englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, júlí 24, 2004

Eins og lélegt strákaband

Fyrir nokkrum helgum síðan var ég að ganga heim til mín eftir dansæfingu. Fyrir framan mig gengu hlið við hlið 4 strákar. Þeir voru eitthvað voðalega sætir eða kannski frekar krúttaralegir og gat ég ekki fyrir mitt litla líf tekið fram úr þeim án þess að segja neitt við þá. Þannig að þegar ég arka fram hjá þeim segi ég við þá: "þið eruð eins og lélegt strákaband svona aftan frá séð" Eins og gefur að skilja voru þeir ekkert svakalega hrifnir af þessu kommenti mínu en það var alls ekki illa meint.
Nema hvað svo í gær var ég enn og aftur að koma af dansæfingu. Þetta var löng og ströng æfing og ég var orðin óskaplega svöng. Til að geta lagt í Túngötuna skrapp ég inn á pizza e-ð á ingólfstorginu og pantaði mér rosalega girnilega margaritu sneið. Inni á staðnum var mikið stuð, enda voða sæt stelpa að vinna þar og viðskiptavinirnir voru allir strákar á hennar aldri. Ég er að fara að borga pizzuna mína og þá heyri ég sagt við hliðina á mér: "hey, það varst þú sem sagðir að við værum eins og lélegt strákaband!!!"
Ég varð hrædd í eitt augnablik, alveg þangað til að ég horfði í glettin, blá augu. Við hlógum að þessu saman og hinir vinirnir sem urðu fyrir þessu "aðkasti" frá mér komu og skoðuðu mig. Það kom svo í ljós að þeir voru eftir allt saman í hljómsveit og núna kalla þeir hana "lélega strákabandið"
Segja svo að maður hafi ekki áhrif...