englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, júlí 23, 2004

þegar rignir verður sumt blautt annað ekki

Fór í Kolaportið um daginn. Þetta er merkilegt fyrirbæri, þ.e. kolaportið. Allir verða alltaf að vera að kaupa eitthvað, sumir kaupa nýtt dót og henda því gamla - í Kolaportið. Svo fara hinir og kaupa gamla dótið þeirra - í kolaportinu.
Ég fór að skoða bækur. Mér finnst óskaplega gaman að skoða og kaupa bækur. Sumar les ég svo þegar ég kem heim, aðrar fara beint upp í hillu - og svo þegar fram líða stundir, fara þær í kolaportið.
Ég skoðaði fallega ástarljóðabók. Það var búið að skrifa inn í hana með fallegu bleiku letri: Til þín frá mér. Mikil er ástin sem endar svo bara í Kolaportinu. Svolítið trist finnst mér. Ég skoðaði líka afmælisdagabók. Inni í henni fann ég litla úrklippu úr dagblaði sem á stóð: sumarbústaður til sölu. Ætli hún hafi látið verða af því að kaupa hann, eða ætli það hafi verið draumur sem aldrei rættist?
Hugsaði um þetta í smá stund og ákvað svo að best væri að ég færi heim og tæki bók úr hillunni minni, sem ég hefði aldrei lesið.