englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, ágúst 09, 2004

Dagurinn sem sakleysið glataðist

Það þarf ekki að hafa neitt sérstaklega mörg orð um veðrið í dag. Þau sem gátu - nutu þess. Þau sem gátu ekki notið eru ekkert betur sett að lesa um hvað var bilaðslega gott veður!

Einu sinni fyrir nokkrum árum var líka gott veður. Ekki eins gott veður og var í dag (enda held ég að ég hafi aldrei upplifað svona veður eins og í dag nema þá kannski í suður Evrópu) en það var samt fínt veður. Ég bjó þá á Frakkastíg og var á leiðinni niður í bæ. Það er voðalega gaman að kæða sig upp á svona dögum og það gerði ég líka. Ég fór í rósóttan kjól, setti á mig hatt og fína nýja rúskinnsbakpokann minn.

Það er merkilegt hvernig áhrif sólardagar hafa á fólk. Ég var svo kát og ljómandi hamingjusöm. Allir aðrir í kringum mig virtust vera sama sinnis. Þar sem ég geng niður Laugarveginn, í átt til miðbæjarins, brosa gjörsamlega allir. Það sem meira var að allir virtust vera brosa til mín.
Ég vissi ekki hvort það var fallegi rósótti kjóllinn minn, flotti hatturinn eða bara sæta stelpan í þessu átfitti.

Ástæðan fyrir þessari athygli var í raun auka atriði í mínum huga. Mér fannst þetta ósköp ljúft og vonaði bara áhorfendur nytu líka.
Ég var búin að ganga niður Laugarveginn og var að komast í Bankastrætið þegar ég tek eftir eldri konu sem gengur á móti mér. Hún horfir voðalega stíft á mig og ég brosi til hennar. Hún verður eitthvað voðalega ömmuleg og það eina sem mér dettur í hug er hvort hún sjái ekki horfna æsku sína í stúlkunni í rósótta kjólnum.
Ég geri mig líklega til að ganga framhjá henni, enn brosandi, en hún virðist eiga eitthvað vantalað við mig.
Hún kemur alveg að mér, tekur laust í handlegginn á mér og segir:
"Heyrðu vina mín. Kjóllinn þinn er allur upp að aftan!!!"

Ég var semsagt búin að ganga niður allan Laugarveginn með kjólinn uppá bak og fólkið var ekki að brosa til mín, heldur að mér.
Og ég sem hélt að ég hefði verið svo sæt!