englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Af hverju eru þeir fljótari en þær?

Ég á það til að fara út að skokka. Var eitthvað að vandræðast með það í byrjun sumars hvort ég ætti að gera þetta af einhverri alvöru, hætta þessu gutli og fara alla leið með þetta. Til að það yrði að veruleika þyrfti ég líklegast að sleppa mínum mikilvægu dansæfingum og öllu því sem fylgir þessháttar ástundun. Þegar ég var að vega og meta hvort það væri nú ekki þess virði, þá heyrði ég hvíslað í eyrað mitt að allir öfgar væru vondir. Þannig að ég tók ákvörðun um að dansa um helgar og hlaupa á virkum dögum (þegar ég væri búin að jafna mig eftir dansæfingarnar).

Engin mót og engar keppnir hef ég sótt í sumar en skoða þó stundum úrslit og svona. Ekki ósvipað og fótboltastrákar sem spila einu sinni í viku með félögunum en fylgjast þeim mun betur með öllum leikjum sem hægt er - í sófanum heima.

Ein af lífsins staðreyndum er að þvælast fyrir mér: strákar hlaupa hraðar en stelpur. Ef við tökum t.d. Reykjavíkur Maraþonið í fyrra sem dæmi. Það munar 24 mín. á fyrsta karli og fyrstu konu í maraþoninu. Þegar fyrsta konan kemur í mark eru samt 12 karlmenn komnir í höfn. Ekki bólar á annarri konu fyrr en í 44. sæti.  og svo ekki aftur fyrr en í 61. sæti.

Ég skil ekki hvað veldur þessu.

Ég fer venjulega ein út að hlaupa. Ekki það að mér leiðist að vera í félagsskap annarra, heldur meira af því að enginn nennir með mér. Í dag tókst mér að narra vin minn með mér. Hann krossaði sig í bak og fyrir og ég veit ekki hvort hann hefur talið mig geðveikari (fyrir það að láta sér detta annað eins í hug að draga hann út í þetta) eða sig sjálfan (fyrir að láta hafa sig út í vitleysuna). Hann sló alla varnagla sem hægt var að slá og ég lofaði að fara mjög rólega, spæna ekki í burtu og vera almennt til friðs.
Nema hvað...
Hans ofurrólegi hraði var alls ekki ósvipaður mínum venjulega hraða. Þetta hentaði mér ágætlega alveg þangað til að hann fór að verða þreyttur - ÞÁ FÓR HANN AÐ GEFA Í!
Þegar við nálguðumst endastöðina hans (þá átti ég eftir að koma mér að minni endastöð) var hann farinn að spæna upp malbikið og ég skildi ekki neitt í neinu.
Þegar leiðir skildu var hann farinn að líkjast súperman á góðum degi en ég gat þá loks farið aftur í minn fallega kvenlega hraða.
Sjálf kom ég í mark á tíma sem hefur líklegast dugað mér í 66. sæti í blönduðum flokki, en þar sem ég var ein á ferð var ég fyrst allra - kvenna og karla.