englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Hlutir sem ég ekki skil



það þarf að stafa þetta ofan í mig!
Þessa dagana er mikið rætt um hækkandi hitastig loftlagsins og þær hörmulegu afleiðingar sem það kemur til með að hafa á heiminn. Ég, eins og sjálfsagt fleiri íslendingar, hef bara hugsað mér gott til glóðarinnar og ekki geta beðið eftir því að leggja nagladekkjunum og ullarsokkunum.

En nei

Það sem þeir (þeir þarna, hverjir sem það nú eru) segja er að ekki verði aftur snúið ef við pössum okkur ekki og Grænlandsjökull gæti bara bráðnað og Golfstraumurinn heyri sögunni til. Í kjölfarið af þessum atburðum verður Ísland óbyggilegt.

það sem mér finnst alveg vanta í þennan hræðsluáróður er að segja mér (og ykkur hinum sem ekki skiljið þetta heldur) hvernig Ísland verður óbyggilegt. Verður það af því að Ísbirnirnir koma allir hingað? Eða af því að allt vatnið úr Grænlandsjökli gæti drekkt landinu? Eða er málið með Golfstrauminn? Ef hann hættir að vera, fáum við þá ekkert andrúmsloft???? Ég meina ég bara skil þetta ekki!
--------------------------------------------------------------------------------

Stund barnanna okkar

Í Fréttablaðinu er á hverjum degi lítil auglýsing frá DV , þar sem stærsta mál blaðsins er tíundað. Í dag er fyrirsögnin "Foreldrar reiðir. Dóp, morð og nauðganir í Stundinni okkar"
Ég verð að viðurkenna að ég missti af þessu með dópið og morðið og nauðganirnar (og hef ekki lesið greinina í DV)
hins vegar horfði ég á hluta af þessum klassíska sjónvarpsþætti síðastliðinn sunnudag. Það sem ég sá voru tvö söngatriði. Ég hafði það á tilfinningunni að þetta væri atriði úr einhverjum söngskóla. Stór hópur barna og í hvoru atriði fyrir sig söng eitt barn aðalasönginn. Fyrst kom strákur sem var að rappa og rappaði hann um kellingar, druslur og brennivín - sem betur fer var hann það óskýr í máli að ég heyrði ekki allt sem hann sagði (o.þ.a.l. væntanlega ekki börnin sem voru að horfa á)

Seinna atriðið var mun skýrara kveðið. Þar var ung stúlka að tala við sinn guð. Hún var að biðja hann um að hjálpa sér. Bað hann um að láta hana grennast, svo hún endaði ekki sem fituklessa sem dansaði ein.

Eðlilega brá mér töluvert og jafnvel hugsaði mér að láta í mér heyra. Það væri skemmtilegt að heyra hvaða mögulegar afsakanir stjórnendur þáttarins gætu haft fyrir því að sýna svona atriði.
Það gæti líka verðið félagslega áhugavert að fá að kíkja í þennan ímyndaða söngskóla. Nú eða að fá að hitta foreldra blessaðra barnanna, sem væntanlega hafa verið að hjálpa þeim við undirbúninginn fyrir frægðarstund í Stundinni okkar.