englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Þungun

Ég var í afmæli í dag og þar voru tvær gullfallegar óléttar konur. Góðar vinkonur, komnar jafn langt á leið. Afmælið var frábært í alla staði, börn og fullorðnir ánægðir. Ég horfði á þessar fallegu konur og hugurinn reikaði til baka.
Þegar ég var ófrísk borðaði ég ís á hverjum degi. Eini ísinn sem ég gat hugsað mér var Álfheima-ís og skipti ekki máli hvað ég (eða barnsfaðir minn) þurfti að standa lengi í biðröð. Í mínum huga var ekki til önnur ísbúð.
Ég komst að því að ein vinkona mín væri ólétt, vegna þess að hún át appelsínur út í eitt. Maðurinn hennar reyndi að banna henni að borða appelsínur á almannafæri, svona rétt á meðan þungunin var enn leyndarmál. Hún gat bara ekki hætt.
Einu sinni kom önnur ólétt vinkona mín í heimsókn. Við sitjum í eldhúsinu og erum að fá okkur kaffi og brauð. Ég spyr hana hvort hún sé ekki "sjúk" í eitthvað. "Nei, ekki neitt" segir hún og dregur á sama tíma upp úr töskunni sinni hvítlaukssalt. Ég leit til hennar glottandi. Úskýring hennar á ferðalaginu með saltið var einföld: það var alls ekki öruggt að það væri til hvítlaukssalt á öllum heimilum!
Önnur kona sem ég þekki gat ekki séð manninn sinn í friði. Kynhvöt hennar var í svakalegu hámarki. Hún stökk á hann þegar hann kom heim úr vinnunni (enn í forstofunni) og svalaði þörfum sínum (og vonandi hans)
Ein önnur kona sagði við mig þegar hún var ólétt að hún notaði tækifærið og segði allt sem hana langaði til að segja, alveg sama hvað það væri tíkarlegt. Því hún gæti alltaf falið sig á bak við það að hún væri á hormónatryppi vegna þungunar.

Það er svo gott að vera óléttur. Þá má maður allt. Borða eins mikinn ís og mann lystir, stunda eins mikið kynlíf og maður vill - eða sleppa því alveg. Vera eins leiðinlegur og maður í rauninni er. Allt í skjóli ófædds einstaklings.

Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að ég væri ólétt núna. Vantar meiri ís, er mjög undarleg í skapinu og langar endalaust mikið til að stunda kynlíf í forstofunni.