englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Sigmar pípari - 1

Mér finnst voðalega gott að gera ekki allt í einu, eiga eitthvað eftir til að hlakka til. Ekki rjúka upp um öll fjöll í einu og ekki lesa allar bækur stax o.s.frv. Eitt af því sem ég hef verið að spara mér er að hringja í tryggingafélagið mitt og fá mann til að meta rakann hjá mér. Hef nefninlega haft það svolítið lengi á tilfinningunni að hann væri aaaaðeins meiri en hann ætti að vera. Svo missti einhver það út úr sér að þetta væri auðvitað tryggingamál...þannig að ég hringdi.

Sigmar pípari kom áðan – með mæligræjuna sína.

Ég sagði honum að ég hafi fyrst haldið að Geirfinnur væri falinn bak við skápinn inní svefnherbergi. Sumir myndu flokka það undir mistök.

Fyrir þá sem ekki þekkja til íbúðar minnar, þá er baðherbegið lítið og gluggalaust. Ég stend þar inni og Sigmar stendur í dyragættinni og ég býð eftir því að hann byrji að mæla, en nei, hann hafði annað í huga. Hann þurfti aðeins að ræða við mig um Geirfinn (ekki þennan ímyndaða inní svefnherbergi, heldur orginallinn).

Það var nefninlega eitt sem þeir skoðuðu aldrei, en það var að konan hans Geirfinns hélt framhjá honum. Og um leið og Geirfinnur var horfinn, flutti viðhaldið út frá konunni sinni og inn til konu Geirfinns. (Þegar hér var komið við sögu, hélt ég að hann væri búinn og færi bráðum að mæla – en nei aldeilis ekki)

Hann sagði mér frá Klúbbnum og Kidda sem var glæpamaður, rétt eins og allir Framsóknarmenn.

Sigmar gleymir aldrei þeim ráðum sem móðir hans (á níræðisaldri) gaf honum: alltaf að treysta innra gutsi. Svo sagði hún við hann: “myndir þú treysta Finni Ingólfssyni fyrir 1000kalli?” Og Sigmar svara: “nei, svo sannarlega ekki!” og bætir svo við: "Ef maður er ekki viss, á maður að fara inní sig og spyrja sig hvað manni finnst og taka ákvörðun út frá því."

Nú er mér orðið illt í maganum og á erfitt með að anda - fer þessi maður ekki bráðum að hætta þessu blaðri og vinna vinnuna sína þess í stað???

Nei, aldeilis ekki. Hann þurfti aðeins að tala meira illa um Framsóknarmenn – og fékk hann leyfi til þess. Auk þess þurfti hann að segja mér frá spíra sem hann og aðrir starfsmenn Keflavíkurflugvallar, stálu í gamla daga.
Þegar ég var búinn að standa þarna í u.þ.b. 20 mín (leið eins og það væru 20klst.) þá sagði ég honum að ég þyrfti því miður bráðum að fara á fund. Þannig að hann mældi – og tók það hann 1 sek að finna út að það væri bullandi raki í veggnum hjá mér og hann kæmi í fyrramálið og rifi húsið í sundur.

Ég fylgdi honum fram (eftir að hafa reist hann upp, því auðvitað datt hann í tröppunni minni) og hann spyr mig hvort ég sé í vinnu, og ég segi honum að ég sé í skóla og verði því heima í fyrramálið.

“Nú hvað ertu að læra?”
“Mannauðsstjórnun”
... og hann byrjar aftur... í þessari ræðu fékk ég að vita allt um gamla starfsmannastjórann í Landsbankanum og þann nýja og hvað hún væri leiðinleg og af hverju hún (og aðrar konur) væru svona strangir stjórnendur...
Þegar hann sagði mér að hann hafi verið giftur konu í 30 ár, sem vann í Landsbankanum, sá ég allt í einu fyrir mér að hann myndi byrja á 1. hjúskaparári þeirra og halda svo áfram fram að skilnaði – mundi ég allt í einu eftir fundinum sem ég var að verða of sein á og sagðist hlakka til að sjá hann á morgun.