englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Þvílíkt rugl

Um nokkurt skeið hef ég verið að heilsa manni, þegar ég mæti honum úti á götu. Þetta er maður sem ég kannast við úr fortíðinni. Við tölum ekkert saman, bara heilsumst eða brosum til hvors annars.

Sá hann útí búð um daginn, með dóttur sinni. Ég var með syni mínum og kemur í ljós að þau þekkjast. Eru skólasystkini. Þegar við vorum búin að hittast nokkrum sinnum án þess að tala saman ákvað ég að láta slag standa og spjalla við hann þegar ég rakst á hann, ekki alls fyrir löngu.

Við erum búin að tala saman í stutta stund, þegar ég segi við hann að sonur minn þekki dóttur hans. Hann verður voðalega hissa og finnst mér eins og honum finnist það ótrúlegt.
"Já, er hún ekki í Vesturbæjarskóla?"
"Nei, hún er bara fimm ára og er enn í leiksskóla"

hugsi hugsi hugs...hvernig kem ég mér úr þessum ógöngum???

"Nú, þá veit ég bara ekkert hvernig þau þekkjast" segi ég og brosi mínu blíðasta. Þegar hér er komið við sögu eru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég líklegast var að gera það sem ég hef svosem áður gert: verið að heilsa tveimur mönnum.

Annan þekki ég, en hinn ekki.

þegar hann fór að ganga á mig með það hvernig ég vissi yfir höfuð að hann ætti barn, hvað þá hvernig börn okkar þekktust, ákvað ég að gera það sem best er að gera í þessari stöðu: fara undan í flæmingi, brosa og segja: ég veit ýmislegt! Brosa svo aðeins meira og segja að það hafi verið gaman að spjalla, en nú sé tími til að halda áfram.

Áðan hitti ég skólasystur mína, sem er kominn með nýjan kærasta. Ég hafði einmitt séð hana á gangi með "vini mínum" (þessum sem á stelpuna í Vesturbæjarskóla) og á þeim tímapunkti hugsað með mér: "aha... svona er lífið þá" og hélt að hann væri sá sem ég þekkti.

Til að enda þessa hringavitleysu mína, ákvað ég að spyrja hana aðeins nánar út í nýja kærastann. Hún sagði mér einmitt frá dótturinni, og hann starfaði sem fræðimaður á allt öðru sviði en "minn" raunverulegi kunningi.

Og svona rétt til að slá endapunktinn á þetta, þá spurði ég hana hvað maðurinn héti og viti menn og konur... þeir eru nafnar!!!

Hvernig er þetta hægt? Ég bara spyr!!!