Árinni kennir illur ræðari
Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju mér haldist svona illa á peningum. Kemst alltaf að sömu niðurstöðu: mamma og pabbi kunna hvorugt með peninga að fara - þannig að það er nú ekki nema von að ég sé eins og ég er. Ég hef líka stundum notað eftirfarandi klisjur: ég ætla ekkert að verða ríkustu í kirkjugarðinum, njóta lífsins á meðan ég lifi o.s. frv.
Það hefur verið ósköp gott að geta losað sig svona undan ábyrgðinni, en síðustu misseri hef ég verið að skríða undan ofríki fjölskyldunnar og verða sjálfstæður einstaklingur.Það er samt alveg sama hvernig ég reyni ekkert gengur að spara peninga. Í byrjun ársins var ég þó alveg sannfærð um að nú væri þetta komið. Fór í bankann og sótti visakortið mitt. Fannst Halldóra þjónustufulltrúi vera hálf glötuð þegar hún sagði við mig: "komdu svo aftur með það þegar þú ert búin að kaupa skólabækurnar!"
"Hvað hélt hún eiginlega að hún væri???" (Ýtti þeirri staðreynd langt í burtu frá mér að ég hafði sjálf beðið hana nokkrum mánuðum áður að neita að láta mig fá kortið alveg sama hvað ég bæði hana um það).
Ég var svolítið eins og óvirkur alki sem er að byrja að drekka aftur (sumsé falla) Fyrst notaði ég það mjög lítið, bara til að kaupa mat og þessháttar. Næsta skref var að nota það bara ef ég var viss um að ég fengi nægan pening til að borga það næstu mánaðarmót en svo notaði ég það bara....
Ég elska 1. ágúst
Eftir að ég komst til vits og ára tók ég sérstöku ástfóstri við einn dag ársins, 1. ágúst. Þann dag greiðir skatturinn mér til baka það sem hann hefur í illsku sinni tekið af mér árinu áður. Eftir að ég keypti mér íbúðina mína fæ ég líka vaxtabætur. Ég hugsa um það allt árið hvað ég ætli nú að gera við peningana. Fara til útlanda, kaupa mér fullt af fötum, kaupa rúm handa Sverri, mála, Legoland, sjónvarp, video, tölva, eldhúsinnrétting og svo mætti lengi telja.
Hins vegar hefur peningurinn yfirleitt farið í eitthvað allt annað en græjur og utanlandsferðir. Hvert þeir hafa farið, get ég því miður ekki sagt frá..einfaldlega vegna þess að ég veit það ekki.
Ég hef verið að passa sjónvarpið hennar Dísu vinkonu síðastliðið ár. Hún skrapp til Spánar en er að koma heim í næstu viku. Ég hef aldrei áður verið með sjónvarp sem er með fjarstýringu og textavarpi og kann því orðið ágætlega og fór því í sjónvarpsleiðangur í dag. (það mætti kannski koma því að hér að þegar ég tók við sjónvarpinu hennar Dísu og skilaði mömmu 19 ára gömlu sjónvarpi, að ég hugsaði með mér að þegar hún kæmi til baka yrði ég orðin svo rík að ég væri nú ekki í vandræðum með að kaupa mér fínt og flott sjónvarp...yeah right!)
Þegar ég var komin inn í sjónvarpsbúðina mundi ég eftir því að mig vantaði græjur líka. Fljótlega fann ég rosafínt sjónvarp og líka græjur. Þetta var alls ekki svo dýrt, bara nokkrir tugir þúsunda. Nær 50 þúsundum frekar en 100. Sama og gefið.
Þegar ég er að tala við kaupmanninn mundi ég eftir því að ég átti ekki heldur video. Segi við hann: "fæ ég ekki góðan afslátt ef ég kaupi allt þetta hjá þér?" Þrátt fyrir að hann lofaði mér 5% afslætti þá var ég nú samt farin að nálgast 100 þúsundin óðfluga.
Ég brosti til hans og sagði: "flott, kem á eftir og geng frá þessu"
Þegar "á eftir" var komið og ég búin að leggja bílnum fyrir framan sjónvarpsbúðina annað skiptið þann daginn, andaði ég rólega. Hugsaði með mér að ég væri líklegast að missa vitið.Hvað er að 19 ára gömlu sjónvarpi? Ef það virkar? Af hverju get ég ekki lengur notað gömlu fermingargræjurnar? Og VIDEO??? Til hvers í ósköpunum?
Nei nú er nóg komið. Á morgun ætla ég að fara til Halldóru og láta hana fá visakortið mitt og hringja í mömmu og ath hvort hún geti sent gamla sjónvarpið suður.
<< Home