englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Óður til hins fullkomna - texta

Ég elska að finna hvernig þú verður þegar ég gæli við þig með augunum. Þú öðlast nýtt líf þegar ég afhjúpa þig eins og ég opna banana. Fletti frá þér öllum hindrunum sem standa í vegi fyrir því að við getum runnið saman, orðið eitt.
Að lokum stendur þú frammi fyrir mér nakinn. Vel skapaður, einfaldur og fallegur.
Mig langar til að drekkja mér í þér. Drekka þig í mig.
Eftir að ég hef notið þín ertu enn hjá mér. Þú ert orðinn partur af mér. Ég sé þig í öllu. Í trjánum, vindinum, skýjunum, hljóðunum, fólkinu –

Allt sem þú hefur að segja ætlar þú mér einni – rétt á meðan. Það er enginn nema ég og þú. Ég veit að þegar þú ert ekki hjá mér gælir þú við önnur hjörtu, leyfir öðrum augum að afhjúpa þig. Vitneskjan um að margir fái að njóta þín fyllir mig auðmýkt og þakklæti yfir að ég sé ein af þeim.

Ég elska - þig og allt sem þú hefur að segja mér