englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, ágúst 07, 2004

Kærleikur

Hvað er æðsta form kærleikans? Var að hugsa um þetta í dag. Hvenær elskar maður mest? Margir telja skilyrðislausa ást vera hreinasta og besta. Að elska einhvern með kostum sínum og göllum. Sama hvað viðkomandi gerir, segir, er..skiptir ekki máli ástin er söm við sig.
Engar kröfur. Engar kvaðir.

Er þetta svona einfalt?

Hvað með fólk sem er í ofbeldisfullum hjónaböndum? Börn sem eru misnotuð af foreldrum sínum? "Vinir" sem gera illt á hlut "vina" sinna?
Persónulega hef ég aldrei skilið af hverju fólk er í samböndum sem veitir þeim ekkert nema óhamingju. Ég spurði einu sinnu konu, sem var gift manni sem barði hana eins og harðfisk, af hverju hún hafi látið það yfir sig ganga í mörg mörg ár. Svar hennar var mjög einfalt, en afar sorglegt: "af því að ég elskaði hann og trúði honum í hvert skipti sem hann sagði að þetta væri í síðasta skipti sem hann legði á hana hendur. Nú væri hann nýr og betri maður"

Hvernig geta börn sem hafa verið misnotuð af foreldri sínu haldið áfram að umgangast þau. Haldið upp á jólin, páskana, afmæli o.s.frv. Kysst og jafnvel knúsað, þrátt fyrir að viðkomandi hafi eyðilagt líf þeirra. Sá einstaklingur sem hefur það hlutverk að vera stoð og stytta í lífsbaráttunni, reynist vera sá sem gerir baráttuna að töpuðum leik?

Er það kannski undanlátssemi að elska án skilyrða?

Get ég elskað án skilyrða? Ég er ófullkomin. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér. Sett mig í líklegustu og ólíklegustu aðstæður með vinum og vandamönnum, komst ég að því að ég elska ekki án skilyrða. Vissulega má mikið á ganga hjá mínum nánustu til þess að ég hætti að elska þá. En við þessar "ólíklegu" aðstæður finnst mér líklegt að ég myndi hætta að elska.
Ég er þó ekki alófullkomin. Það er ein manneskja sem ég elska skilyrðislaust. Út fyrir endamörk alheimsins. Sama hvað gengi á, við líklegustu og ólíklegustu aðstæður, elska ég alltaf son minn.
Hann er sú manneskja sem gerir líf mitt þess virði að lifa því. Sama hvað gengur á.