englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, janúar 19, 2005

engill

Stundum ákveður maður eitthvað og svo þegar það gengur ekki eftir verður maður voðalega sorgmæddur. Ég lenti í svoleiðis aðstöðu í dag. Í marga tíma var ég með tárin í augunum og "köttinn" í hálsinum (reyndar eiginlega heila kattafjölskyldu- voða erfitt að anda)

Hringdi nokkur símtöl, til að láta vorkenna mér. Sat svo í sófanum og beið eftir að þessi dagur yrði búinn, svo ég gæti farið að sofa. Allt í einu glymur í dyrasímanum. Kominn er engill með gjöf til mín.

Gjöfin var góð og falleg en þó ekki eins góð og falleg og engillinn sjálfur.

Eins og aðrir englar, flögraði hann fljótlega burt - þurfti öðrum að sinna. Eftir sat ég með gjöfina. Eða öllu heldur gjafirnar. Tvær voru þær. Gjöfin sjálf og svo hvötin að gjöfinni.

Kærleikur og umhyggja.

Ég þekki nokkra engla - en engan eins og þennan. Eitthvað gott hef ég gert, úr því ég fæ svona veru inn í mitt líf.