englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, júlí 28, 2004

stressaðra kynið

Morgnarnir hjá okkur mæðginunum eru yfirleitt nokkuð átakalausir, enda er sonur minn búinn að læra að á morgnanna drekkur maður kaffið sitt og les blöðin og talar ekki. Nei nú lýg ég. Hann er aaaalveg að fara að læra það. Ég lærði það fljótlega að til að fá rólega morgunstund, þarf ég að vakna aðeins fyrr en lífsnauðsyn telst. Þrátt fyrir það er alltaf ægilegt kapphlaup við klukkuna svona á síðustu metrunum.
Morguninn í morgun leit út fyrir að verða undantekning en var það auðvitað ekki, þegar upp var staðið og út komið.
Við vorum að fara út og hafði ég góðar 10 mínútur til að koma mér niður á Sundahöfn, þá kom í ljós að úlpan hans Sverris var ekki þar sem hún átti að vera.  "Hvar er úlpan þín?" "Ég veit það ekki" Hvar fórstu úr henni?" "það man ég ekki" "Varstu í henni í gærkvöldi, þegar þú varst að leika við strákanna?" "Ég man það ekki...ég heeeeld það"
Eftir mikla leit innan dyra sendi ég hann út í garð til að leita, með það að veganesti að flýta sér því við værum að verða of sein (en ekki hvað?). Þegar mig var farið að lengja eftir honum fór ég á eftir honum (til að reka á eftir honum), var hann ekki í garðinum.  Á meðan ég svipaðist um eftir úlpunni, leitaði ég að honum líka. Fann hann svo fyrir rest nokkrum görðum í burtu - AÐ BORÐA RIFSBER!!!
Hafði bara ekki fundið úlpuna.
Ég sagði honum að við þyrftum að taka pening úr bauknum hans til að kaupa nýja úlpu en hann hafði aldrei heyrt aðra eins fásinnu. Hann ætlaði sko ekki að fara að spreða peningunum sínum í þannig vitleysu.
Auðvitað búin að glata þessu forskoti sem ég hafði á tímann setti ég hann í peysu og sagði að þetta væri nýja úlpan hans, held að honum hafi verið nokkuð sama.
Svo þegar við hittumst  aftur að vinnudegi loknum, var hann peysulaus. Og enn byrja ég: "Hvar er peysan þín?" "ahhh..gleymdi henni hjá Kristjáni" "Úlpan þín í gær og peysan í dag!!!" Ég alveg að komast upp á Háa C-ið, þegar Venni pabbi hans Kristjáns segir: "úlpan er hjá okkur, varstu ekki búin að fatta það?" Og "sverrir, náðu í peysuna þína í bílinn"

Á morgun ætla ég að anda áður en ég andast.