englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Nesti

Ég hef aðeins verið að ræða við aðra foreldra sem eru að senda börn sín í fyrsta skipti í skóla þessa dagana. Flestir virðast eiga í jafn miklum vandræðum og ég með nestið.

Hvað er eiginlega nóg nesti?

Mötuneytið í skólanum hans Sverris var ekki tilbúið fyrr en í þessari viku, þannig að ég hef verið að útbúa "tvo mata" og svo er síðdegishressing í boði í eftirskólagæslunni.
Ég held að það sé í eðli foreldra að hafa áhyggjur af því hvort ungar þeirra nærist ekki nóg, eða of mikið eða ekki rétt... og ég er engin undantekning.
Þegar sonurinn hefur komið heim með helminginn af nestinu sínu hef ég fengið smá sting í hjartað..er nestið ekki nógu djúsi? Er hann að missa matarlystina? Ætti ég að setja sykur á smjörið??? Sultu og hnetusmjör???

Konan í gæslunni kom til mín í gær og spurði mig hvort Sverrir ætti ekki að vera í síðdegishressingunni hjá þeim? Jú, ég hélt það nú.
Þá segist hún ekki hafa verið alveg viss, þar sem hann væri alltaf með svo mikið nesti.

Ég tók þetta til mín og hugsaði með mér að ég ætti kannski aðeins að róa mig í smurningunni. En ég sannfærðist ekki fyrr en sonurinn sagði mér draum næturinnar:

"Mamma, veistu hvað mig dreymdi í nótt?"
"Nei, hvað?"
"Mig dreymdi að ég ætti endalaust mikið af nestisboxum. Herbergið mitt var alveg fullt af þeim... og amma Magga gaf mér þau öll"

Héðan í frá er mottóið: ef það kemst ekki í nestisboxið - fer það ekki með.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Sætar stelpur og feitir karlar

Í síðustu viku var doktorsverkefni Tinnu nokkurar gert að umtalsefni í fjölmiðlum (man því miður ekki hvers dóttir hún er - gæti vel þegið að fá að vita það)
Hún skoðaði meðal annars atvinnuþáttöku áfengissjúklinga og komst að þeirri niðurstöðu að áfengisneysla kæmi ekki niður á atvinnuþáttöku þeirra sem misnota áfengi.
Gott að vita það!

Annað sem hún skoðaði var offita og atvinnuþáttaka.

Niðurstöður voru þær ef konur væru of feitar, hefði það áhrif á störf þeirra. Þær fá ekki sömu tækifæri og mjóu kynsystur sínar, og ekki heldur sömutækifæri og strákarnir - hvort sem þeir eru of feitir eða bara "venjulegir".
Ef feit kona grennir sig um 20 kg. jafngildir það því (fyrir atvinnuhorfur hennar) að hún hafi bætt við sig mastersgráðu...

Flestir eru sammála því að gífulegar útlistkröfur eru gerðar til kvenna. Töluvert hefur t.d. verið fjallað um amerísku sápuóperurnar, sem fjalla flestar um feita kjánalega karlmenn og mjóu kláru konurnar þeirra.
Ef við lítum til fjölmiðla og þeirra sem þar starfa. Sjónvarpið. Ég held að ég geti fullyrt að allar konur sem eru mikið á skjánum, eru frekar grannar og huggulegar. Ég held að ég geti einnig fullyrt að ekki verður það sama sagt um alla karlmenn sem vinna á þeim miðli.
Ég ætla ekkert að fara að nafngreina fólk, en mér detta strax nokkrir karlkyns fréttamenn í hug - á báðum stöðvum. Sumir þeirra eru í það lélegu líkamlegu ástandi að best væri að stefna Sportacusi á þá. Ég er nokkuð viss um að þetta líkamsástand yrði aldrei þolað, ef um kvenmenn væri að ræða.

Ég er búin að hugsa mikið um þetta undanfarna daga. Ræða þetta við marga og allir eru sammála um að þetta sé misræmi sem verður að leiðrétta.

En það sem stendur í mér, er hvernig viljum við leiðrétta þetta misræmi?
Hvort viljum við að stelpurnar fái að vera eins feitar og karlarnir eða að þeir verði að vera eins mjóir og sætir og stelpurnar?

Ég er hreinlega ekki viss...

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Maður er manns gaman

Ég hitti mann í gær. Hann var mjög skemmtilegur og ákváðum ég og vinkona mín að þetta væri nýji besti vinur okkar og buðum honum að setjast hjá okkur. Hann er noskur og lítur út eins og einhver sem er í auglýsingabransanum (sem hann reyndist svo vera í).
Eftir að hafa skiptst á að segja brandara í dágóða stund, kom að þessari klassísku spurningu: hvað ertu að gera hér á Íslandi?
Hann sagði mér að hann væri á einskonar ráðstefnu. Samtök sem hann tilheyrir í Noregi sendu fulltrúa sína til Íslands, til að hitta dóttursamtökin hér. Hann sagði mér að þetta væru fulltrúar 17 umdæma en samtökin hér á landi væru nokkuð minni, en bendir allt til þess að þau fari að stækka.

Þetta var orðið óskaplega spennandi og þó var hann ekki enn búinn að segja mér út á hvað þessi samtök gengju. Ég, verandi þessi forvitna manneskja sem ég er, vildi endilega fá að vita hvað málið væri með þessi samtök.
Hann færðist undan því að svara og sagði að þetta væri voðalega flókið mál að útskýra. Ég hélt kannski að hann treysti sér ekki til að segja mér þetta á ensku og bauð honum að buna þessu út úr sér á norsku (þar sem íslenskan er jú ekkert annað en old norsk - er það ekki annars?)

Nei, þar var ekki málið. Hann gat vel sagt mér þetta á ensku og gerði það svo fyrir rest.
Hann sagði mér að samtökin væru svona swingers klúbbur og "ráðstefnan" hér væri til að hjá dóttursamtökunum, hér á landi, að víkka út sína starfsemi og styrkja sig.

Ég sá hann alveg fyrir mér í sveiflunni en fannst þó frekar undarlegt að einhver norsk dans samtök væru að senda fulltrúa sína til Íslands (úr 17 umdæmum). Hann fór að hlæja þegar ég spurði hann hvernig stæði á þessu og sagði að þetta væru ekki danssamtök heldur væru þetta makaskiptasamtök.

þá var nú komið að mér að fara að hlæja. Ég tók þátt í þessu gríni í dágóða stund og ræddi þetta við hann - alveg þangað til að það rann upp fyrir mér ljós: maðurinn var alls ekkert að grínast!

Hann sagði mér að þetta væru alveg ótrúlega sniðug samtök, þar sem mottóið væri: "The more - the merrier" Þar væri hægt að vera með almenn makaskipti, karl og karl, kona og kona, margir saman, fáir saman en margir að horfa...möguleikarnir væru endalausir.
Hreint út sagt frábært!

Ég fann að þetta samtal var að taka stefnu sem ég var ekki neitt sérstaklega áfjáð í að fylgja og fór alvarlega að hugsa um að endurskoða vinskap okkar.
Þau hjónin voru búin að stunda þetta í einhver ár og það væri bara rosalega gaman. Afbrýðissemi væri ekki til staðar, en hann viðurkenndi þó að það gæti orðið vandamál ef fólk yrði "ástfangið" af einhverjum öðrum en maka sínum og vildi breyta um "fastamaka".

Vegna þess hvað ég er svakaleg tepra sagði ég honum að ég væri ekki hlynt svona háttum. Og ég væri svo eigingjörn að ég vildi síður deila maka mínum með einhverjum öðrum - hvað þá mörgum öðrum.

En hann var greinilega kominn í ham og vildi ólmur sannfæra mig um að þetta væri hið fullkomna skipulag. Hann var svo sannfærður um ágæti þessa kerfis að hann var tilbúinn til að fórna sér til að ég sannfærðist líka. Hann sagði mér að ef ég færi með honum og vini hans (kona hans var fjarri góðu gamni - heima í Noregi) þá gæti hann lofað mér að ég myndi upplifa hluti sem ég hefði aldrei upplifað áður!

Ég er nokkuð sannfærð um að það var rétt hjá honum en hugsaði með mér að það væri nú ekkert vit að láta alla draumana sína rætast..hvað ætti maður þá að láta sig dreyma um?

föstudagur, ágúst 27, 2004

dagurinn í dag

Vá..hvað ég ætla að drekka mikið af Budweiser í kvöld...

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Góður...

Ég heyrði góðan brandara í gær, verð eiginlega að deila honum með ykkur:

Kona kemur inn á lögfræðiskrifstofu.
"Er rétt sem ég heyri að allir séu að lögsækja alla þessa dagana?"
"Já" segir lögfræðingurinn. "Það er rétt"
"Getur þú nefnt mér einhver dæmi?"
"Já, t.d. eru margir að fara í mál við McDonald's núna, vegna þess að þeir urðu feitir af matnum þeirra. Svo eru aðrir sem eru að lögsækja framleiðendur megrunarlyfja vegna þess að þeir grennast ekki þrátt fyrir að éta lyfin þeirra. "

"Jahá" Segir konan.
"Ég ætla líka að lögsækja"
"Nú, hvern ætlar þú að lögsækja?"

"Ég ætla að lögsækja Budweiser, vegna alla ljótu karlmannanna sem ég hef sofið hjá, eftir að hafa drukkið bjórinn þeirra!"

Skemmtileg tilviljun að Budweiser er einmitt uppáhalds bjórinn minn...

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Naflastrengur klipptur

Jæja þá er hann upprunninn. Fyrsti skóladagur Sverris Páls.
Mér sýnist á öllu að frumburðurinn hafi fengið það jafnaðargeð, sem móðirin þykist alltaf hafa - en hefur svo kannski ekki mikið af.
Ég vaknaði þrisvar í nótt, af því að ég var svo hrædd um að ég myndi sofa yfir mig. En hins vegar var skólastrákurinn lengi, lengi að koma sér framúr í morgun.
Á endanum dró ég hann framúr og með þeim orðum að nú þyrftum við að fara að smyrja nesti.

Sem ég og gerði...
Ef einhverjir í bekknum koma nestis lausir, þá getur Sverrir gefið þeim af nestinu sínu. Það ætti að duga fyrir amk helmingin af bekknum.

Þegar búið var að bursta tennur, skrúbba skítinn og greiða hárið, var skólatöskunni skellt á bakið og myndatakan hófst. Stolt náði ég að klára filmuna, með þeim afleiðingum að við vorum næstum því orðin of sein í skólann.
Til allrar hamingju er skólinn rétt hjá okkur og við náðum að ganga saman, þurftum ekki að hlaupa en slepptum því þó að skoða hvert einasta sandkorn sem á vegi okkar varð.

Þetta var ósköp yndæl stund. Að ganga svona saman í hlýrri rigningunni, hönd í hönd. Ekki laust við að ég fyndi svolítið til mín. Ég átti þennan flotta strák. Þennan strák sem í dag var að stíga sín fyrstu skref í átt til framtíðar, fullorðinsára og starfsframa. Ekki seinna vænna að fara að byrja í skólanum ef hann ætlar einhverntímann að ná að verða góður fisksali eða leynilögga.

Jæja, þarna var skólinn. Við fundum hlið sem beið opið eftir okkur. Um leið og við göngum í gegnum hliðið segir litla barnið mitt "þú mátt alveg sleppa núna!!!"

Skrefið er stigið og líklegast ekki aftur snúið. Héðan í frá má ég, á almanna færi, bara horfa á úr fjarlægð...
Í stað kossanna og faðmlagsins sem ég er vön að fá á kveðjustundum, fékk ég eitt vandræðalegt vink (ætlar þessi manneskja ekki að fara að koma sér í burtu?).
Minnug atriðsins í "About a boy" þegar mamman verður syninum til skammar með því að kalla yfir skólalóðina að hún elski hann voða mikið, brosti ég og vinkaði þegjandi til baka og gekk heim á leið.

Á hvað ætli ég geti leigt herbergið hans?


þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Sumarfrí

Það er alltaf gaman að vera búin í prófum. Líka í dag.
Elskið þið ekki lífið?

mánudagur, ágúst 23, 2004

Vandræðagangur í pottinum

Hvernig stendur á því að fólk sem maður hélt að væri svo almennilegt og tillitsamt endar svo með því að vera taktlausir sjálfselsku púkar?

Þetta er alveg ferlega pirrandi.

Eftir svakalega lærdómstörn í gær ákvað ég að verðlauna mig með ferð í Laugardalinn. Ekkert svona nesti og nýjir skór, bara sömu gömlu skórnir en reyndar nýtt bikiní.
Já, ég fór semsagt í sund.

Ég var búin að sitja við í tæpa sjö tíma og var komin með tak í hálsinn og bakið var stífara en brosið hjá Halldóri Ásgríms. Og hausinn maður, hann var alveg að bræða úr sér.
Það eina sem ég þráði var liggja í heitum potti og góna út í loftið, án þess að tala við nokkurn mann og hugsa alls ekki neitt.

Steinapotturinn í Laugardalslauginni er ágætur fyrir einmitt þetta. Þar er ekki nauðsynlegt að sitja beinn í baki upp við vegg, til að maður drukkni ekki. Þar myndast líka oft samræður sem gaman getur verið að hlusta á. Allt öðru vísi en pólitískar umræður Vesturbæjarpottanna. Steinapotts samræður eru t.d. um stelpur og stráka.
Hvort stelpur eigi að skila gjöfum sem strákar hafa gefið þeim á meðan allt leikur í lyndi, eftir að allt er hætt að leika í lyndi? Hvort stelpur geri það almennt?
Hvort strákar séu skotnir í stelpum vegna brjóstanna eða einhvers annars?
Hvað sé best að bíða lengi með að sofa saman?
Ég gæti haldið endalaust áfram að segja ykkur frá því hvað fólk er að tala um í pottinum, en ég ætla að geyma það og segja ykkur frá vandræðagangi gærdagsins.

Eftir fína sturtu (mín er nefninlega ægilega léleg) rölti ég í pottinn. Þar var frekar margt um manninn en þó eitthvað af lausum plássum. Ég spottaði út nokkuð gott pláss og kom mér þangað.
Þegar ég er sest, tek ég fljótlega eftir því að gamall séns er í pottinum. Ekki bara í pottinum, heldur tveimur sætum frá mér. Alveg óþæginlega nálægt.
Þetta er mjög góður strákur og hef ég ekkert upp á hann að klaga, nema þá helst að hann sé kannski of góður.
Ohh, ég nennti ekki að fara að spjalla við hann. Þannig að þegar losnaði annað gott pláss, fleygði mér á það. Kom mér vel fyrir..nei hvur andsk. núna horfði ég beint á hann!! OK þó ég hafi ætlað að slappa af, er ekki víst að ég nenni að hafa augun lokuð í hálftíma og hvernig á ég að komast upp úr pottinum með lokuð augun????
Lá þarna í nokkrar mínútur með lokuð augun á milli þess sem ég horfði stíft á tærnar á mér. Þetta gengur ekki svona! Jæja, losnar ekki ágætis pláss. Ég af stað.
Þessi staður var í raun mjög fínn. Eini gallinn við hann var að þar sem ég sat horfði sénsinn gamli á mig í prófíl, sem þýðir að ég (til að sleppa við að horfa til hans) þurfti að horfa þráðbeint fram eða mjög stíft til hinnar hliðarinnar.
Þessi aflsöppunarferð í pottinn var ekki alveg að gera sig. Til að gefa honum tækifæri á að sýna tillitsemi og fara upp úr pottinum, ákvað ég að fara í gufu.

Fín gufuferð. Til að launa honum tillitsemina (sem hann var að fara að sýna mér) ákvað ég að vera svolítið lengi í gufunni. Þannig hafði hann tækifæri til að svamla pínulítið um í pottinum og slapp við að þurfa að spretta upp úr honum áður en ég kæmi til baka.
Eftir að hafa misst uþb 7kg af vatni í gufunni, hugsaði ég með mér að þetta væri næg tillitsemi við mann sem ... jahh förum ekki nánar út í það hér... og labbaði í átt að pottinum. Ég hlakkaði mikið til að geta setið og gónt út í loftið, í allar áttir ef mér sýndist svo og jafnvel væri plássið, sem sénsinn hafði setið á, laust - því það er reyndar besta sætið í pottinum.
Til að vera alveg örugg fór ég inn, eins og ég væri að fara í sturtu og laumaðist til að kíkja út um gluggann, til að skanna pottinn.
Viti menn! Situr ekki þessi frekja ennþá á sama stað og sýndi ekki á sér neitt fararsnið!!!
Ég gafst upp og fór í sturtu, enn stífari í hálsi og baki en fyrir sundferð og hafði svo sannarlega ekki náð að hugsa "ekki neitt"

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Dagurinn í dag er ekki okkar

Í dag ætla ég ekki að segja þér hvað ég elska þig
Í dag ætla ég ekki að líta út um gluggann og gá að þér
Í dag ætla ég ekki að athuga hvort síminn minn sé í lagi
Í dag ætla ég ekki að byrja nýtt líf
Í dag ætla ég ekki að segja þér skemmti sögu
Í dag ætla ég ekki að gráta horfinn tíma

Ég ætla ekki heldur að kvíða framtíðinni
Ég ætla ekki heldur að byrja að lesa nýja bók
Ég ætla ekki heldur að loka augunum og láta mig dreyma

Í dag ætla ég að opna augun
Ég ætla að galopna augun

Í dag ætla ég að njóta þess besta sem ég á
Ég ætla að njóta mín

laugardagur, ágúst 21, 2004

Menningarnótt og dagur

Í tilefni menningarnætur verður boðið upp á tölfræðiskemmtun á heimili mínu í dag.
Á heila tímanum held ég stutta en mjög áhugaverða fyrirlestra um hinar ýmsu formúlur.
Á hálfa tímanum gefst gestum og gangandi tækifæri á að spreyta sig á lifandi og skemmtilegum tölfræði dæmum, sem eru beintengd við daglega lífið okkar.

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir auðveldustu lausnarleiðina.
Verðlaunapeningur og viðurkenningarskjal fyrir alla þáttakendur.

Allir velkomnir - þó sérstaklega þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Orðaleikir

Mér finnst gaman að segja eitt en meina eitthvað annað. Mér finnst gaman að vera óljós í máli. Gaman þegar ég sé og heyri á fólki að það er ekki alveg með á hreinu hvort ég er að koma eða fara eða ætli jafnvel bara að vera kyrr.

Mér finnst líka gaman að persónugera dauða hluti.

Það er dagamunur á henni
Ég er búin að vita af henni í dágóðan tíma. Fyrst þegar leiðir okkar lágu saman þá ætlaði ég mér ekki stóra hluti með henni en smám saman þá vaknaði upp örlítill áhugi. "Hún er nú ekki svo vitlaus þessi" hugsaði ég.
Ég segi nú ekki að mig langi til að sökkva mér í hana. Vera með hana hjá mér í rúminu á kvöldin. Vakna með henni á morgnanna.
Nei, hún kveikir ekkert sérstaklega í mér, en á sinn einstaka hátt fullnægir hún ákveðnum þörfum hjá mér. Það er gott að hafa hana í lífinu sínu.
Ég skil hana samt ekki alveg. Það er ekki gott að skilja ekki einhvern sem er stór partur af lífinu þínu.
Eftir stutta umhugsun ákvað ég að eyða tíma með henni, gefa henni alla mína athygli, í þeirri von að hún myndi opna sig fyrir mér.
Þessi samskipti okkar hafa gengið ágætlega. En þó er dagamunur á henni. Hún er yfirleitt opin og móttækileg fyrst á morgnanna. Lætur sér vel líka þegar ég handfjatla hana og reyni að kynnast henni eins náið og hægt er.
Upp úr hádegi virðist hún vera búin að fá nóg af mér. Gefur ekkert færi á sér. Lokar á mig.
Ég er sjálf oft orðin þreytt á þessum tíma, þannig að við leggjum okkur stundum saman. Það er ósköp notalegt. Hún vill frekar að ég liggi ofan á henni en við hlið hennar. Ég læt það eftir henni þó hún sé full stinn fyrir minn smekk. Það er líka eins og við tengjumst sérstökum böndum þegar við liggjum svona þétt saman. Hitinn frá líkama mínum vermir hana. Hún mýkist upp og verður aftur mótækileg fyrir mér.

Mörgum finnst hún mjög óspennandi, en ég veit hún hefur upp á svo margt að bjóða. Ég ætla að gefa henni tíma. Gefa mér tíma með henni.
Góðir hlutir gerast hægt. Hver veit nema að eitthvað kvöldið fái hún að koma með mér í rúmið og ég vakni glöð við hlið hennar?
Elsku tölfræði bókin mín.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Sérðu hvernig mér líður?

Ég er búin að vera að horfa svolítið út um gluggann í dag. Mér finnst gaman að horfa á umhverfið frá því sjónarhorni (í gegnum gler). Tilfinningin er ekki ólík því og þegar ég flýg til útlanda og þegar flugvélin lækkar flugið og hús og bílar fara að verða greinileg...annað líf en mitt...þá skynja ég mig sem voðalegan outsider.
Í dag er ég meiri outsider en venjulega. Í dag er ég með eyrnatappa. Mér finnst svolítið eins og ég sé ósýnileg þegar ég er með eyrnatappa.

Ég heyri ekki í neinum og enginn sér mig.

Að horfa út um gluggann með eyrnatappa, er eins og að horfa á raunveruleikasjónvarp í hægspilun. Þetta er allt eins og það á að vera en samt ekki.

Að sjá með augunum sínum
Það er stundum sagt að augun séu gluggi sálarinnar.
Tilhugsunin um að geta horft inn í sálina á fólki er ógnvekjandi en spennandi um leið.
Ég þekki strák sem segist geta séð það í augunum á mönnum hvort þeir séu kynferðisafbrota menn eða ekki.
Maður er oft voða naskur á að sjá þegar fólk er hamingjusamt.
Eigi leyna augu ef ann kona manni. Og svo mætti lengi telja.

Er þetta svona auðvelt?

Ef maður vill ekki láta aðra vita hvernig manni líður, getur maður þá ekki komið í veg fyrir að það komist upp? Segjum sem svo að manni líði ekki vel og sé sú manngerð sem vandræðast með þær tilfinningar inní sér í stað þess að draga þær í dagsljósið. Er þá nokkuð mál að fela það?

Getur maður ekki blöffað?

Ég held að maður geti blöffað. Ég held að maður geti látið alla halda að maður sé kátur og glaður, en verið í raun eitthvað allt annað. Ég held að maður geti látið alla halda að maður sé alveg brjálaður af reiði en sé það í raun ekki.
Ég held nefninlega að það sé ekki allt sem sýnist - með augunum.


miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Small talk

Ég er alltaf að rekast á fólk úr fortíðinni. Fólk sem var einu sinni í mínum nánasta hring en er í dag í öðrum hringjum - jafnvel í öðrum víddum. Auðvitað er finnst mér misjafnlega gaman að hitta þetta fólk. Það fer eftir hvort þetta fólk er skemmtilegt og hvernig ég er upplögð. Yfirleitt er ég ekkert sérstaklega vel upplögð.
Ekki það að ég sé mannafæla. Ég er bara svo léleg í "small talkinu"
Af hverju erum við alltaf að spyrja um hluti sem okkur langar ekkert endilega til að vita svörin við? Af hverju spyrjum við um lokinn einingafjölda í háskóla, þegar okkur langar miklu frekar að vita hvað manneskjan er að lesa? eða hugsa??

Lenti í einu svona samtali í gær:
(ath eftirfarandi samtal er mjög einhliða. Það er gert vísvitandi svo undirrituð komi betur út.)

Fortíðar fólk: Nei hæ!
Jóda: Hæ
FF: Langt síðan ég hef séð þig, hvað segir þú gott?
Jóda: Bara allt fínt....en þú?
FF: Bla bla bla..ertu að fara í sumarpróf? (þetta samtal átti sér stað á bókhlöðunni)
Jóda: Já....en þú?
FF: Bla bla bla...Í hverju ertu aftur?
Jóda: Mannauðsstjórnun..en þú?
FF: Bla bla bla...hvað er strákurinn þinn aftur orðinn gamall?
Jóda: sex ára
FF: guð hvað tíminn líður hratt!!!

smá þögn..
og ég byrja að telja 1-2-3-4-5..
nú fer alveg að koma að henni...
6-7-8-9-10...

FF: Ertu kominn með kall? (bingó)
Jóda: Nei
FF: Bara þið tvö? Er það ekki huggulegt?
Jóda: Jú, bara við tvö voða yndislegt.

Smá þögn..

FF: Það kemur að því, vittu til. Ég hef tröllatrú á þér!!!

Stundum þá líður mér eins og æxli á samfélaginu. Ég er ekki í sambandi.
Ég er farin að hallast að því að fólki sem er í sambandi finnist óþæginlegt að umgangast mikið fólk sem ekki er í sambandi. Það er ekki lengur hægt að tala við það um alla hluti, ekki hægt að gera allt með þeim, o.s.frv.
Ég hef t.d. ekki tölu á því hvað ég hef ekki verið boðin í mörg matarboð, af því að það er svona "maka dæmi" - þrátt fyrir að það séu kannski mínir elstu og bestu vinir sem standi fyrir þessum matarboðum. Hins vegar er nóg fyrir mig að vera að slá mér upp til að verða gjaldgeng í þessi matarboð.
Það er stundum eins og það sé búið að gefa út skotleyfi á fólk sem ekki er í sambandi. Þá er ég ekki að tala um svona veiðileyfi, heldur hreinlega skotleyfi. Útrýmum einstæðingum - komum þeim í samband!

Kunningjakona mín var orðin alveg svakalega þreytt á spurningunni um hvort hún væri nú ekki að fara að fá sér kærasta, hvort hún væri nú ekki komin á fast o.s.frv.
Til að losna við þessar spurningar byrjaði hún með Jóni. Jón var sjómaður, sem eins og gefur að skilja var mikið fjarverandi. Langir túrar, oft farnir nokkrir túrar í röð. Þegar hann var í landi, rétt missti maður alltaf af honum. Eða þá að hann var rétt ókominn. Þennan Jón átti kunningjakona mín í ein tvö ár, eða þangað til hún hitti manninn sem hún er með í dag.
Jón gufaði upp, rétt eins og hann hefði aldrei verið til.

Það er spurning hvort ég fari ekki og leiti hann uppi - svona til að hafa frá einhverju skemmtilegu að segja næst þegar ég fer í "small talkið"?
Hver veit nema mér verði boðið í mat..því ég hlýt að vera svo einmanna þegar Jón er svona mikið fjarverandi!

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Bókhlöðuhiti

Vissir þú að þegar ég horfi á þig
gerist eitthvað inní mér
undir húðinni?

Þegar ég renni augunum niður eftir þér
og upp aftur
staðnæmist ég við hálsinn - svo mjúkur að sjá
langar að strjúka
snerta

Ég finn hvernig hendur þínar
leika við mig
koma við mig
ég gef mig - þú færð mig

sleiktu mig
komdu
taktu mig
farðu með mig alla leið

mánudagur, ágúst 16, 2004

Búið spil

Jæja, þá er skvísubílasumrinu formlega lokið. Ég ók upp á höfða, þar sem bíllinn "minn" á heima. Það var með vissum trega sem ég fór síðasta rúntinn. Græjurnar á fullu blasti, sólgleraugun á sínum stað og upp Ártúnsbrekkuna á 90. Ég var að hugsa um að fara úr að ofan, en hætti við.

Það myndast alveg sérstök orka í maganum, þegar ég heyri skemmtileg lög. Hver smellurinn kom á fætur öðurm. Lokalagið toppaði þó allt. Ruslana vinkona mín (man náttúrulega ekki hvað lagið hennar heitir). Við bonduðum svo svakalega að ég fékk tár í augun.

Kannski voru þessi tár líka pínulítið fyrir þennan litla fjólubláa. Þó svo að ég kallaði hann dollu og gerði grín að honum, þá unnum við vel saman. Kannski líka pínulítið fyrir sumrinu sem er að ljúka. En það koma aðrir bílar og önnur sumur.

Strákarnir á bílaleigunni tóku mér fagnandi, enda sjálfsagt sjálfir aðframkomnir af söknuði. Og ég snéri heim á leið.

Nú tala ég eins og ég sé búin að yfirgefa Volvoinn minn. Auðvitað er ég ekki búin að því. Við eigum okkar sögu. Maður yfirgefur ekki ástvin sinn, bara af því að hann er orðinn gamall.
Þetta er náttúrulega svakalegur kaggi, liggur vel á götunni, eðal númer og ég veit ekki hvað og hvað...
En afhverju þarf hann að hafa svona hátt?
Af hverju getur hann ekki farið aðeins hraðar? Ekki mikið - bara pínulítið.

Ætla að skola af honum rykið í vikunni og fara með hann í skoðun (ekki nema 4 mánuðum of seint).
Ætli ég fái skoðun fjórða árið í röð, með ónýtt rúðupiss?
Það verður spennandi að sjá.

Ruslatunnur og nýtt líf

Á morgun byrjar nýja lífið mitt. Eða á morgun byrjar gamla lífið mitt aftur. Sumarið tekur endasprett sinn með undirbúningi fyrir sumarpróf. Núna ætla ég að vera alveg svakalega dugleg að læra, ekkert að leggja mig fram á skólabækurnar og ekki horfa mikið út í loftið.

Tekst þetta? Auðvitað!!!

Ég er orðin svo stór og bý yfir svo gífurlegum sjálfsaga að þetta verður eins og að drekka vatn... með lokuð augun og hendur bundnar fyrir aftan bak.

Ég fann gömlu dagbækurnar mínar um daginn. Þessar sem ég skrifaði þegar ég hafði frá einhverju miklu og merkilegu að segja. Þar ræddi ég um mín innstu hjartans mál, eins og t.d. að ég þyrfti nú að fara í megrun og í hvaða strák ég væri skotin og hvað ég ætlaði að vera búin að afreka þegar ég væri orðin þrítug.
Annað hvort er ég að tala um hvað lífið sé erfitt eða hvað það sé frábært.
Yfirleitt er ég alveg að fara að byrja nýtt líf eða nýbyrjuð á nýju lífi.

Hormónaflæði unglingsáranna. Sumir verða lítið varir við þetta. Aðrir eru í þessu flæði allt sitt líf. Ég hélt alltaf að best væri að ná stjórn á lífinu, hafa það niður njörfað. Slétt og felt.
En eftir því sem árin færast yfir mig (segir gamla konan) og ég verð hoknari af reynslu verð ég sannfærðari um að best sé að blanda þessu saman - í hæfilegum skömmtum.

Einu sinni var ég unglingur. Þá tók ég allar mínar helstu og bestu ákvarðanir á nóttinni. Eina nóttina ákvað ég að nú væri nóg komið og frá og með morgundeginum yrði ég pæja. Til að ég myndi ekki gugna á þessari ákvörðun minni, fór ég inn í fataskáp og hreinsaði út úr honum. Fötin sem í honum voru, fóru beinustu leið út í tunnu.
En rétt eins og Róm var ekki byggð á einni nóttu, varð ég ekki heldur pæja á einni nóttu.
Mamma mín hafði engan skilning á fatavandræðum mínum, talaði eitthvað um fljótfærni og ruslatunnur..alveg vonlaus.

Það tók mig mörg ár að eignast einhver föt aftur í hillurnar mínar og ég græt enn fínu rauðu joggingbuxurnar með stroffinu.

laugardagur, ágúst 14, 2004

Stéttaskipting

Ég á alveg frábæran nágranna. Nei, ég á frábæra nágranna, en það er einn sem er frábærari en hinir. Hann er "pabbinn" í húsinu, þakkar mér fyrir ef ég hreinsa beðin eða slæ grasið í garðinum okkar. Svona eins og ég hafi verið að gera honum alveg persónulegan greiða.
Hann segir heldur aldrei neitt ef ég missi mig aðeins í volume takkanum seint á helgarkvöldum.
Hann gaf mér meira að segja gömlu ryksuguna sína, þegar hann keypti sér nýja í vetur.

Maður spyr sig af hverju er maðurinn að kaupa sér nýja ryksugu ef hann á ryksugu sem virkar? Nákvæmlega, ég skil það ekki. Fékk enga almennilega skýringu á þessu hjá honum, þrátt fyrir að hafa spurt nokkrum sinnum.

Kannski á hann svona rosalega mikið af peningum að hann bara verður að kaupa sér ryksugu, því hann var búinn að kaupa sér allt annað?

Þetta viðhorf er í sjálfu sér ekkert slæmt. Mér hefur alltaf fundist það hálf glatað að safna og safna peningum, bara til að safna þeim.

Hitti hann í garðinum í dag. Við Sverrir vorum að koma úr hjólatúr, með viðkomu í sundi. Skutumst heim til að skila sunddótinu og vorum á leið í Bónus. Tilkynningaskyldan bauð mér að segja "pabbanum" í húsinu að við værum að fara í Bónus. Þá sagði hann mér að hann hefði ALDREI KOMIÐ INN Í BÓNUSVERSLUN!!

Hvernig er hægt að hafa aldrei komið inn í Bónusverslun? Þó svo að það væri ekki nema til að skoða? Ég meina ég hef meira að segja komið inn í Sævar Karl...

Hver getur svo haldið því fram að það sé ekki stéttaskipting á Íslandi?

Ætli ég hætti að versla í Bónus ef ég verð rík?

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Vatn er til ýmissa hluta brúklegt.

"Ég fer og sæki tætarann"
"ó nei, hann er að fara að sækja tætarann"
Það var stríð í Vesturbænum í dag. Ekkert smá stríð. Það var vatnsstríð. Birgðarstöðin var heimili mitt og hafði ég það verðuga verkefni að fylla vopnin. Þau voru ekki af verri endanum: flöskur, dollur og leynivopnið ægilega "tætarinn"
Þegar hermennirnir voru búnir að skipta tvisvar sinnum um alklæðnað og bleyta allt sem hægt var að bleyta (líka það sem ekki mátti bleyta, eins og t.d. gólfin í íbúðinni minni) var stoppleikur. og þeir snéru sér að öðrum málum.

Sonur minn sagði mér að vinirnir væru alltaf að fara eitthvað sem hann gæti ekki komist. Litla móðurhjartað tók kipp og ég velti því fyrir mér hvort sonur minn væri skilinn útundan.
"Nú, hvert eru þeir að fara?"
"Þeir eru að fara yfir götur og svona. Ég hef samt farið með þeim þegar við vitum að það eru engir bílar" Mér leist ekki á blikuna og sagði að hann yrði ALLTAF að horfa til beggja hliða og hlusta, það væri ekki nóg að VITA að það væru engir bílar.
"Já, en mamma þeir eru svo sjaldgæfir í þessum götum!"
Ég gaf mig ekki og sagðist sjálf ALLTAF líta til beggja hliða og hlusta áður en ég færi yfir götu.
"Þú hefur örugglega ekki gert það þegar þú varst lítil"

Örugglega ekki.

Hvenær breytast hlutirnir hjá okkur? Af hverju erum við hætt að fara í vatnsslag? Hvenær fer það að skipta máli við hverja við leikum? Af hverju er ekki nóg að vita að sá sem er skemmtilegastur heitir Haukur? Af hverju þurfum við að vita hvað hann er gamall og í hvaða skóla hann er?

Ég man þegar ég var í umferðaskólanum (ok ég man það ekki persónulega, en það er búið að minna mig svo oft á það að mér finnst ég muna það) þá er löggan að predika yfir okkur um að við eigum alltaf að labba beint yfir götu, annars gætu bílarnir keyrt yfir okkur. Mér fannst þetta mikil speki en þurfti þó aðeins að leggja til málanna (gat nú verið) "Mamma mín labbar alltaf á ská yfir götu!"
Þetta ætlaði ég sjálf aldrei að gera en í dag skammar sonur minn mig fyrir nákvæmlega sama hlut og ég bar móður mína út fyrir um árið.

Af hverju tekst okkur ekki að halda í sakleysið okkar? Hverfur það með reynslunni? Þegar við brennum okkur á því að lífið er ekki eintómur vatns slagur og það gæti skipt máli í hvaða skóla Haukur er?

Kínverjar með klukkur

Ég sagði vinkonu minni að ég hefði tekið mér það bessaleyfi að segja frá Japans samsæriskenningunni hennar. "Já" sagði hún. "En þú veist að kínverjar eru líka mjög vafasamir?"
"Nú, er það?"
"Já, þeir eru svo margir og svo eiga þeir næstum allir úr. Þeir þurfa bara að samstilla úrin og byrja að hoppa og við hin dettum öll af. Hvað eru svo bandaríkjamenn að vesenast þarna í Írak, þegar þeir eiga að vera að leita að kínverjum með úr!"

Það eru sko ekki allir svona heppnir eins og ég, að eiga svona vel gefna og næma vini.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Stoltur eigandi United UTV4028

Eftir mikla umhugsun og umræður við vini og vandamenn ákvað ég að gamla sjónvarpið hennar mömmu frá fyrra hjónabandi, væri jafn úrelt og það hjónaband, og skellti mér á nýtt tæki. Nú trónir það tæki á besta stað í stofunni, rétt eins og aðrir gullkálfar á öðrum heimilum.
Strákurinn sem seldi mér græjuna var ekki alveg viss úr hvaða ljóskerfi ég kæmi, þegar ég sagði honum að ég hefði aldrei keypt mér sjónvarp áður. Og ekki skánaði það þegar ég dró hann með mér um búðina til að skoða video-tæki, sem ég hafði aldrei átt. Var að hugsa um að segja honum að ég væri venjulega kölluð Jóda, þannig að hann gæti tengt mig við aðra vídd en okkar, en ákvað að sleppa því.

Ég er ekki búin að setja græjuna í samband og veit ekki alveg hvort ég geri það strax. Fór frekar út í kvöld og ræktaði garðinn minn. (Fyrir þau ykkar sem ekki hafið þökulagt áður, þá er það mjög langt frá því að vera "hin besta skemmtun")
Af því að maður er svo háður ytra umhverfi hafði ég símann minn hjá mér í garðinum. En þar sem ég er djúpt sokkin í pælingar um það hvernig þökurnar ættu að liggja, heyri ég hringingu úr íbúðinni minni. "Ohh, heimasíminn, ætli ég nái honum?" Ég hleyp af stað og loksins þegar ég finn símann (því auðvitað er ég með þráðlausan síma) þá hættir hann að hringja. Samkvæmt símnúmerabirti (sem ég að sjálfsögðu er með) er þetta leyninúmer.
"Sölumenn!!!" Hvað er maður að gera með heimasíma? Það eru allir hættir að hringja í hann. Eina fólkið sem hringir í mig í heimasímann er mamma og sölumenn. Mamma hringir alltaf aftur og sölumennirnir því miður líka.

Við leikum okkur með tæknina - tæknin leikur sér að okkur
Ég man þegar ég lét undan og fékk mér minn fyrsta gsm síma. Ég slökkti á honum þegar ég kom heim og hafði að sjálfsögðu slökkt á honum á nóttinni. Í dag er ég steinhætt að gefa upp heimanúmerið mitt og sef næstum því með gsm símann í fanginu.
Ég ætlaði aldrei að læra á tölvu. Ritvélar dugðu mér mjög vel og svo elska ég bókasöfn. Í dag myndi ég frekar missa af Nágrönnum en missa tölvuna mína. Bókasöfnin eru mér enn hugleikin, enda yfirleitt fínar tölvur þar.

Tæknin er frábær. En ég geri hlutina á mínum hraða og næ því ekki alltaf að fylgja henni. Einu sinni fylgdist systir mín með því þegar ég var að skrifa sms. "Af hverju notar þú ekki báðar hendur þegar þú skrifar???"
Ég á forláta matvinnsluvél, sem getur gert allt - nema kannski skreytt jólatréð. Ég er nýbúin að fatta að ég get rifið ost í vélinni í stað þess að nota gamla rifjárnið.
Ég var búin að vera með sjónvarpið hennar Dísu í pössun í 3 mánuði þegar ég fattaði að það væri textavarp á því.

Vinkona mín er með kenningu. Kenningin hljómar eitthvað á þessa leið: Japanir eru að vinna í því að ná yfirráðum í heiminum. Aðferð þeirra byggist á því að selja okkur rafmagnsgræjur á góðum kjörum. Þessar græjur senda frá sér bylgjur sem "afstilla" okkur og svo þegar við erum búin að kaupa nóg af græjum og erum orðin nógu "afstillt" þá trítla þeir yfir og taka völdin.
Þessi kenning er ekkert alvitlaus. Við erum orðin svo háð tækninni að við getum ekki farið á milli staða, ekki eldað mat, ekki notið góðrar kvöldstundar, ekki stofnað til kynna við hitt kynið, ekki menntað okkur, ekki skoðað heiminn..nema með aðstoð hátækninnar.

Sem betur fer eru þó enn nokkrir furðufuglar sem þrjóskast við. Glósa ekki á fartölvuna sína í skólanum. Daðra augliti til auglitis. Muna ekki númerið hjá Dominos. Eiga ekki allar nýjustu græjurnar eins og t.d. video.
Held reyndar að ég fari bráðum að eignast svoleiðis dót, en ekki fyrr en ég er búin að koma digital myndavélinni minni í gagnið (sem ég fékk fyrir tveimur árum) og mp3 spilaranum sem ég fékk í vor...

Þá fyrst eiga japanir einhvern séns í mig!

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Þungun

Ég var í afmæli í dag og þar voru tvær gullfallegar óléttar konur. Góðar vinkonur, komnar jafn langt á leið. Afmælið var frábært í alla staði, börn og fullorðnir ánægðir. Ég horfði á þessar fallegu konur og hugurinn reikaði til baka.
Þegar ég var ófrísk borðaði ég ís á hverjum degi. Eini ísinn sem ég gat hugsað mér var Álfheima-ís og skipti ekki máli hvað ég (eða barnsfaðir minn) þurfti að standa lengi í biðröð. Í mínum huga var ekki til önnur ísbúð.
Ég komst að því að ein vinkona mín væri ólétt, vegna þess að hún át appelsínur út í eitt. Maðurinn hennar reyndi að banna henni að borða appelsínur á almannafæri, svona rétt á meðan þungunin var enn leyndarmál. Hún gat bara ekki hætt.
Einu sinni kom önnur ólétt vinkona mín í heimsókn. Við sitjum í eldhúsinu og erum að fá okkur kaffi og brauð. Ég spyr hana hvort hún sé ekki "sjúk" í eitthvað. "Nei, ekki neitt" segir hún og dregur á sama tíma upp úr töskunni sinni hvítlaukssalt. Ég leit til hennar glottandi. Úskýring hennar á ferðalaginu með saltið var einföld: það var alls ekki öruggt að það væri til hvítlaukssalt á öllum heimilum!
Önnur kona sem ég þekki gat ekki séð manninn sinn í friði. Kynhvöt hennar var í svakalegu hámarki. Hún stökk á hann þegar hann kom heim úr vinnunni (enn í forstofunni) og svalaði þörfum sínum (og vonandi hans)
Ein önnur kona sagði við mig þegar hún var ólétt að hún notaði tækifærið og segði allt sem hana langaði til að segja, alveg sama hvað það væri tíkarlegt. Því hún gæti alltaf falið sig á bak við það að hún væri á hormónatryppi vegna þungunar.

Það er svo gott að vera óléttur. Þá má maður allt. Borða eins mikinn ís og mann lystir, stunda eins mikið kynlíf og maður vill - eða sleppa því alveg. Vera eins leiðinlegur og maður í rauninni er. Allt í skjóli ófædds einstaklings.

Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að ég væri ólétt núna. Vantar meiri ís, er mjög undarleg í skapinu og langar endalaust mikið til að stunda kynlíf í forstofunni.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Spurningar um raunveruleikann

Ég fór í bíó á sunnudaginn. Það er góð tilbreyting að fara á myndir sem ég vel að eigin frumkvæði. Þótt ótrúlegt megi virðast þá var Spiderman 2 ekki efst á bíó óskalistanum. i robot er það ekki heldur og reyni ég hvað ég get til að losna undan að sjá hana.

Nóg um það.

Ég sá Good bye Lenin. Í mjög stuttu máli gerist hún í austur Þýskalandi. Áður en múrinn fellur fær móðir söguhetjunnar hjartaáfall og fellur í dá. Þegar hún vaknar úr dáinu er múrinn fallinn og vestræn ó-menning streymir inn. Til að koma í veg fyrir að móðir hans fái annað hjartaáfall (sem líklegast myndi ríða henni að fullu) býr sonurinn til þá blekkingu fyrir hana að múrinn standi enn sem fastast og allt sé við það sama. Læknarnir telja ekki líklegt að hún eigi langt eftir ólifað og telur sonurinn að það sem hann geri fyrir hana sé einungis til að gera síðustu daganna hennar þægilegri, átakalausari, betri en ella.

Eins og algengt er með góðar myndir, fékk þessi mig til að hugsa.

Að þykjast í veruleikanum
Hver er raunheimurinn okkar? Við búum í saman í samfélagi, göngum í sömu skóla, þekkjum sama fólkið, tökum sama strætó og verslum í sömu verslun. Þýðir það að heimurinn okkar sé eins? Auðvitað eru margir aðrir þættir sem koma inn, eins og fjölskylduaðstæður. En ef við gefum okkur að allar aðstæður séu svipaðar. Hvað þá?
Ef mér gengur illa að fóta mig í samfélaginu en ekki þér. Hvort er samfélagið þá gott eða vont?

Ég lá andvaka eina nótt þegar ég var litil stelpa. Ég var alltaf að kalla á mömmu og segja henni að ég gæti ekki sofnað og bað hana stöðugt um svefntöflu. Á endanum kom mamma með hálfa c-vítamín töflu og vatnsglas og sagði að þetta væri svefntafla og að ég myndi sofna strax og ég væri búin að gleypa hana. Hver var þá raunveruleikinn? Ef ég sofnaði eftir að hafa gleypt töfluna, er hún ekki svefntafla fyrir mér?

Við erum aldrei eins. Sumt segjum við foreldrum okkar annað geymum við fyrir vini og enn annað segjum við engum frá. Hvaða mynd erum við að gefa af okkur?
Fyrir syni mínum er ég hin heilaga móðir, sem fær sér stundum rauðvín í glas. Aðrir vita betur. Í augum sumra (ok margra) er ég bölvuð frekja en aðrir gætu jafnvel haldið því fram að ég væri ósköp ljúf.
Þegar maður kynnist nýju fólki, kemur inn á ný - áður óþekkt svæði - þá matreiðir maður sig á misjafnan hátt. Alvörugefin, kát, grimm, klár, sjálfsörugg, óstöðug, vitlaus, góð, köld, heilög, kisulóra eða villiköttur. Allt eftir því hvað við á.

Ef maður vill ekki allan sannleikann, hvað er maður þá?

Raunveruleikinn er ekki fyrir viðkvæm augu. Hver kannast ekki við það þegar fréttamenn eru að segja fréttir af hörmungum úr hinum stóra heimi og rétt áður en myndir af atburðum eru sýndar segja þeir: "við vörum viðkvæma við myndunum sem sýndar verða" Þar með gefst okkur sem ekki viljum sjá hið raunverulega ástand, tækifæri til að loka augunum eða skipta um stöð.

Er maður að svíkjast undan ef maður segir ekki allan sannleikann?

Í fyrsta hlaupinu sem ég tók þátt í lenti ég í þriðja sæti. Frábær árangur. Fékk bikar og allt. Átti ég alltaf að láta það fylgja að við vorum bara fjórar konur sem tókum þátt? Hvort lenti ég í þriðja sæti eða næstsíðasta sæti?

Þetta eru nú meiri hringavitleysan...

Dagurinn sem sakleysið glataðist

Það þarf ekki að hafa neitt sérstaklega mörg orð um veðrið í dag. Þau sem gátu - nutu þess. Þau sem gátu ekki notið eru ekkert betur sett að lesa um hvað var bilaðslega gott veður!

Einu sinni fyrir nokkrum árum var líka gott veður. Ekki eins gott veður og var í dag (enda held ég að ég hafi aldrei upplifað svona veður eins og í dag nema þá kannski í suður Evrópu) en það var samt fínt veður. Ég bjó þá á Frakkastíg og var á leiðinni niður í bæ. Það er voðalega gaman að kæða sig upp á svona dögum og það gerði ég líka. Ég fór í rósóttan kjól, setti á mig hatt og fína nýja rúskinnsbakpokann minn.

Það er merkilegt hvernig áhrif sólardagar hafa á fólk. Ég var svo kát og ljómandi hamingjusöm. Allir aðrir í kringum mig virtust vera sama sinnis. Þar sem ég geng niður Laugarveginn, í átt til miðbæjarins, brosa gjörsamlega allir. Það sem meira var að allir virtust vera brosa til mín.
Ég vissi ekki hvort það var fallegi rósótti kjóllinn minn, flotti hatturinn eða bara sæta stelpan í þessu átfitti.

Ástæðan fyrir þessari athygli var í raun auka atriði í mínum huga. Mér fannst þetta ósköp ljúft og vonaði bara áhorfendur nytu líka.
Ég var búin að ganga niður Laugarveginn og var að komast í Bankastrætið þegar ég tek eftir eldri konu sem gengur á móti mér. Hún horfir voðalega stíft á mig og ég brosi til hennar. Hún verður eitthvað voðalega ömmuleg og það eina sem mér dettur í hug er hvort hún sjái ekki horfna æsku sína í stúlkunni í rósótta kjólnum.
Ég geri mig líklega til að ganga framhjá henni, enn brosandi, en hún virðist eiga eitthvað vantalað við mig.
Hún kemur alveg að mér, tekur laust í handlegginn á mér og segir:
"Heyrðu vina mín. Kjóllinn þinn er allur upp að aftan!!!"

Ég var semsagt búin að ganga niður allan Laugarveginn með kjólinn uppá bak og fólkið var ekki að brosa til mín, heldur að mér.
Og ég sem hélt að ég hefði verið svo sæt!

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Innsýn inn í huga engils...

Þó ég sé engill er ekki þar með sagt að ég sé dáin. Þvert á móti er ég sprelllifandi. Þó svo að ég sé engill er ekki þar með sagt að ég sé bara góð og alltaf glöð. Þvert á móti er ég stundum vond og á það til að fara í ótrúlega fýlu. Ég er ekki alveg viss afhverju ég er svona, kannski það sé til að fólk taki frekar mark á mér? Svo ég geti sinnt starfi mínu? Veit það ekki almennilega, en svona er þetta í það minnsta.
Hvað er það svo sem ég geri? Jú, einmitt það sem englar gera. Ég á að láta fólki líða vel. Ég á að hjálpa öðrum. Við, englarnir, sinnum misstórum hópum og höfum misjöfn verkefni. Sumir passa upp á matseldina hjá fólki, sumir eru á sjúkrahúsum og aðrir sjá jafnvel um heilu þjóðirnar.
Margir halda að mitt starf sé auðvelt.
Ég hef það verkefni að svífa um og strá kærleiksdufti yfir fólk. Það er mjög skiljanlegt að fólk haldi að þetta sé auðvelt starf. Það er svo gefandi og þakklátt að láta öðrum líða vel. Hver vill ekki elska og vera elskaður? Þetta er svosem nógu gaman. Að sjá hvernig kærleikurinn lætur fólk haga sér. Fólk verður bjánalegt og segir skrýtna hluti og þegir um þá gáfulegu. Það getur verið alveg drepfyndið að fylgjast með því.
Starf mitt er hins vegar mjög ábyrgðarmikið. Ég á að finna út hvaða fólk passar saman og hvaða fólk passar ekki saman. Þar stend ég mig ekki alveg nógu vel. Ég læt fólk verða skotið í hvort öðru, sem hefur bara alls ekkert með það að gera. Svo hefur það komið fyrir að ég strái kærleiksdufti yfir annan aðilann, en gleymi hinum. Það getur verið mjög sárt að fylgjast með því. Ég ræð bara ekkert við þetta, ég hugsa að ég sé búin að vera of lengi í þessu starfi. Þetta gekk miklu betur hjá mér áður fyrr. Ætli ég sé ekki orðin of mannleg til að standa í þessu.
Það er þó eitt sem ég hef ennþá. Ég get enn flogið á vængjunum mínum.
Stundum þegar ég verð döpur, þá svíf ég um og flögra um á milli stjarnanna. Það verður allt svo fallegt í fjarlægðinni að ég gleymi alveg að vera einmanna. Já, ég verð nefninlega stundum einmanna. Því þó ég strái kærleiksdufti á aðra, get ég alls ekki stráð dufti á sjálfa mig.
Það er þó von sem bærist í brjósti mér. Það er til einn strákur, sem ekkert kærleiksduft virkar á. Hann var sendur til jarðarinnar til að fullkomna mig. Hann er svona eins og ég, smá engill og smá maður. Ég veit ekki hvernig hann lítur út og ég veit ekki hvar hann er. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að finna hann. Það eina sem ég get gert er að fljúga upp í himininn, opna hjartað mitt og beina því sem streymir þar út í átt til tuglsins og vona að endurskin þess varpi ást minni til stráksins ófundna. Því sama hver hann er og sama hvar hann er, þá er bara eitt tungl sem hann getur horft á...




laugardagur, ágúst 07, 2004

Kærleikur

Hvað er æðsta form kærleikans? Var að hugsa um þetta í dag. Hvenær elskar maður mest? Margir telja skilyrðislausa ást vera hreinasta og besta. Að elska einhvern með kostum sínum og göllum. Sama hvað viðkomandi gerir, segir, er..skiptir ekki máli ástin er söm við sig.
Engar kröfur. Engar kvaðir.

Er þetta svona einfalt?

Hvað með fólk sem er í ofbeldisfullum hjónaböndum? Börn sem eru misnotuð af foreldrum sínum? "Vinir" sem gera illt á hlut "vina" sinna?
Persónulega hef ég aldrei skilið af hverju fólk er í samböndum sem veitir þeim ekkert nema óhamingju. Ég spurði einu sinnu konu, sem var gift manni sem barði hana eins og harðfisk, af hverju hún hafi látið það yfir sig ganga í mörg mörg ár. Svar hennar var mjög einfalt, en afar sorglegt: "af því að ég elskaði hann og trúði honum í hvert skipti sem hann sagði að þetta væri í síðasta skipti sem hann legði á hana hendur. Nú væri hann nýr og betri maður"

Hvernig geta börn sem hafa verið misnotuð af foreldri sínu haldið áfram að umgangast þau. Haldið upp á jólin, páskana, afmæli o.s.frv. Kysst og jafnvel knúsað, þrátt fyrir að viðkomandi hafi eyðilagt líf þeirra. Sá einstaklingur sem hefur það hlutverk að vera stoð og stytta í lífsbaráttunni, reynist vera sá sem gerir baráttuna að töpuðum leik?

Er það kannski undanlátssemi að elska án skilyrða?

Get ég elskað án skilyrða? Ég er ófullkomin. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér. Sett mig í líklegustu og ólíklegustu aðstæður með vinum og vandamönnum, komst ég að því að ég elska ekki án skilyrða. Vissulega má mikið á ganga hjá mínum nánustu til þess að ég hætti að elska þá. En við þessar "ólíklegu" aðstæður finnst mér líklegt að ég myndi hætta að elska.
Ég er þó ekki alófullkomin. Það er ein manneskja sem ég elska skilyrðislaust. Út fyrir endamörk alheimsins. Sama hvað gengi á, við líklegustu og ólíklegustu aðstæður, elska ég alltaf son minn.
Hann er sú manneskja sem gerir líf mitt þess virði að lifa því. Sama hvað gengur á.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Spáið í það!

Innan um lífisins kaos má finna reglulega hamingju sem er svo aftur uppfull af ringulreið.
Er einhver möguleiki að finna út úr þessu?

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Tíminn

Ég sá fyrstu haustlaufin í morgun. Úff...þá er ballið byrjað. Hugsaði um þessi lauf í allan dag. Þegar ég fór út að hlaupa var ég sannfærð um að peysan sem ég fór í væri alls ekki nógu þykk og helst væri þörf á hönskum.
Ég var varla komin niður Hringbrautina þegar ég var komin úr peysunni og þakkaði mínu sæla fyrir að þurfa ekki að dröslast með hanskana.

Það er eins og maður sé alltaf að flýta sér. Drífa sig e-ð annað, í e-ð annað rými, annan tíma.
Í kringum 20. júlí erum við farin að tala um að sumarið sé að verða búið. Í dag, 5. ágúst, var ég að velta jólagjafainnkaupum fyrir mér. Þegar jólin loksins koma, bíðum við eftir vorinu. O.s. frv.

Þetta með haustlaufin er þó alveg eðlilegt. Sumarstarfinu fer senn að ljúka. Sumarpróf handan við hornið. Skólinn að byrja.
Af hverju sumarpróf heita nú sumarpróf en ekki haustpróf eins og fyrir stuttu síðan, er pæling sem hægt er að skrifa heila bók um, og verður ekki gerð skil að svo stöddu.

Talandi um sumarstarf og að reyna að átta sig á tímanum. Ég var með sérlegan aðstoðaryfirleiðbeinenda í tvo tíma í dag. Sverrir var svo ótrúlega heppinn að fá að hanga í bílnum með mömmu sinni part úr degi. Við erum eitthvað búin að keyra um og þá spyr hann upp úr þurru: "mamma, er liðin klukkustund?"
"Síðan hvenær?" spyr ég á móti.
"Bara síðan einhverntímann"
"þú verður að tilgreina síðan hvenær, svo ég geti svarað spurningunni þinni" segir mamman
"Bara síðan klukkan 11"
"Já, það er liðinn klukkutími síðan klukkan var 11" segi ég, (þar sem klukkan var rúmlega 2)
"OK" segir hann, voða sáttur við sitt.
Og málið var dautt.

Við komum við á Laugardalsvellinum. Þrátt fyrir að Sverrir væri alveg sannfærður um að þar væru bara leiðinlegir hópar að vinna (skil nú ekki hvaðan hann hefur þessa jákvæðni) tók hann gleði sína á ný þegar við gengum inn á völlinn.
Honum finnst ekkert leiðinlegt að hlaupa og þarna er frábær hlaupabraut. Þar sem hún lá þarna ein og yfirgefin, var ekki annað hægt en að nota hana. Hún hreinlega bað um það...eða það fannst Sverri. Ég viðurkenni það alveg að mig hefur oft dauðlangað til að hlaupa á henni, en aldrei lagt í það. Eitthvað feimin við það.
Nema hvað...
Hann biður mig um að telja hvað hann er lengi að hlaupa hringinn. Ég jánka því en hugsa um leið hvaða hvatningu ég geti notað, þegar hann hættir að hlaupa og snýr við. Hann leggur af stað og ég byrja að telja. Hann þýtur áfram, svo hratt að ég heyri grasið taka andköf (ok, nú er mamman aðeins að missa sig) ...andköf eða ekki andköf, hann hljóp. Þegar hann var hálfnaður leit hann til mín og vinkaði..
Drengurinn hljóp allan hringinn. Ég löngu hætt að telja og reyndar anda líka en var þess í stað á fullu að reyna að muna símanúmerið í Vesturbæjarskóla. Verð að hringja í skólann á morgun og segja að hann komi ekki í haust, hann sé að fara í þjálfunarbúðir í Kína.


miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Árinni kennir illur ræðari

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju mér haldist svona illa á peningum. Kemst alltaf að sömu niðurstöðu: mamma og pabbi kunna hvorugt með peninga að fara - þannig að það er nú ekki nema von að ég sé eins og ég er. Ég hef líka stundum notað eftirfarandi klisjur: ég ætla ekkert að verða ríkustu í kirkjugarðinum, njóta lífsins á meðan ég lifi o.s. frv.
Það hefur verið ósköp gott að geta losað sig svona undan ábyrgðinni, en síðustu misseri hef ég verið að skríða undan ofríki fjölskyldunnar og verða sjálfstæður einstaklingur.Það er samt alveg sama hvernig ég reyni ekkert gengur að spara peninga. Í byrjun ársins var ég þó alveg sannfærð um að nú væri þetta komið. Fór í bankann og sótti visakortið mitt. Fannst Halldóra þjónustufulltrúi vera hálf glötuð þegar hún sagði við mig: "komdu svo aftur með það þegar þú ert búin að kaupa skólabækurnar!"
"Hvað hélt hún eiginlega að hún væri???" (Ýtti þeirri staðreynd langt í burtu frá mér að ég hafði sjálf beðið hana nokkrum mánuðum áður að neita að láta mig fá kortið alveg sama hvað ég bæði hana um það).
Ég var svolítið eins og óvirkur alki sem er að byrja að drekka aftur (sumsé falla) Fyrst notaði ég það mjög lítið, bara til að kaupa mat og þessháttar. Næsta skref var að nota það bara ef ég var viss um að ég fengi nægan pening til að borga það næstu mánaðarmót en svo notaði ég það bara....

Ég elska 1. ágúst

Eftir að ég komst til vits og ára tók ég sérstöku ástfóstri við einn dag ársins, 1. ágúst. Þann dag greiðir skatturinn mér til baka það sem hann hefur í illsku sinni tekið af mér árinu áður. Eftir að ég keypti mér íbúðina mína fæ ég líka vaxtabætur. Ég hugsa um það allt árið hvað ég ætli nú að gera við peningana. Fara til útlanda, kaupa mér fullt af fötum, kaupa rúm handa Sverri, mála, Legoland, sjónvarp, video, tölva, eldhúsinnrétting og svo mætti lengi telja.

Hins vegar hefur peningurinn yfirleitt farið í eitthvað allt annað en græjur og utanlandsferðir. Hvert þeir hafa farið, get ég því miður ekki sagt frá..einfaldlega vegna þess að ég veit það ekki.

Ég hef verið að passa sjónvarpið hennar Dísu vinkonu síðastliðið ár. Hún skrapp til Spánar en er að koma heim í næstu viku. Ég hef aldrei áður verið með sjónvarp sem er með fjarstýringu og textavarpi og kann því orðið ágætlega og fór því í sjónvarpsleiðangur í dag. (það mætti kannski koma því að hér að þegar ég tók við sjónvarpinu hennar Dísu og skilaði mömmu 19 ára gömlu sjónvarpi, að ég hugsaði með mér að þegar hún kæmi til baka yrði ég orðin svo rík að ég væri nú ekki í vandræðum með að kaupa mér fínt og flott sjónvarp...yeah right!)

Þegar ég var komin inn í sjónvarpsbúðina mundi ég eftir því að mig vantaði græjur líka. Fljótlega fann ég rosafínt sjónvarp og líka græjur. Þetta var alls ekki svo dýrt, bara nokkrir tugir þúsunda. Nær 50 þúsundum frekar en 100. Sama og gefið.
Þegar ég er að tala við kaupmanninn mundi ég eftir því að ég átti ekki heldur video. Segi við hann: "fæ ég ekki góðan afslátt ef ég kaupi allt þetta hjá þér?" Þrátt fyrir að hann lofaði mér 5% afslætti þá var ég nú samt farin að nálgast 100 þúsundin óðfluga.
Ég brosti til hans og sagði: "flott, kem á eftir og geng frá þessu"

Þegar "á eftir" var komið og ég búin að leggja bílnum fyrir framan sjónvarpsbúðina annað skiptið þann daginn, andaði ég rólega. Hugsaði með mér að ég væri líklegast að missa vitið.Hvað er að 19 ára gömlu sjónvarpi? Ef það virkar? Af hverju get ég ekki lengur notað gömlu fermingargræjurnar? Og VIDEO??? Til hvers í ósköpunum?

Nei nú er nóg komið. Á morgun ætla ég að fara til Halldóru og láta hana fá visakortið mitt og hringja í mömmu og ath hvort hún geti sent gamla sjónvarpið suður.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Óður til hins fullkomna - texta

Ég elska að finna hvernig þú verður þegar ég gæli við þig með augunum. Þú öðlast nýtt líf þegar ég afhjúpa þig eins og ég opna banana. Fletti frá þér öllum hindrunum sem standa í vegi fyrir því að við getum runnið saman, orðið eitt.
Að lokum stendur þú frammi fyrir mér nakinn. Vel skapaður, einfaldur og fallegur.
Mig langar til að drekkja mér í þér. Drekka þig í mig.
Eftir að ég hef notið þín ertu enn hjá mér. Þú ert orðinn partur af mér. Ég sé þig í öllu. Í trjánum, vindinum, skýjunum, hljóðunum, fólkinu –

Allt sem þú hefur að segja ætlar þú mér einni – rétt á meðan. Það er enginn nema ég og þú. Ég veit að þegar þú ert ekki hjá mér gælir þú við önnur hjörtu, leyfir öðrum augum að afhjúpa þig. Vitneskjan um að margir fái að njóta þín fyllir mig auðmýkt og þakklæti yfir að ég sé ein af þeim.

Ég elska - þig og allt sem þú hefur að segja mér

mánudagur, ágúst 02, 2004

Sætar stelpur á brjóstunum

Í gær hitti ég stelpu sem sagði mér frá því þegar hún var að ferðast um Bandaríkin. Hún var á bar í suðurríkjunum og fór upp á svið og söng með hljómsveitinni og sýndi öllum gestunum brjóstin sín.
Svo sagði hún mér frá því þegar hún og tvær vinkonur hennar voru að keyra norður og hún segir allt í einu: "allar úr að ofan" og þær fóru allar úr að ofan og óku svo áfram. Þær vöktu mikla lukku, amk leiddist þeim ekki. Í Varmahlíð hringdu hins vegar einhverjir hjálparsveita strákar í lögguna. Þegar löggan stoppaði þær voru þær nýkomnar í fötin aftur. Mér skildist það á henni að löggunni hefði í raun þótt það miður og hafi boðið þeim að fara aftur úr.
Hún sagði mér líka frá "allsberustu" helgi sem hún hefur lifað. Heil helgi þar sem hún hafi verið gjörsamlega nakin.
Þetta var mjög hress og skemmtileg stelpa. Hún er að vinna á bar og segist stundum alveg eiga erfitt með sig þegar hún er að afgreiða. Hún bara sleppir sér og fer að dansa bak við barinn.
Ef ég færi oft á barinn sem hún vinnur á, myndi ég alveg pottþétt alltaf versla hjá henni. Hún er hreinn unaður að horfa á og fylgjast með.
Ef ég væri strákur þá myndi ég sennilega óska þess að ég hefði verið einn af þessum fjóru heppnu sem fengu að kyssa hana í gærkvöldi.

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Söknuður 2

Ég hitti unga konu í gær. Hún var nýflutt úr sveitinni og býr nú á eyrinni með manni sínum og tveimur börnum. Þau eru bara búin að búa þarna í tæpan mánuð. Þau voru mjög ánægð í sveitinni. Hentaði þeim vel þar sem þau eru mikið hestafólk og hafa alltaf átt fullt af dýrum. Fólkið í sveitinni er líka yndislegt. Það var hins vegar röð atvika sem fékk þau til að flytja í bæinn.
Yngra barn þeirra var mjög veikt fystu árin sín, svo lentu þau hjónin í alvarlegum hestaslysum með stuttu milli bili.
Hún var með manni sínum þegar hann lenti í sínu slysi, yngra barn þeirra var með þeim líka. Hún þurfti að keyra hann á spítalann, hélt um púlsinn á honum á leiðinni og talaði við neyðarlínuna á meðan. Hann hætti að anda í nokkrar mínútur og hefði getað farið mjög illa. En hann er svo flottur, lætur ekkert stoppa sig og er kominn á sjóinn aftur.
Á nýja staðnum sínum er konan komin í nýja vinnu. Hún er eiginlega að byrja nýtt líf. Hún saknar auðvitað sveitarinnar og vina sinna í sveitinni en þau senda sms og hringjast á.
Ég hef alltaf sagt að ég ætlaði ekki að eiga mann sem væri sjómaður. Mér finnst hræðileg þessi tilhugsun um að maðurinn minn væri alltaf í burtu. Ég spurði hana hvort henni þætti ekki erfitt að hafa hann svona í burtu? "Ef þú hefðir spurt mig fyrir 6 árum síðan, hefði ég sagt að þetta væri hræðilegt" sagði hún. "En ég verð að virða það að þetta er vinnan hans, þarna líður honum vel. Svo er líka gott að sakna hans, það styrkir sambandið"

Ég er upp með mér að hafa fengið að kynnast þessari konu. Þessari konu sem er svo ánægð með lífið sitt. Hamingjusöm. Við fórum saman á ball. Hún hafði ekki farið á ball í fimm ár og ég ekki í fimm daga.