englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, desember 21, 2004

Alveg fullt hress sko

Í gærkvöldi var ég orðin svo hress að ég náði að vaska upp og setja í þvottavél og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hugsaði með mér að þetta væri líklegast bara “önnur aðvörun” frá líkamanum um að fara vel með sig.

Ég fór í bólið nokkuð léttklædd, flónelsnáttföt og hnéháa frostgöngusokka.

Klukkan sjö í morgun vaknaði ég og blótaði heilbrigðisstéttinni eins og hún lagði sig. Hverjum dettur í hug að segja sárveikri manneskju að drekka mikið vatn?
Vita þau ekki hvað er langt inn á bað? Og svo var ég byrjuð að skjálfa. Rúmið lék á reiðiskjálfi, rétt eins og “hristirúm” á lélegu móteli í amerískri bíómynd og ég fann til í vöðvum sem ég vissi ekki að ég hefði. Sem minnir mig á góða sögu...nei ekki réttur vetvangur fyrir hana.

Damn

Eftir að hafa skolfið í rúminu í hálftíma, skíthrædd um að pissa í rúmið af öllum hamagangnum tók ég á mig rögg og fór á klósettið. Á leiðinni inn í rúm greip ég með mér hlýrri föt og klæddi mig í þau: Enn í sokkunum, buxunum, ný peysa, tvær lopapeysur, ullarsjal, ullarteppi og sæng.


Og það dugði ekki til

Ó men..meðalið mitt var á stofuborðinu. Það var svo langt þangað, amk 6 skref. Það virtist vera sem síðasta ferð (wc) hafi gefið mér trú á sjálfa mig og ég fór og náði í meðalið. Náði að sofna og vaknaði hress og kát nokkrum tímum seinna og fór í Kringluna.

Jólaðist alveg fyrir nokkra tugi þúsunda og höndlaði hamingjuna sem best ég gat. Við ákváðum að baka og allt. Nú skyldu jólin sko fá að koma hingað inn! Ég ætlaði bara aðeins að leggja mig fyrst.

Einmitt!!!

Þegar ég var búin að vera í þessu leggi í hálftíma, vaknaði ég og var alveg skítkalt...
Samt var ég fullklædd með ullarsjalið, í einni ullarpeysu, með teppið og sæng.

Ég sá að ég þurfti að mæla mig aftur, í annað skiptið á sama árinu, bara með nokkura tíma millibili. (nú er ég farin að hljóma alveg eins og “karlmaður” ég veit – og hef gaman af því)

40.3 gráður, takk kærlega fyrir!!! Og þar með hafði ég toppað met gærdagsins.

Og ég sem á enn eftir að fara á pósthúsið...