englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Tómatar og þvottaefni

Ég fór í Bónus í gær. Ég var búin að segja við sjálfa mig og sambýlismann minn að við yrðum mjög fljót. Mér finnst yfirleitt gaman að versla, en kannski síst af öllu í Bónus.

Ég þurfti þó að hægja á mér stax í grænmetisdeildinni. Þeir sem versla í Bónus vita að gangarnir eru ekki breiðir. Gamall maður hafði parkerað kerrunni sinni þvert á ganginum og var að velja sér tómata. Ég horfði á hann og hugsaði með mér að 1 mínúta í viðbót í þessari búð myndi varla drepa mig. Hann valdi sér þrjá bakka af innpökkuðum tómötum (íslenskum). Þegar hann færði sig til að velja sér banana náði ég að smeygja mér framhjá honum.

Sá hann ekki aftur fyrr en í lok búðarferðarinnar, við hreinsidótið. Þar stóð hann, mikill umsig, í gráum buxum og grárri peysu með hreindýramynstri. Stafurinn hans skagaði út frá kerrunni. Þegar ég gekk framhjá honum, laumaðist ég til að líta ofan í kerruna: tómatabakkarnir þrír, þrír bananar og þrjár fernur af íslenskum appelsínusafa. Hann lítur til mín og segir:

- Fyrirgefðu, getur þú sagt mér hvað þetta er?
- þetta er uppþvottalögur.
- Er það svona til að þrífa?

Ég segi honum að þetta sé aðalega notað til að vaska upp. Hann virðist vera óskaplega umkomulaus og ég spyr hvort hann hafi verið að leita að svoleiðis. Hann segist vera að leita að einhverju efni til að eiga þegar konan kemur að þrífa.

- Ertu að leita að einhverju til að þrífa almennt, eða til að skúra?
- Bara þrífa almennt, það þarf ekkert að skúra. Ég er bara einn og hreyfi mig ekki mikið. Það er bara smá ryk.

Ég hjálpa honum að velja hreinsidót og var ánægð með kallinn að velja frekar milt efni, heldur en salmíak angandi stuff. Ég gerði mig líklega til að halda áfram en þá bað hann mig um að hjálpa sér að velja þvottaefni.

- Eitthvað sérstakt?
- Nei...kannski eitthvað fljótandi.

Ég finn fljótandi þvottaefni og hann er hinn ánægðasti.

- Ég kann ekkert á þetta. Konan mín sá alltaf um allt svona, en svo er hún dáin núna og ég verð að reyna að bjarga mér. Mig minnir að hún hafi keypt svona þvottaefni.

Ég sá hann í síðasta skiptið í röðinni við kassann. Hann stóð rólegur og beið þess að röðin kæmi að honum. Ég stóð mig að því að hugsa að líklegast væri hann ekki bara að bíða eftir því að röðin kæmi að honum í Bónus, heldur líka hjá Pétri.