Spurningar um raunveruleikann
Ég fór í bíó á sunnudaginn. Það er góð tilbreyting að fara á myndir sem ég vel að eigin frumkvæði. Þótt ótrúlegt megi virðast þá var Spiderman 2 ekki efst á bíó óskalistanum. i robot er það ekki heldur og reyni ég hvað ég get til að losna undan að sjá hana.
Nóg um það.
Ég sá Good bye Lenin. Í mjög stuttu máli gerist hún í austur Þýskalandi. Áður en múrinn fellur fær móðir söguhetjunnar hjartaáfall og fellur í dá. Þegar hún vaknar úr dáinu er múrinn fallinn og vestræn ó-menning streymir inn. Til að koma í veg fyrir að móðir hans fái annað hjartaáfall (sem líklegast myndi ríða henni að fullu) býr sonurinn til þá blekkingu fyrir hana að múrinn standi enn sem fastast og allt sé við það sama. Læknarnir telja ekki líklegt að hún eigi langt eftir ólifað og telur sonurinn að það sem hann geri fyrir hana sé einungis til að gera síðustu daganna hennar þægilegri, átakalausari, betri en ella.
Eins og algengt er með góðar myndir, fékk þessi mig til að hugsa.
Að þykjast í veruleikanum
Hver er raunheimurinn okkar? Við búum í saman í samfélagi, göngum í sömu skóla, þekkjum sama fólkið, tökum sama strætó og verslum í sömu verslun. Þýðir það að heimurinn okkar sé eins? Auðvitað eru margir aðrir þættir sem koma inn, eins og fjölskylduaðstæður. En ef við gefum okkur að allar aðstæður séu svipaðar. Hvað þá?
Ef mér gengur illa að fóta mig í samfélaginu en ekki þér. Hvort er samfélagið þá gott eða vont?
Ég lá andvaka eina nótt þegar ég var litil stelpa. Ég var alltaf að kalla á mömmu og segja henni að ég gæti ekki sofnað og bað hana stöðugt um svefntöflu. Á endanum kom mamma með hálfa c-vítamín töflu og vatnsglas og sagði að þetta væri svefntafla og að ég myndi sofna strax og ég væri búin að gleypa hana. Hver var þá raunveruleikinn? Ef ég sofnaði eftir að hafa gleypt töfluna, er hún ekki svefntafla fyrir mér?
Við erum aldrei eins. Sumt segjum við foreldrum okkar annað geymum við fyrir vini og enn annað segjum við engum frá. Hvaða mynd erum við að gefa af okkur?
Fyrir syni mínum er ég hin heilaga móðir, sem fær sér stundum rauðvín í glas. Aðrir vita betur. Í augum sumra (ok margra) er ég bölvuð frekja en aðrir gætu jafnvel haldið því fram að ég væri ósköp ljúf.
Þegar maður kynnist nýju fólki, kemur inn á ný - áður óþekkt svæði - þá matreiðir maður sig á misjafnan hátt. Alvörugefin, kát, grimm, klár, sjálfsörugg, óstöðug, vitlaus, góð, köld, heilög, kisulóra eða villiköttur. Allt eftir því hvað við á.
Ef maður vill ekki allan sannleikann, hvað er maður þá?
Raunveruleikinn er ekki fyrir viðkvæm augu. Hver kannast ekki við það þegar fréttamenn eru að segja fréttir af hörmungum úr hinum stóra heimi og rétt áður en myndir af atburðum eru sýndar segja þeir: "við vörum viðkvæma við myndunum sem sýndar verða" Þar með gefst okkur sem ekki viljum sjá hið raunverulega ástand, tækifæri til að loka augunum eða skipta um stöð.
Er maður að svíkjast undan ef maður segir ekki allan sannleikann?
Í fyrsta hlaupinu sem ég tók þátt í lenti ég í þriðja sæti. Frábær árangur. Fékk bikar og allt. Átti ég alltaf að láta það fylgja að við vorum bara fjórar konur sem tókum þátt? Hvort lenti ég í þriðja sæti eða næstsíðasta sæti?
Þetta eru nú meiri hringavitleysan...
<< Home