englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, febrúar 28, 2005

Boring

Mér finnst alveg massa leiðinlegt að vera lasin.
Alveg jafn leiðinlegt og mér finnst skemmtilegt að vera frísk.

æ æ æ

Æ mig auma. Verkjar í allan líkamann. Uppi - niðri - úti og inni.
Man einu sinni eftir að hafa átt svona bágt.
það er nú langt síðan.

laugardagur, febrúar 26, 2005

að vera með athyglina á ástinni

Sverrir var orðinn ósköp þreyttur og gafst upp í miðju Idoli. Lá á miðju stofugólfi í partýinu og bað um að fá að komast heim. Við húkkuðum okkur far og redduðum okkur meiri veisluhöldum á leiðinni heim (fyrir morgundaginn sko)
Ég bar hann í rúmið og hann segist þreytulega elska mig og ég byrja eitthvað að tjá honum ást mína...

Ég: það er margt sem gerir mig hamingju sama. Ég er ánægð með fóllkið sem ég þekki, vini mína og fjölskyldu. Það sem ég er að gera og allt það (ég lít á hann og sé votta fyrir brosi, svona rétt eins og hann viti hvað sé í vændum) ... en það er ekkert sem gerir mig eins hamingjusama og að hafa eignast þig. Ég elska þig svo mikið.

Hann: sömuleiðis mamma....

( þögn...svona ástríðuþrungin þögn...)

Hann: mamma... veistu hvernig svarthöfði andar?

föstudagur, febrúar 25, 2005

JESS!!!

VOG 23. september - 22. október
Júpíter er í vogarmerki og gæfan brosir því við þér.
Þú ert hamingjusamari og jafnvel heppnari.
Það er í lagi að vona það besta.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Sorg eða léttir?

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að ná að standa undir þeirri ábyrgð að vera í sambýli með öðru fólki. Ég tala nú ekki um þegar þetta fólk er læknir, lögfræðingur og hagfræðingur.

Ég var á húsfundi í gær - nei - ég var með húsfund í gær. Ég er nefninlega húsvörður á ásvallagötunni. Það á að ráðast í framkvæmdir. Ég sagði þeim fyrir jól að akkúrat nákvæmlega núna væri ekkert sérstaklega góður tími fyrir mig að fara út í stórframkvæmdir.
Ég sagði þeim það skýrt og skilmerkilega og ákvað því að endurtaka það ekki í gærkvöldi. Hugsaði með mér að ef þau væru með það slæmt minni að þau væru búin að gleyma því sem ég hafði sagt, þá væru margir sjúklingar í hættu og KB banki færi líklegast bráðum á hausinn.

Það lá eitt tilboð fyrir og hljóðaði það upp á 350þús. Ekki svo svakalegt. Ég hugsaði með mér að ég gæti sjálfsagt kyngt mínum hlut af þeirri upphæð. Gæti reddast. Ég segi ekki orð.

En svo var það teppið...og ásvallagatan skal svo sannarlega aðeins fá það besta og teppið er sérpantað frá útlöndum. 250 þús. Enn ákvað ég að þegja.

Og svo segir læknirinn (þau ykkar sem hafa lesið bloggið mitt frá upphafi, þá er það sami maður og hefur aldrei komið inn í Bónus - gat verið) : Jóda mín, ég veit alveg að aðstæðurnar eru kannski ekki upp á það besta hjá þér (jæja, gott fyrir sjúklingana hans) en ég er nú orðinn svo gamall maður að ég vil bara gera þetta allt í einu og held að við ættum að kaupa nýjar hurðir í leiðinni. 200 þús. Enn þegi ég. Hins vegar grét ég örvæntingarfullum gráti inní mér, ekki vegna mín, heldur þeirra.

Ef ég tryði ekki á líf eftir dauðann, myndi ég hiklaust vísa kattarófétinu sem býr í leyfisleysi í húsinu, út á gaddinn. Ég veit að það væri kannski ekki óskastaða fyrir eigendurna en ég er nú bara ung kona sem er með ofnæmi fyrir köttum. En ég trúi á líf eftir dauðann...

Minn hlutur er uþb 170 þús. og eins og ég sagði þá er ég búin að vera að hugsa og hugsa og hugsa. Komst svo að þeirri niðurstöðu að ég gæti kannski selt bílinn minn. Þannig að ég spyr: er einhver, eða einhver sem þekkir einhvern sem myndi vilja fjárfesta í drossíunni minni?
Gengur eins og klukka, góð sál og náttúrulega alveg tryllingslega flottur!

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

KK

við mæðginin vorum að borða í gærkvöldi. Ég bendi á diskinn hans og segi að það sé köld kotasæla þarna, ef maturinn sé of heitur.

Sverrir: Mamma, hvað þýðir KK?
Jóda: (alveg svakalega stolt yfir þekkingu sonarins á íslenskum tónlistarmönnum) uuu...Kristján Kristjánsson?
S: Neibb
J: uuu...Kær kveðja?
S: Nei...Köld Kotasæla...en það getur líka þýtt margt annað, eins og Kristín að kúka, Kristján að kúka, Kristjana að kúka, Köttur í Kastljósi...hvað sagðir þú aftur?
J: Kær kveðja?
S: Já...
J: svo getur það líka verið kossar og knús
S: Já mamma mín
J: Þegar maður er að skrifa bréf þá skrifar maður stundum KK í lok bréfins
S: það er mjög ruglandi mamma, það getur þýtt svo margt.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Öllu má nú velta fyrir sér!

Þessi snilldar spurning er á vísindavef Háskóla Íslands:

Hvenær er orðið svo mikið drasl í herbergi að maður er í rauninni að taka til þegar maður sparkar í hluti?

"Svarið" er svo á vefnum www.visindavefur.hi.is - sláið inn leitarorðið "drasl"

Góða skemmtun :-)

Konudagar sem aðrir dagar

Það var konudagur um daginn. Bóndadagurinn í upphafi þorra og Valentínusardagur einhversstaðar þarna á milli. Mér heyrðist á umræðunni að flestir hafi tekið þann pólinn í hæðina að taka ekki þátt í amerískum valentínusardegi. Þessi dagur væri hallærislegur og kaupmenn smekklausir að reyna að ginna viðskiptavini sína til að kaupa eitthvað sem þeir geta svo vel verið án. Svo er alltaf góður hópur sem gefur ekki nein blóm eða gjafir á konu og bóndadegi, segist sko ekki standa í svona fáránlegum “kaupmannadögum” gefi bara blóm þegar þau vilja – á einhverjum öðrum, venjulegri dögum.

Ég er svolítið búin að velta þessu fyrir mér. Ég slysaðist til að láta það út úr mér á Valentínusardaginn að mér myndi alveg finnast gaman ef einhverjum sem þætti vænt um mig, myndi láta mig vita af því á þessum degi - og var með það sama stimpluð "smáborgari". Ég tek það þó fram að ég yrði ekkert sérstaklega uppnumin ef ég fengi bangsa, með hjarta í fanginu, með áletruninni “I love you”. Ekki að ég sé eitthvað á móti ástarjátningum, þessi stíll á bara ekki við mig. Ég fékk engar ástarjátningar og enga bangsa og ekkert konfekt. Lifi það af, en held áfram í vonina.

Svo kom konudagurinn. Konudagurinn er miklu skemmtilegri en bóndadagur. Bóndadagur er einhvernveginn fyrir “bóndann” en konudagurinn fyrir konur almennt. Ég fór í göngutúr og hitti fullt af konum, sem voru að fagna þessum degi – einar, saman eða með karlkyns vinum sínum eða elskhugum. Þær óskuðu hverri annarri til hamingju með daginn og nutu þess að eiga hann. Ég fékk eina hamingjuósk frá karlmanni. Það var frændi minn, sem var á leiðinni út í bakarí – sjálfsagt til að kaupa konudagsköku fyrir konuna sína. Hann kallaði hátt og snjallt yfir Laugarveginn “Til hamingju með daginn!”

Mér var reyndar boðið í bíó um kvöldið. Veit ekki hvort að tilefnið var þessi ákveðni dagur. Það var ekkert minnst á það og ég ákvað að vera ekkert að spyrja – algjör óþarfi að gera “deitið” vandræðalegt. Kannski var það bara tilviljun, en hef ákveðið að trúa að svo sé ekki.

Það var nú samt ekki þetta sem ég ætlaði að tala um...

Það sem ég er búin að vera að hugsa og velta fyrir mér er að “við” erum alveg á hnefanum til að vera ekki að gera kaupmönnum til geðs með því að kaupa konfekt og blóm á þessum gjafadögum. En liggjum svo í bollunum í heila viku í kringum bolludag og reynum að drepa okkur af saltkjötsáti. Svo koma jólin og við eyðum og eyðum og eyðum. Svo fermum við börnin okkar og það tekur okkur nokkur ár að greiða það niður... ég gæti haldið endalaust áfram.

Svo segjum við fullum hálsi að við tökum sko ekki þátt í einhverjum fáránlegum amerískum ástardögum – þetta sé ekki íslenskur siður! Fáum okkur svo hamborgara í kvöldmat og skolum honum niður með kókakóla – best ef það er nú McDonalds.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Strákarnir hennar Jódu

Strákarnir komu í morgun. Fyrst komu Siggi smiður og Jón smiður. Þeir gengu frá svefnherberginu mínu. Jón var reyndar eitthvað óánægður með hvað þeim hafði tekist illa að setja parket fjölina aftur á og ætlaði að fara að rífa þetta allt upp aftur, þegar ég sagði honum að þetta skipti engu máli - þar sem þetta væri nú undir skápnum!
Þeir félagar voru svo þakklátir fyrir viðbrögðin hjá mér að þeir báru í staðinn eitthvað fylliefni í sprungurnar á parketinu frammi á gangi (sama gangi og þeir löguðu listann í, um daginn).
Svo tók Siggi út eldhúsið hjá mér og gaf mér góðar ráðleggingar með hvað ég ætti að gera þar. (Ekki varðandi eldamennsku, heldur svona iðnaðarmannastuff)

Svo kom Rikki. Hann á þurrkuvélina sem ég var með inní svefnherbergi (samskonar græja og ég var með inni á baði um daginn) Hann var nú svo glaður að sjá mig kallinn að ég hélt hann ætlaði að kyssa mig. Svona eftir á að hyggja, var hann kannski ekkert glaður að sjá mig, heldur vélina sína...sem hann reyndi að fá að sækja á föstudaginn en án árangurs.

Svo að lokum var það Örvar múrari. Örvar er sonur Arnar múrara. Ég veit ekki alveg hvað þetta er með feðga og sömu starfsstétti.
Allavegana þá er Örvar búinn að taka gömlu flísarnar og múra upp í holurnar sem Sigmar og hans sonur gerðu. Svo kemur hann á morgun og flísaleggur.

Mér sýnist á öllu að þegar það verður búið, þá sé ég svo heppin að eiga jafnvel von á einum iðnaðarmanni í viðbót - nebblega málara. Ég get vel málað sjálf og kann það bara nokkuð vel, en hins vegar er ég farin að kunna því ágætlega að láta einhvern annan gera svona hluti fyrir mig. Þannig að ef málarinn er inní pakkanum, tek ég hann fegins hendi...samt ekki með fegins hendi...

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hjálp!

Getur einhver sagt mér hvað þetta þýðir?
Ég er búin að lesa þetta aftur og aftur og ég bara skil þetta ekki!

Benson og Stabler komast að því að láta nema í framhaldsskóla tengist glæpum sem hann framdi sem formaður bræðrafélags í skólanum. Það kemur þeim verulega á óvart þegar faðir fórnarlambsins samþykkir að verja einn af þeim sem er ásakaður um að hafa valdið dauða þess

föstudagur, febrúar 18, 2005

Símtal

Fékk mjög áhugavert símtal áðan, sem ég held að eitthvað spennandi geti komið út úr.
Eitthvað sem gæti breytt lífi mínu. Það þarf svo sem ekki neitt stórkostlegt til að breyta lífi mínu. Það er amk ekki endilega stórkostlegt á annarra manna mælikvarða.

En á minn mælikvarða - og það er það sem skiptir máli.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Brúnt eða appelsínugult?

Hvernig stendur á því að maður sækir í það sem gerir manni ekki gott?
Ég er búin að engjast í allan dag. Búin að þrá fátt heitara en að fá mér brauð og sultu og sætabrauð og súkkulaði og lakkrís og... og... og...

Ég er pínulítið búin að láta það eftir mér. Á meðan ég er að reyna að halda mér vakandi þá hugsa ég með mér að nú sé nóg komið af svona áti og héðan í frá verði bara borðaðar gulrætur og spínat. Svo sofna ég.

Þegar ég vakna langar mig mest af öllu í súkkulaði og lakkrís... hugsa að ég endi með að leggja á mig sjoppuferðalag, mun frekar en hættuför í eldhúsið, þar sem mannætu gulræturnar eiga heima.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Matur og nærföt

Eftir að hafa skellt á, þá hugsaði ég með mér að það gæti nú varla skaðað mikið þó ég þekktist þetta boð. Ég meina það þurfa allir að nærast. Ég þyrfti ekki einu sinni að gera neinar ráðstafanir, því ég á mig sjálf og enginn hefur umráðarétt yfir mér. Sonur minn yrði hjá pabba sínum. Allt eins og best verður á kosið.

Ég hef áður velt upp þeirri spurningu hvort ég sé ekkert frábrugðin öðru kvenfólki. Ég er amk ekki frábrugðin stereotýpunni í þeim málum, að ég veit ekkert í hverju ég á að fara. Veit ekkert hvernig matur þetta verður. Á ég að taka með mér vín, vera í fínum nærfötum eða hvað?

Ég veit samt ekki með nærfötin. Ég á enga sparibrók. Engin silkinærföt, sem ég dreg fram í dagsljósið við sérstök tækifæri. Kannski ég sleppi þeim bara og taki tvær vínflöskur í staðin?

Eins og svo margt annað, þá kemur þetta í ljós.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Blár

Ég sé fyrir mér blátt kyrrt haf. Það er ekkert annað í sjónmáli, nema þá sandströndin sem ég sit á. Ég loka augunum og hlusta á gutlið í hafinu bláa. Það er hlýtt úti, ekki of heitt. Bara hlýtt. Það er mikil ró yfir þessum stað. Hér er gott að vera.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Er ekkert fyrir endaþarmsmök!

Mér bauðst tveggja vikna tilraunaáskrift af DV og þáði hana. Þessvegna hef ég náð að fylgjast nokkuð vel með umræðu um endaþarmsmök unglingsstúlkna. Þær eru víst bara með kúkinn í buxunum og deifikrem í vasanum.
Ég ætla alls ekki að gera lítið úr þessari umræðu. Enda er hún mjög þörf. Mér fannst svolítið gott á foreldar, þegar landlæknir hélt því fram að það væri foreldranna að kenna börnum hvað telst eðlilegt og hvað ekki. Þetta væri hreinlega uppeldislegt atriði.

Nú ætla ég ekki að dæma um það hvort endaþarmsmök teljast til eðlilegs kynlífs eða ekki.
En hins vegar er náttúrulega ekki eðlilegt þegar 13 ára stúlka skrifar í dagbók sína að hún ætli að biðja "hann" um að fara varlega næst, ekki byrja að hamast á henni strax. Hún verði að fá tíma til að venjast þessu helvíti.

Svo var ég að lesa DV í dag. Þar var birt lesenda bréf frá 13 ára gamalli stúlku - Í þessu bréfi segir hún meðal annars:
" Mig langar til þess að taka það fram út af umfjölluninni um að allar ungar stelpur séu að stunda endaþarmsmök á full, að það er sko ekki rétt...Ég er 13 ára og er mjög vandlát á mitt kynlíf og er ekkert að láta taka mig í rassgatið. Ég er ekki svona og flestar stelpur á mínum aldri eru það ekki heldur, við stundum ábyrgt kynlíf og viljum ekki láta mála okkur upp sem einhverjar druslur þó nokkrar stelpur séu að samþykkja þetta. "

Nei, auðvitað eru ekki allar 13 ára stelpur að láta taka sig í rassgatið. En hér höfum við samt 13 ára stelpu sem talar um að hún sé mjög vandlát á sitt kynlíf og það séu einnig flestar stelpur á hennar aldri.

Erum við ekki að grínast hérna?
Ég held að ég verði að taka undir orð landlæknis að nú sé komið að foreldrum að taka sig örlítið saman í andlitinum og fara að sinna börnunum sínum!

Óþolandi

Það er náttúrulega algjörlega óþolandi að hanga í tölvu á bókasafninu og msn -ið liggur niðri.
Ég meina, hvað á ég að gera? Læra?

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Sófahorn

Einu sinni sem oftar átti ég samtal um kynin, það sem er ólíkt þeirra á milli og það sem er sameiginlegt. Vinur minn segir að mynd hans af flutningum sé stelpa sem stendur út á miðju gólfi, skipandi fyrir verkum og tveir strákar að bera sófa á milli horna í stofunni.
Ég er nú aldeilis ekki tilbúin til að kyngja þessu:

Jóda: Ég neita að trúa því að stelpur séu svona. Ég t.d. geri allt svona sjálf. Ég bið ekki um hjálp, ég hef svo gaman af því að gera hlutina sjálf.

Vinur minn: Já, er það? Ertu ekki búin að vera með fullt hús af iðnaðarmönnum hjá þér undanfarið?

J: Jú reyndar, en mér finnst það mjög óþæginlegt...

V: Já er það? Ertu ekki búin að vera að snúa þeim í kringum þig eins og þú fáir borgað fyrir það?

J: Jú reyndar...en...

V: og ert að fá þá til að gera miklu meira en þeir í raun eiga að gera?

J: jú...reyndar...en sko....

V: Þeir eru strákarnir með sófann.

Kannski er ég ekkert öðruvísi en aðrar stelpur?
Ekkert betri - Ekkert verri - bara alveg eins?

föstudagur, febrúar 11, 2005

Merkilegt

Það er gleðilegt hvað þarf lítið ljós til að lýsa upp myrkvað herbergi
Það er sorglegt hvað þarf lítið til að þetta litla ljós slökkni og herbergið verði myrkvað á ný
Í dag ætla ég að baða mig í birtunni eins og hún komi til með að vara að eilífu

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Sorgin

Við ræddum svolítið um sorgina í skólanum í dag. Það er kona sem er að rannsaka sorgarferli kvenna sem missa menn sína. Missa þá hvort sem er í dauða eða bara missa þá eitthvað annað. Það virðist ekki skipta máli hvernig þessar konur tapa mönnum sínum, sorgin er sú sama.
Ég sagði við hana að ég hefði nú nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að fólk sem missir maka sinn sjálfviljugt, gangi líka í gegnum sorgarferli. Kannski ekki eins kraftmikið, en sorgarferli engu að síður. Þá sagði hún mér að fólk sem skildi sjálfviljugt, fengi samt sem áður bækling um sorgina þegar það færi að tala við prest.

Mér finnst þetta merkilegt. En samt svo eðlilegt.

Að vera í sorg er ekki góður staður til að vera á. Anna sálfræðingur sagði í sjónvarpinu að maður ætti umfram allt að passa að vera ekki einn (var þá að vísa til ástarsorgar en ég held að það megi heimfæra þetta yfir á aðrar tegundir sorgar) - en málið er hins vegar að það er oftast hægara sagt en gert að fara að mingla uppfull af sorg. Þá er bara mun auðveldara að halda sig til hlés.

Mér finnst það sorglegt. En samt svo eðlilegt.

augu

Þegar maður kemst loksins til meðvitundar og opnar augun, með bros á vör - er gaman að vera til. Gott að lifa og anda.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Allt á fullu

Eftir að hafa legið undir feldi í janúar og hugsað og hugsað, þá er allt komið á fulla ferð aftur. Fyrir þá sem fylgdust með innilegu sambandi mínu við hagfræðikennara nokkurn, á síðustu önn, er gaman að segja frá því að allar þær heimildir sem ég er að vinna með þessa dagana, í tengslum við rannsóknina mína eru hagfræðilegs eðlis.

Þetta minnir mig á að á mínum yngir árum gerði ég stólpa grín að þessum vitleysingum sem hlupu út um víðan völl - og það án þess að nokkur væri að elta þá.

Já...það er víst alveg rétt að maður veit aldrei fyrr en daginn eftir...

árstíðir

Ég verð nú að segja að mér finnst páskahretið alveg vera í fyrra fallinu

mánudagur, febrúar 07, 2005

Frú Elín

Ég er búin að öðlast ákveðinn status í lífinu. Sigurður smiður kallar mig frú Elínu. Ég er frekar sátt við það, þar sem þetta er virðulegur titill. Sigurður er frá Akureyri og kom með annan mann með sér í dag, hann Jóhann frá Ólafsfirði. Ég skal ekki segja hvort ætterni þeirra hafi einhver áhrif en ég fæ mjög góða þjónustu frá þessum piltum.

Þeir eru búnir að snúa heimili mínu á hvolf. Undir parketinu inní svefnherbergi fundum við trégólf og svo nokkrum sentimetrum neðar fundum við steingólf. Þetta er mjög áhugavert. Voða vond lykt, en ekkert bólar á Geirfinni...spurning hvort eitthvað sé undir steingólfinu?

Næsta mál á dagskrá er að fá einhverja slöngu sem á að fara ofan í trégólfið og hinn endinn á að liggja út um svefnherbergisgluggann minn...yfir rúmið. Þetta er gert til að þurrka gólfið.

Ég hló inní mér þegar ég opnaði bréf frá tryggingafélaginu mínu áðan, þar var ávísun stíluð á mig. Ég var nefninlega svo ótrúlega góður viðskiptavinur í fyrra að ég borgaði bara og borgaði og vildi ekkert í staðin. Mér segir svo hugur að ég komi ekki til með að fá sambærilega ávísun í byrjun næsta árs.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Tómatar og þvottaefni

Ég fór í Bónus í gær. Ég var búin að segja við sjálfa mig og sambýlismann minn að við yrðum mjög fljót. Mér finnst yfirleitt gaman að versla, en kannski síst af öllu í Bónus.

Ég þurfti þó að hægja á mér stax í grænmetisdeildinni. Þeir sem versla í Bónus vita að gangarnir eru ekki breiðir. Gamall maður hafði parkerað kerrunni sinni þvert á ganginum og var að velja sér tómata. Ég horfði á hann og hugsaði með mér að 1 mínúta í viðbót í þessari búð myndi varla drepa mig. Hann valdi sér þrjá bakka af innpökkuðum tómötum (íslenskum). Þegar hann færði sig til að velja sér banana náði ég að smeygja mér framhjá honum.

Sá hann ekki aftur fyrr en í lok búðarferðarinnar, við hreinsidótið. Þar stóð hann, mikill umsig, í gráum buxum og grárri peysu með hreindýramynstri. Stafurinn hans skagaði út frá kerrunni. Þegar ég gekk framhjá honum, laumaðist ég til að líta ofan í kerruna: tómatabakkarnir þrír, þrír bananar og þrjár fernur af íslenskum appelsínusafa. Hann lítur til mín og segir:

- Fyrirgefðu, getur þú sagt mér hvað þetta er?
- þetta er uppþvottalögur.
- Er það svona til að þrífa?

Ég segi honum að þetta sé aðalega notað til að vaska upp. Hann virðist vera óskaplega umkomulaus og ég spyr hvort hann hafi verið að leita að svoleiðis. Hann segist vera að leita að einhverju efni til að eiga þegar konan kemur að þrífa.

- Ertu að leita að einhverju til að þrífa almennt, eða til að skúra?
- Bara þrífa almennt, það þarf ekkert að skúra. Ég er bara einn og hreyfi mig ekki mikið. Það er bara smá ryk.

Ég hjálpa honum að velja hreinsidót og var ánægð með kallinn að velja frekar milt efni, heldur en salmíak angandi stuff. Ég gerði mig líklega til að halda áfram en þá bað hann mig um að hjálpa sér að velja þvottaefni.

- Eitthvað sérstakt?
- Nei...kannski eitthvað fljótandi.

Ég finn fljótandi þvottaefni og hann er hinn ánægðasti.

- Ég kann ekkert á þetta. Konan mín sá alltaf um allt svona, en svo er hún dáin núna og ég verð að reyna að bjarga mér. Mig minnir að hún hafi keypt svona þvottaefni.

Ég sá hann í síðasta skiptið í röðinni við kassann. Hann stóð rólegur og beið þess að röðin kæmi að honum. Ég stóð mig að því að hugsa að líklegast væri hann ekki bara að bíða eftir því að röðin kæmi að honum í Bónus, heldur líka hjá Pétri.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Til umhugsunar

Jæja krakkar mínir, nú er ég byrjuð að lesa skólabækur aftur og þá getið þið nú aldeilis farið að hlakka til...allt það merkilega sem ég les og miðla áfram...vá maður lifandi. Rétt eins og eftirfarandi dæmi:

Child of unemployed man: "Why don't we have heat?"
Mother: "Because there is no coal"
Child: "Why is there no coal?"
Mother: "Because your father is out of work"
Child: "Why is my father out of work?"
Mother: "Because there is too much coal."

Þó svo að þetta hafi verið skrifað 1931 og fjallar um kol, þá má vel heimfæra þetta yfir á eitthvað annað í okkar tíma. Eins og til dæmis matvælaframleiðslu í verksmiðjum.
Nú hljóma ég eins og einhver afturhaldskommatittur, en minni á að það eina sem ég sagði um þetta mál er að það væri til umhugsunar...

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Kossar og Pusi litli

Við mæðginin vorum í sundi um daginn. Sverrir kemur til mín og kyssir mig, svo gerist hann hálf undarlegur og ástleitinn og kyssir mig mikið.

- Hvað ertu að gera Sverrir?
- Ég er að kela þig!
- Hættu þessu!
- Afhverju?

Nokkrum dögum seinna vorum við aftur í sundi. Sátum saman í hálffullum heita pottinum. Hann situr ofan á mér og beygir sig að mér.

- Sverrir, hvað ertu að gera?
- Ég er að sleikja á þér hálsinn
- Hættu þessu!

Svo líða nokkur andartök...

- Mamma má ég sjúga á þér varirnar?
- Nei!
- En öxlina?
- ....

Ég spyr: Fer þessu ekki bráðum að ljúka? Ég veit ekki hvað ég get afborið mikið af svona vandræðalegum mómentum á almannafæri.