englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Söknuður 2

Ég hitti unga konu í gær. Hún var nýflutt úr sveitinni og býr nú á eyrinni með manni sínum og tveimur börnum. Þau eru bara búin að búa þarna í tæpan mánuð. Þau voru mjög ánægð í sveitinni. Hentaði þeim vel þar sem þau eru mikið hestafólk og hafa alltaf átt fullt af dýrum. Fólkið í sveitinni er líka yndislegt. Það var hins vegar röð atvika sem fékk þau til að flytja í bæinn.
Yngra barn þeirra var mjög veikt fystu árin sín, svo lentu þau hjónin í alvarlegum hestaslysum með stuttu milli bili.
Hún var með manni sínum þegar hann lenti í sínu slysi, yngra barn þeirra var með þeim líka. Hún þurfti að keyra hann á spítalann, hélt um púlsinn á honum á leiðinni og talaði við neyðarlínuna á meðan. Hann hætti að anda í nokkrar mínútur og hefði getað farið mjög illa. En hann er svo flottur, lætur ekkert stoppa sig og er kominn á sjóinn aftur.
Á nýja staðnum sínum er konan komin í nýja vinnu. Hún er eiginlega að byrja nýtt líf. Hún saknar auðvitað sveitarinnar og vina sinna í sveitinni en þau senda sms og hringjast á.
Ég hef alltaf sagt að ég ætlaði ekki að eiga mann sem væri sjómaður. Mér finnst hræðileg þessi tilhugsun um að maðurinn minn væri alltaf í burtu. Ég spurði hana hvort henni þætti ekki erfitt að hafa hann svona í burtu? "Ef þú hefðir spurt mig fyrir 6 árum síðan, hefði ég sagt að þetta væri hræðilegt" sagði hún. "En ég verð að virða það að þetta er vinnan hans, þarna líður honum vel. Svo er líka gott að sakna hans, það styrkir sambandið"

Ég er upp með mér að hafa fengið að kynnast þessari konu. Þessari konu sem er svo ánægð með lífið sitt. Hamingjusöm. Við fórum saman á ball. Hún hafði ekki farið á ball í fimm ár og ég ekki í fimm daga.