Bækur - 5
Enn glymur í dyrabjöllunni og ég stekk til dyra. Er ekki smiðurinn mættur og ég varla byrjuð að tæma skápinn. Ég rausa eitthvað um stundvísa iðnaðarmenn en er enn með hugann við dótakassann. Á meðan smiðurinn fer úr skónum, stekk ég inn og með snörum handtökum fleygi ég dótinu mínu í ruslið, loka pokanum og mæti smiðnum í dyragættinni.
- Ég þarf aðeins að fara út með ruslið
Sigmar og smiðurinn fara inn í svefnherbergi og skoða aðstæður. Ég heyri að ég er greinilega í náðinni hjá Sigmari. Hann ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur til að ég komi sem best út úr þessu. Hér verður sko ekki svindlað (amk ekki á mér).
Kristján sýndi mikla karlmannlega tilburði þegar hann kom og sýndi mér blæðandi fingur og bað mig um plástur. Sagðist hafa verið full ákafur í rörunum. Hann afþakkaði tattú plástur en leyfði mér að setja “venjulegan” plástur á sig og sagði að þetta væri alls ekki svo slæmt. Ég veit ekki hvort hann var að tala um sárið eða hjúkku hæfileika mína. Ákvað að vera ekkert að spyrja.
Smiðurinn mældi og mældi og sagðist koma aftur seinnipartinn.
Þá vorum við aftur orðin ein. Við þrjú.
Þegar ég kem heim til fólks, þá skoða ég oft í bókahillur þeirra. Út frá þeim bókum sem ég sé, byggi ég oft persónugreiningu mína á viðkomandi fólki. Kristján fór vel í gegnum mínar hillur. Ég hugsaði með mér að hann væri aldeilis að komast að því hvaða mann ég hef að geyma. Fyrst að skoða í fataskápinn minn, svo láta mig hjúkra sér og svo bókahillurnar. Ég veit ekki hvað ég á margar bækur, en þær eru þónokkrar. Mér var allri lokið þegar Kristján tekur eina bók úr hillunni. Bara ein bók að það þurfti að vera þessi!!! Varnir og verjur. Leiðbeiningar um takmörkun barneigna. Með 24 myndum. (frá 1951)
Ég reyndi að halda andlitinu og sagði að þetta væri mjög gagnleg bók. Þarna væru til dæmis mjög ýtarlega leiðbeiningar um það hvernig ætti að þvo og geyma smokka. Og hvaða ráðum konur geti beitt, til að losna við meyjarhaftið fyrir brúðkaupsnóttina.
...þessi endurnýjun á okkar samskiptum var að verða vægast sagt áhugaverð
<< Home