englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, febrúar 21, 2005

Strákarnir hennar Jódu

Strákarnir komu í morgun. Fyrst komu Siggi smiður og Jón smiður. Þeir gengu frá svefnherberginu mínu. Jón var reyndar eitthvað óánægður með hvað þeim hafði tekist illa að setja parket fjölina aftur á og ætlaði að fara að rífa þetta allt upp aftur, þegar ég sagði honum að þetta skipti engu máli - þar sem þetta væri nú undir skápnum!
Þeir félagar voru svo þakklátir fyrir viðbrögðin hjá mér að þeir báru í staðinn eitthvað fylliefni í sprungurnar á parketinu frammi á gangi (sama gangi og þeir löguðu listann í, um daginn).
Svo tók Siggi út eldhúsið hjá mér og gaf mér góðar ráðleggingar með hvað ég ætti að gera þar. (Ekki varðandi eldamennsku, heldur svona iðnaðarmannastuff)

Svo kom Rikki. Hann á þurrkuvélina sem ég var með inní svefnherbergi (samskonar græja og ég var með inni á baði um daginn) Hann var nú svo glaður að sjá mig kallinn að ég hélt hann ætlaði að kyssa mig. Svona eftir á að hyggja, var hann kannski ekkert glaður að sjá mig, heldur vélina sína...sem hann reyndi að fá að sækja á föstudaginn en án árangurs.

Svo að lokum var það Örvar múrari. Örvar er sonur Arnar múrara. Ég veit ekki alveg hvað þetta er með feðga og sömu starfsstétti.
Allavegana þá er Örvar búinn að taka gömlu flísarnar og múra upp í holurnar sem Sigmar og hans sonur gerðu. Svo kemur hann á morgun og flísaleggur.

Mér sýnist á öllu að þegar það verður búið, þá sé ég svo heppin að eiga jafnvel von á einum iðnaðarmanni í viðbót - nebblega málara. Ég get vel málað sjálf og kann það bara nokkuð vel, en hins vegar er ég farin að kunna því ágætlega að láta einhvern annan gera svona hluti fyrir mig. Þannig að ef málarinn er inní pakkanum, tek ég hann fegins hendi...samt ekki með fegins hendi...