englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Slúður

Ég er forvitin að upplagi. Hef átt frekar erfitt með að skilja hvernig fólk getur ekki spurt að hinu og þessu, bara af því að "gerir ekki svoleiðis" eða eitthvað annað álíka gáfulegt. Ég er stöðugt að skoða, spyrja, fylgjast með og safna.  Sumu raða ég svo saman og geymi inní mér, öðru deili ég með fleirum. Slúðra - gæti einhver hugsað. Kannski - kannski ekki. Ég nefninlega veit það ekki.
Það er í þessu eins og öllu: hvítt, svart og grátt svæði.
Hvenær hættir maður að vera forvitinn eða umhugað um náungann og fer að verða hnýsinn?
Hvenær hættir maður að "spyrja fólk að hinu og þessu" og fer að standa á sama um það?
Hvað eru almennar umræður um daglegt líf og fólk sem í því býr og hvað er slúður?
Það væri hægt að halda því fram að slúður væri á neikvæðu nótunum. Neikvæðar umræður um náungann. Kannski.
Er þá í lagi að tala um fólk svo lengi sem það er á jákvæðu nótunum? "Gvuuð hvað hún Sigga er alltaf smart" - er í lagi, en "Hallóóó fatastíll Gunnu er þvílíkt umhverfisslys að annað eins hefur ekki sést í aldir alda" er það ekki?

"Stelpan sem situr við hliðina á mér í skólanum, er alveg rosalega dugleg. Henni gengur vel í skólanum og allt virðist leika í höndum hennar. Hún er greinilega á réttri hillu í lífinu. Hún er svo heppin að eiga góða að, kærastinn hennar er frábær og börnin þeirra alveg stórkostlega skemmtileg" - Er í lagi

"Stelpan sem situr við hliðina á mér í skólanum, er ekkert smá löt. Henni gengur hryllilega í skólanum, það er eins og hún geti ekki gert neitt rétt. Hún ætti greinilega að vera að fást við eitthvað annað. Svo er kærastinn hennar alveg ömurlegur og ekki eru börnin skárri" - Er ekki í lagi

Er gott að spyrja ekki?
Ef maður spyr ekki, er maður þá ekki að gefa það til kynna að maður hafi ekki áhuga?
Ég held það.