Ástin
Það er ekki hægt að segja að ástin sé auðveld og að hún gangi alltaf upp. Ég hef tekið þátt í ótal (misgáfulegum) samræðum um ástina. Stundum hefur mér fundist hún svo erfiður húsbóndi að ég hef ætlað að segja skilið við hana. En tilhugsunin ein um að loka á hana, gerir mig sorgmædda.
Kona, mjög nákomin mér, sagði mér að hún væri búin að sjá að hin rómantíska ást sé ekki raunhæf og hún hafi valið maka eftir mun skynsamlegri leiðum. Ég get ekki sagt að mér sýnist hún vera hamingjusamari en þeir sem notast við “gömlu” aðferðina. Mér hefur líka alltaf fundist hálf sorglegt að vita að hún sé ekki skotin í manninum sínum.
Ég vil rómantík og rjóðar kinnar. Ég vil vera skotin og finna að einhver sé skotin í mér. Ég trúi því statt og stöðugt að svoleiðis hlutir séu mikilvægir til að sambönd gangi upp.
Ég verð svo glöð þegar ég sé ástfangið fólk. Að sjá ástina sem er á milli tveggja einstaklinga. Traustið. Virðinguna. Algjörlega ómetanlegt.
Ég á mér uppáhalds pör. Fólk sem ég hugsa til þegar ég er við það að missa trúna á ástina. Brad og Jenifer. Og hún þarna ljóshærða með stútmunninn og hann þarna hvað hann nú heitir. Elizabeth Taylor og John Warner, eða var það Larry Fortensky eða Richard Burton eða... eða... eða...eða Michael Jackson...nei þau eru bara vinir...Svo klúðra þau þessu fyrir mér.
Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér en mér virðist sem það sé einhver skilnaðar bylgja í gangi. Erum við orðin svona fyrrt? Förum við of fljótt í samböndin? Förum við of fljótt úr þeim? Skuldbindum við okkur of snemma? Skuldbindum við okkur ekki? Eða gefum við hvort öðru ekki nógu mikið af tækifærum?
Elskum við kannski ekki nógu mikið?
<< Home