englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, janúar 15, 2005

Sonur Sigmars - 4

Ég þakkaði mínu sæla fyrir að hafa hitt hann á barnum þarna um daginn. Þar höfðum við náð að klára þetta beisik dæmi sem þarf að klára, þegar fólk hittist aftur eftir mörg ár. Þannig náðum við að hafa það “eðlilegt” á okkar milli. Eða svona eins eðlilegt og það getur orðið, þegar ein manneskja er að míga á sig af hlátri, með slef út á miðjar kinnar og hin manneskjan er sonur Sigmars.

Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvort hann væri svona afslappaður í minn garð, vegna okkar fyrri kynna eða vegna þess að hann kippti í kynið. En þegar pabbi hans fór út í bíl að ná í einhverja sög, þá stormaði gamli elskhuginn inn í svefnherbergi og vildi fá að kíkja inn í skápana mína.

Þeir feðgar voru búnir að segja mér að það væri búið að hafa samband við smið, sem ætlaði að skoða skápana og því þyrfti ég að tæma þá. Ég var rétt byrjuð að dúlla mér í litla horninu sem ég náðasamlegast leyfi Sverri að geyma fötin sín í, en nei, það var ekki það horn sem elskhuginn hafði áhuga á.

(Til að fyrirbyggja allan misskilning hætti ég hér með að kalla hann elskhuga og kalla hann sínu rétta nafni: Kristján)

Hann rauk beint að skápnum þar sem ég geymi kjólana mína og pilsin og annað tilfallandi. Bíður eftir að ég opni hann. Sem ég og geri. Hann horfir inn í skápinn og hættir að anda. Ég finn hvernig ég byrja að hitna í framan og fæ hálfgerðan aumingjahroll niður eftir bakinu og ónot í magann. Hann dæsir, lítur á mig og segir þetta orð sem konur eiga stundum svo erfitt með að kyngja: “stelpur!

Svo gerir hann heiðarlega tilraun til að færa fötin til á slánni svo hann sjái bakið á skápnum, en án árangurs. Ég er orðin eldrauð í frama og segi við hann að sama hvað hann haldi, þá eigi ég samt engin föt.

Hann segir að fataskápurinn sinn sé einn þriðji af mínum skáp og þar geymi hann öll fötin sín (ég á reyndar bágt með að trúa því..nema þá að skápurinn sé svona svakalega djúpur) Hann eigi þrenn jakkaföt og nokkrar skyrtur og það dugi honum (sem ég líka voðalega bágt með að trúa)

Mér fannst samskipti okkar vera farin að færast á ískyggilega persónulegt plan. Næsta skref yrði líklegast að hann færi að skoða nærfataskúffuna mína eða færi inn í hillu og rækist á... ó nei shit... dótakassinn minn!!!!