englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, ágúst 16, 2004

Ruslatunnur og nýtt líf

Á morgun byrjar nýja lífið mitt. Eða á morgun byrjar gamla lífið mitt aftur. Sumarið tekur endasprett sinn með undirbúningi fyrir sumarpróf. Núna ætla ég að vera alveg svakalega dugleg að læra, ekkert að leggja mig fram á skólabækurnar og ekki horfa mikið út í loftið.

Tekst þetta? Auðvitað!!!

Ég er orðin svo stór og bý yfir svo gífurlegum sjálfsaga að þetta verður eins og að drekka vatn... með lokuð augun og hendur bundnar fyrir aftan bak.

Ég fann gömlu dagbækurnar mínar um daginn. Þessar sem ég skrifaði þegar ég hafði frá einhverju miklu og merkilegu að segja. Þar ræddi ég um mín innstu hjartans mál, eins og t.d. að ég þyrfti nú að fara í megrun og í hvaða strák ég væri skotin og hvað ég ætlaði að vera búin að afreka þegar ég væri orðin þrítug.
Annað hvort er ég að tala um hvað lífið sé erfitt eða hvað það sé frábært.
Yfirleitt er ég alveg að fara að byrja nýtt líf eða nýbyrjuð á nýju lífi.

Hormónaflæði unglingsáranna. Sumir verða lítið varir við þetta. Aðrir eru í þessu flæði allt sitt líf. Ég hélt alltaf að best væri að ná stjórn á lífinu, hafa það niður njörfað. Slétt og felt.
En eftir því sem árin færast yfir mig (segir gamla konan) og ég verð hoknari af reynslu verð ég sannfærðari um að best sé að blanda þessu saman - í hæfilegum skömmtum.

Einu sinni var ég unglingur. Þá tók ég allar mínar helstu og bestu ákvarðanir á nóttinni. Eina nóttina ákvað ég að nú væri nóg komið og frá og með morgundeginum yrði ég pæja. Til að ég myndi ekki gugna á þessari ákvörðun minni, fór ég inn í fataskáp og hreinsaði út úr honum. Fötin sem í honum voru, fóru beinustu leið út í tunnu.
En rétt eins og Róm var ekki byggð á einni nóttu, varð ég ekki heldur pæja á einni nóttu.
Mamma mín hafði engan skilning á fatavandræðum mínum, talaði eitthvað um fljótfærni og ruslatunnur..alveg vonlaus.

Það tók mig mörg ár að eignast einhver föt aftur í hillurnar mínar og ég græt enn fínu rauðu joggingbuxurnar með stroffinu.