englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, júlí 17, 2005

Iceland Express

Það er svo langt síðan ég hef flogið til útlanda að Iceland Express var ekki til þegar ég flaug síðast. Ég var búin að standa lengi í langri langri röð á fulgvellinum, þegar einhverskonar innritunarvísa (sbr. sætavísa) sagði að ég væri í röð fyrir Icelandair og ég þyrfti að fara í aðra röð...langt langt í burtu. Eitthvað hefur umkomuleysi mitt skinið úr augunum, því innritunarvísan bauðst til að ganga með mér og kom mér fram fyrir röðina (ekki í fyrsta skipti sem mér tekst að koma mér fram fyrir röð...en það er nú önnur saga)

Ég náði að kaupa mér stórkostlega myndavél, með leiðavísum fyrir öll möguleg þjóðarbrot, nema kannski helst kínversku. Er auðvitað ekki búin að læra alveg á hana, en það stendur allt til bóta.

Mér sýnist að Iceland Express hafi bætt við nokkrum sætaröðum til að auka hagnað sinn. Amk fannst mér óskaplega þröngt á milli sætanna. Það sem undir stólinn fór, kom ekki til baka. Ég var alvarlega að hugsa um að rukka manninn sem sat við hliðina á mér um helminginn af fargjaldi mínu. Hann var (og væntanlega er enn) stór og mikill á velli og þar sem ég er ekkert sérstaklega umfangsmikil, notaði hann tækifærið og stal helmingnum af sætinu mínu.

Í stað þess að heimta peninga af honum ákvað ég að hefna mín og fór óteljandi sinnum á klósettið. Var síður en svo hress með það þegar frekknótta flugfreyjan reyndi að gifta mig honum og róaðist ég ekki fyrr en hún baðst innilegrar afsökunnar.

Stutt stopp á flugvellinum í Kaupmannahöfn og lest til Svíþjóðar...

framhald næst