englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Stoltur eigandi United UTV4028

Eftir mikla umhugsun og umræður við vini og vandamenn ákvað ég að gamla sjónvarpið hennar mömmu frá fyrra hjónabandi, væri jafn úrelt og það hjónaband, og skellti mér á nýtt tæki. Nú trónir það tæki á besta stað í stofunni, rétt eins og aðrir gullkálfar á öðrum heimilum.
Strákurinn sem seldi mér græjuna var ekki alveg viss úr hvaða ljóskerfi ég kæmi, þegar ég sagði honum að ég hefði aldrei keypt mér sjónvarp áður. Og ekki skánaði það þegar ég dró hann með mér um búðina til að skoða video-tæki, sem ég hafði aldrei átt. Var að hugsa um að segja honum að ég væri venjulega kölluð Jóda, þannig að hann gæti tengt mig við aðra vídd en okkar, en ákvað að sleppa því.

Ég er ekki búin að setja græjuna í samband og veit ekki alveg hvort ég geri það strax. Fór frekar út í kvöld og ræktaði garðinn minn. (Fyrir þau ykkar sem ekki hafið þökulagt áður, þá er það mjög langt frá því að vera "hin besta skemmtun")
Af því að maður er svo háður ytra umhverfi hafði ég símann minn hjá mér í garðinum. En þar sem ég er djúpt sokkin í pælingar um það hvernig þökurnar ættu að liggja, heyri ég hringingu úr íbúðinni minni. "Ohh, heimasíminn, ætli ég nái honum?" Ég hleyp af stað og loksins þegar ég finn símann (því auðvitað er ég með þráðlausan síma) þá hættir hann að hringja. Samkvæmt símnúmerabirti (sem ég að sjálfsögðu er með) er þetta leyninúmer.
"Sölumenn!!!" Hvað er maður að gera með heimasíma? Það eru allir hættir að hringja í hann. Eina fólkið sem hringir í mig í heimasímann er mamma og sölumenn. Mamma hringir alltaf aftur og sölumennirnir því miður líka.

Við leikum okkur með tæknina - tæknin leikur sér að okkur
Ég man þegar ég lét undan og fékk mér minn fyrsta gsm síma. Ég slökkti á honum þegar ég kom heim og hafði að sjálfsögðu slökkt á honum á nóttinni. Í dag er ég steinhætt að gefa upp heimanúmerið mitt og sef næstum því með gsm símann í fanginu.
Ég ætlaði aldrei að læra á tölvu. Ritvélar dugðu mér mjög vel og svo elska ég bókasöfn. Í dag myndi ég frekar missa af Nágrönnum en missa tölvuna mína. Bókasöfnin eru mér enn hugleikin, enda yfirleitt fínar tölvur þar.

Tæknin er frábær. En ég geri hlutina á mínum hraða og næ því ekki alltaf að fylgja henni. Einu sinni fylgdist systir mín með því þegar ég var að skrifa sms. "Af hverju notar þú ekki báðar hendur þegar þú skrifar???"
Ég á forláta matvinnsluvél, sem getur gert allt - nema kannski skreytt jólatréð. Ég er nýbúin að fatta að ég get rifið ost í vélinni í stað þess að nota gamla rifjárnið.
Ég var búin að vera með sjónvarpið hennar Dísu í pössun í 3 mánuði þegar ég fattaði að það væri textavarp á því.

Vinkona mín er með kenningu. Kenningin hljómar eitthvað á þessa leið: Japanir eru að vinna í því að ná yfirráðum í heiminum. Aðferð þeirra byggist á því að selja okkur rafmagnsgræjur á góðum kjörum. Þessar græjur senda frá sér bylgjur sem "afstilla" okkur og svo þegar við erum búin að kaupa nóg af græjum og erum orðin nógu "afstillt" þá trítla þeir yfir og taka völdin.
Þessi kenning er ekkert alvitlaus. Við erum orðin svo háð tækninni að við getum ekki farið á milli staða, ekki eldað mat, ekki notið góðrar kvöldstundar, ekki stofnað til kynna við hitt kynið, ekki menntað okkur, ekki skoðað heiminn..nema með aðstoð hátækninnar.

Sem betur fer eru þó enn nokkrir furðufuglar sem þrjóskast við. Glósa ekki á fartölvuna sína í skólanum. Daðra augliti til auglitis. Muna ekki númerið hjá Dominos. Eiga ekki allar nýjustu græjurnar eins og t.d. video.
Held reyndar að ég fari bráðum að eignast svoleiðis dót, en ekki fyrr en ég er búin að koma digital myndavélinni minni í gagnið (sem ég fékk fyrir tveimur árum) og mp3 spilaranum sem ég fékk í vor...

Þá fyrst eiga japanir einhvern séns í mig!