englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Aktu á löglegum hraða og horfðu í kringum þig

Þögn er ekki það sama og samþykki! Ekur þú eftir einn? En tvo? En þrjá? Hvað kallast það þegar maður drepur mann af því að maður var að flýta sér?

það er greinilega að koma verslunarmannahelgi. Mér hefur alltaf fundist þessi helgi vera hálfgert vesen. Ekki leiðinleg eða neitt svoleiðis. Ég er bara svo baldin að mér leiðist svona skyldu-ferðalög. Finnst miklu skemmtilegra að vera heima og hitta hina sem ekki nenna að fara á þjóðhátíð, í Eldborg eða út í Viðey.

Auglýsingarnar fara þó ekki framhjá mér. Heitustu böndin á þjóðhátíð og barnaböndin í Galtalæk. Ego vs Írafár. Reyndar er Írafár líka á Sauðárkróki um helgina. Veit ekki alveg hvernig maður flokkar böndin sem spila þar.

Mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega skemmtilegt að keyra bíl. Það klæðir mig miklu betur að sitja í faraþegasætinu og horfa út um gluggann. Þá get ég fylgst með fólkinu, gluggatjöldunum, blómunum og sjónum. Reyndar hefur mér fundist svolítið gaman að keyra í sumar. Ég er nefninlega á vinnubíl sem kemst upp Ártúnsbrekkuna á 90 (minn kemst næstum því á 90 niður Ártúnsbrekkuna).  Vinnubíllinn er nettur og get ég því lagt honum næstum því hvar sem er og svo eru græjurnar í honum miklu betri en stofugræjurnar mínar - sem segir reyndar lítið um gæði þeirra.
Gatnaframkvæmdir sumarsins taka þó örlítið kúlið úr rúntinum mínum. Það er ekkert svakalega töff að rúnta um með skvísusólgleraugu á 30 km hraða. Eða hvað?
Hraðakstursáróðurinn er að skila sér inn í sálartetrið mitt. Þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag ákvað ég að keyra á sérlega löglegum hraða. Dúllaði ég mér á 30 um götur bæjarins (með skvísusólgleraugun) og viti menn, það rann upp fyrir mér ljós og augu mín opnuðust. Ég sá ekki bara skóna sem stelpan með barnavagninn var í, heldur sá ég líka aftan á hælana. Ég náði að skoða fólkið í strætóskýlinu nokkuð gaumgæfilega (maðurinn hefði nú alveg mátt renna straujárni yfir mestu krumpurnar á buxunum sínum). Ég sá fallega gamla konu. Sjórinn var grænn grænn grænn og regnboginn heill. Nýjar gardýnur á Hofsvallagötunni og ég veit ekki hvað og hvað.
Þarna var þá kannski svarið við mínum vandamálum komið?
Keyra um á 30 og fylgjast með í leiðinni. Eftir því sem ég hugsaði þetta betur fóru að renna á mig tvær grímur. Hvað tek ég til bragðs þegar fer að hausta og hámarkshraðinn eykst aftur? Sjálf hef ég takmarkaða þolinmæði fyrir gömlum körlum með hatta sem keyra um á 35 km hraða, af því að það var hámarkshraðinn þegar þeir fengu bílpróf.
Ætli sé ekki betra að fá sér bara göngutúr eða plata einhvern í bíltúr?

Verslunarmannahelgin..
Vegna þess hvað ég er opin og sveigjanleg ætla ég ekki að vera heima þessa helgi heldur fara norður á Akureyri. Ekki á Halló Akureyri heldur á eina með öllu. Sem er víst vísun í eina útihátíð með öllu - fyrir alla en ekki pylsur, eins og ég hef haldið í öll þessi ár. Það á örugglega eftir að vera mjög áhugavert.