englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Vatn er til ýmissa hluta brúklegt.

"Ég fer og sæki tætarann"
"ó nei, hann er að fara að sækja tætarann"
Það var stríð í Vesturbænum í dag. Ekkert smá stríð. Það var vatnsstríð. Birgðarstöðin var heimili mitt og hafði ég það verðuga verkefni að fylla vopnin. Þau voru ekki af verri endanum: flöskur, dollur og leynivopnið ægilega "tætarinn"
Þegar hermennirnir voru búnir að skipta tvisvar sinnum um alklæðnað og bleyta allt sem hægt var að bleyta (líka það sem ekki mátti bleyta, eins og t.d. gólfin í íbúðinni minni) var stoppleikur. og þeir snéru sér að öðrum málum.

Sonur minn sagði mér að vinirnir væru alltaf að fara eitthvað sem hann gæti ekki komist. Litla móðurhjartað tók kipp og ég velti því fyrir mér hvort sonur minn væri skilinn útundan.
"Nú, hvert eru þeir að fara?"
"Þeir eru að fara yfir götur og svona. Ég hef samt farið með þeim þegar við vitum að það eru engir bílar" Mér leist ekki á blikuna og sagði að hann yrði ALLTAF að horfa til beggja hliða og hlusta, það væri ekki nóg að VITA að það væru engir bílar.
"Já, en mamma þeir eru svo sjaldgæfir í þessum götum!"
Ég gaf mig ekki og sagðist sjálf ALLTAF líta til beggja hliða og hlusta áður en ég færi yfir götu.
"Þú hefur örugglega ekki gert það þegar þú varst lítil"

Örugglega ekki.

Hvenær breytast hlutirnir hjá okkur? Af hverju erum við hætt að fara í vatnsslag? Hvenær fer það að skipta máli við hverja við leikum? Af hverju er ekki nóg að vita að sá sem er skemmtilegastur heitir Haukur? Af hverju þurfum við að vita hvað hann er gamall og í hvaða skóla hann er?

Ég man þegar ég var í umferðaskólanum (ok ég man það ekki persónulega, en það er búið að minna mig svo oft á það að mér finnst ég muna það) þá er löggan að predika yfir okkur um að við eigum alltaf að labba beint yfir götu, annars gætu bílarnir keyrt yfir okkur. Mér fannst þetta mikil speki en þurfti þó aðeins að leggja til málanna (gat nú verið) "Mamma mín labbar alltaf á ská yfir götu!"
Þetta ætlaði ég sjálf aldrei að gera en í dag skammar sonur minn mig fyrir nákvæmlega sama hlut og ég bar móður mína út fyrir um árið.

Af hverju tekst okkur ekki að halda í sakleysið okkar? Hverfur það með reynslunni? Þegar við brennum okkur á því að lífið er ekki eintómur vatns slagur og það gæti skipt máli í hvaða skóla Haukur er?