Vanlíðan
Ég velti því stundum fyrir mér, afhverju fólk er vont við sig þegar því líður illa.
Borðar of lítið eða of mikið. Drekkur fullt fullt af brennivíni. Hættir að sinna skyldum sínum. Reykir rosalega mikið. Mig langar aldrei eins mikið í sígarettu og þegar mér líður illa. Sé mig fyrir mér í kuðli í einu horni sófans og keðjureyki. Stundum hefur mig langað til að drekka óendanlega mikið af brennivíni en hef ekki látið verða af því (ekki við svona aðstæður sko) vegna þess að þó svo að það sé gott að drekka svona til að byrja með, þá missi ég tökin á vanlíðaninni þegar ég er orðin drukkin.
Ég dofna upp og get þar af leiðandi ekki látið mér líða eins illa og án áfengis. Þegar mér líður illa, vil ég auðvitað að það “læknist” en á sama tíma vil ég viðhalda vanlíðaninni.
Ég held að í verstu vanlíðan sem ég hef upplifað hafi mig langað til að sprauta í mig grænu eitri. Ekki til að láta mér líða vel, heldur ver.
Svo er það hárið. Konur eru gjarnar á að klippa hár sitt ef þeim líður illa. Ég hef reyndar aldrei látið þetta að mér hvarfla. En það er kannski bara vegna þess að hárið mitt verður aldrei betra en “flott klipping”. Þetta er mjög algengt í bíómyndum. Þegar söguhetjan er alveg að snappa, eða á meðan hún er að snappa, þá klippir hún hárið – alltaf mjög illa.
En þetta er ekki bara í bíómyndunum, ég á mjög góða vinkonu sem gerði þetta einu sinni.
Það er vont að horfa á manneskju í sjónvarpinu, grátandi, frávita af óhamingju en berjandi sjálfa sig á sama tíma. En enn og aftur bendi ég á að þetta er ekki bara í sjónvarpinu. Þetta er nær ykkur en þið haldið. Kannski þekkja einhverjir svona viðbrögð hjá sjálfum sér, eða hafa séð til einhvers bregðast svona við.
Af hverju reynum við allt sem við getum til að rífa okkur meira niður? Í stað þess að byggja upp?
Ég bara skil ekki afhverju!
<< Home