englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, júlí 18, 2005

Svíþjóð

Í Svíþjóð er töluð sænska, en á skáni er töluð skánska. Á flugvellinum í Kaupmannahöfn byrjaði ég strax að reyna að babbla á dönsku - alveg gjörsamlega eins og innfædd..ur íslendingur. En á skáni var ég í útlöndum. Það eina sem ég reyndi að segja á skandinavísku var : skal jaag betalle for poserne? og búðarstelpan skildi mig og sagði já. Og þá sagði ég: jaag skal har tvo tak!

Í Svíþjóð rákum við töluverða útgerð, þar sem rækjur og kræklingar voru veiddir grimmt. Aflinn var svo settur á klemmu og krabbar látnir bíta á agnið. Að því loknu voru krabbarnir teknir heim í litla húsið. Þar sem var viðbúið að þeir lifðu ekki lengi svo fjarri heimaslóðum var þeim gefin skemmri skírn og að dauða loknum, veitt formleg - afar hátíðleg útför.

Eitthvað var rætt um að sigla út á haf á eðlunni, til að veiða úthafsrækjur. En ekkert varð af því.

Heiðrún og fjölskylda voru búin að vera í stanslausri sól og því kom ég bara með bikiní og stuttermaboli frá Íslandi en stuttu eftir að Ásvallagötufjölskyldan kom á svæðið, byrjaði að rigna. En það kom nú ekki að sök, þar sem við erum nokkuð vatnsheld öll sömul.

Það var bara eitt sinn sem við héldum að jörðin væri að rifna, svo miklar voru þrumurnar og grunar mig að Þór (Óðinsson) hafi verið í garðinum okkar að fremja einhvern gjörning. Hins vegar hafði ég það of gott við hlið hrjótandi sambýlismanns míns, að ég nennti ekki að kíkja á kallinn.

Næsti bær var undirlagður af árlegu rósafestivali. Heiðrún er án efa ókrýnd rósaprinsessa - og mun verða það um aldur og æfi.