til að segja ykkur frá stráknum á bensínstöðinni sem kunni næstum því að mæla sjálfskiptingarvökvann en vissi ekki hvar átti að setja hann á bílinn. Langaði líka til að segja ykkur frá stelpunum sem unnu á bensínstöð tvö sem sögðust bara vera vera tvær og það átti að duga mér sem svar við því hvort þær kynnu að mæla sjálfskiptingarvökvann.
Langaði þó mest til að segja ykkur frá stráknum á bensínstöð þrjú, sem mældi vökvann og kunni líka að setja hann á. Hann á sjálfur fallegan volvo eins og ég. Hann strauk af strikamerkinu á vélinni og sagði að við værum með eins vélar. Mín væri bara með ekki með innspítingu og því þyrfti ég ekki að passa mig á að stiga ekki á bensíngjöfina þegar ég kveiki á bílnum...

... en...

ég er að falla á tíma. ég er sko að fara í til útlanda í nokkra daga (fyrir þjófa, þá verða bæði kjartan og mamma að passa íbúðina - svo er það dýrmætasta ekki heima...tek nebblega sambýlismanninn með mér)

Veit ekki með tölvusamband, en lofa að punkta amk hjá mér í bók og færa inn þegar heim kemur.

Njótið þess að vera til - elskið hvort annað og ykkur sjálf.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Velti fyrir mér

Hvernig getur maður hræðst og þráð eitthvað á sama tíma?
Hvað er það sem maður hræðist ef það er samt þess virði að þrá það heitt?
Hvað er þess virði að þrá ef maður hræðist það?