englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Tíminn

Ég sá fyrstu haustlaufin í morgun. Úff...þá er ballið byrjað. Hugsaði um þessi lauf í allan dag. Þegar ég fór út að hlaupa var ég sannfærð um að peysan sem ég fór í væri alls ekki nógu þykk og helst væri þörf á hönskum.
Ég var varla komin niður Hringbrautina þegar ég var komin úr peysunni og þakkaði mínu sæla fyrir að þurfa ekki að dröslast með hanskana.

Það er eins og maður sé alltaf að flýta sér. Drífa sig e-ð annað, í e-ð annað rými, annan tíma.
Í kringum 20. júlí erum við farin að tala um að sumarið sé að verða búið. Í dag, 5. ágúst, var ég að velta jólagjafainnkaupum fyrir mér. Þegar jólin loksins koma, bíðum við eftir vorinu. O.s. frv.

Þetta með haustlaufin er þó alveg eðlilegt. Sumarstarfinu fer senn að ljúka. Sumarpróf handan við hornið. Skólinn að byrja.
Af hverju sumarpróf heita nú sumarpróf en ekki haustpróf eins og fyrir stuttu síðan, er pæling sem hægt er að skrifa heila bók um, og verður ekki gerð skil að svo stöddu.

Talandi um sumarstarf og að reyna að átta sig á tímanum. Ég var með sérlegan aðstoðaryfirleiðbeinenda í tvo tíma í dag. Sverrir var svo ótrúlega heppinn að fá að hanga í bílnum með mömmu sinni part úr degi. Við erum eitthvað búin að keyra um og þá spyr hann upp úr þurru: "mamma, er liðin klukkustund?"
"Síðan hvenær?" spyr ég á móti.
"Bara síðan einhverntímann"
"þú verður að tilgreina síðan hvenær, svo ég geti svarað spurningunni þinni" segir mamman
"Bara síðan klukkan 11"
"Já, það er liðinn klukkutími síðan klukkan var 11" segi ég, (þar sem klukkan var rúmlega 2)
"OK" segir hann, voða sáttur við sitt.
Og málið var dautt.

Við komum við á Laugardalsvellinum. Þrátt fyrir að Sverrir væri alveg sannfærður um að þar væru bara leiðinlegir hópar að vinna (skil nú ekki hvaðan hann hefur þessa jákvæðni) tók hann gleði sína á ný þegar við gengum inn á völlinn.
Honum finnst ekkert leiðinlegt að hlaupa og þarna er frábær hlaupabraut. Þar sem hún lá þarna ein og yfirgefin, var ekki annað hægt en að nota hana. Hún hreinlega bað um það...eða það fannst Sverri. Ég viðurkenni það alveg að mig hefur oft dauðlangað til að hlaupa á henni, en aldrei lagt í það. Eitthvað feimin við það.
Nema hvað...
Hann biður mig um að telja hvað hann er lengi að hlaupa hringinn. Ég jánka því en hugsa um leið hvaða hvatningu ég geti notað, þegar hann hættir að hlaupa og snýr við. Hann leggur af stað og ég byrja að telja. Hann þýtur áfram, svo hratt að ég heyri grasið taka andköf (ok, nú er mamman aðeins að missa sig) ...andköf eða ekki andköf, hann hljóp. Þegar hann var hálfnaður leit hann til mín og vinkaði..
Drengurinn hljóp allan hringinn. Ég löngu hætt að telja og reyndar anda líka en var þess í stað á fullu að reyna að muna símanúmerið í Vesturbæjarskóla. Verð að hringja í skólann á morgun og segja að hann komi ekki í haust, hann sé að fara í þjálfunarbúðir í Kína.