englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Innsýn inn í huga engils...

Þó ég sé engill er ekki þar með sagt að ég sé dáin. Þvert á móti er ég sprelllifandi. Þó svo að ég sé engill er ekki þar með sagt að ég sé bara góð og alltaf glöð. Þvert á móti er ég stundum vond og á það til að fara í ótrúlega fýlu. Ég er ekki alveg viss afhverju ég er svona, kannski það sé til að fólk taki frekar mark á mér? Svo ég geti sinnt starfi mínu? Veit það ekki almennilega, en svona er þetta í það minnsta.
Hvað er það svo sem ég geri? Jú, einmitt það sem englar gera. Ég á að láta fólki líða vel. Ég á að hjálpa öðrum. Við, englarnir, sinnum misstórum hópum og höfum misjöfn verkefni. Sumir passa upp á matseldina hjá fólki, sumir eru á sjúkrahúsum og aðrir sjá jafnvel um heilu þjóðirnar.
Margir halda að mitt starf sé auðvelt.
Ég hef það verkefni að svífa um og strá kærleiksdufti yfir fólk. Það er mjög skiljanlegt að fólk haldi að þetta sé auðvelt starf. Það er svo gefandi og þakklátt að láta öðrum líða vel. Hver vill ekki elska og vera elskaður? Þetta er svosem nógu gaman. Að sjá hvernig kærleikurinn lætur fólk haga sér. Fólk verður bjánalegt og segir skrýtna hluti og þegir um þá gáfulegu. Það getur verið alveg drepfyndið að fylgjast með því.
Starf mitt er hins vegar mjög ábyrgðarmikið. Ég á að finna út hvaða fólk passar saman og hvaða fólk passar ekki saman. Þar stend ég mig ekki alveg nógu vel. Ég læt fólk verða skotið í hvort öðru, sem hefur bara alls ekkert með það að gera. Svo hefur það komið fyrir að ég strái kærleiksdufti yfir annan aðilann, en gleymi hinum. Það getur verið mjög sárt að fylgjast með því. Ég ræð bara ekkert við þetta, ég hugsa að ég sé búin að vera of lengi í þessu starfi. Þetta gekk miklu betur hjá mér áður fyrr. Ætli ég sé ekki orðin of mannleg til að standa í þessu.
Það er þó eitt sem ég hef ennþá. Ég get enn flogið á vængjunum mínum.
Stundum þegar ég verð döpur, þá svíf ég um og flögra um á milli stjarnanna. Það verður allt svo fallegt í fjarlægðinni að ég gleymi alveg að vera einmanna. Já, ég verð nefninlega stundum einmanna. Því þó ég strái kærleiksdufti á aðra, get ég alls ekki stráð dufti á sjálfa mig.
Það er þó von sem bærist í brjósti mér. Það er til einn strákur, sem ekkert kærleiksduft virkar á. Hann var sendur til jarðarinnar til að fullkomna mig. Hann er svona eins og ég, smá engill og smá maður. Ég veit ekki hvernig hann lítur út og ég veit ekki hvar hann er. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að finna hann. Það eina sem ég get gert er að fljúga upp í himininn, opna hjartað mitt og beina því sem streymir þar út í átt til tuglsins og vona að endurskin þess varpi ást minni til stráksins ófundna. Því sama hver hann er og sama hvar hann er, þá er bara eitt tungl sem hann getur horft á...