englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Sorgin

Við ræddum svolítið um sorgina í skólanum í dag. Það er kona sem er að rannsaka sorgarferli kvenna sem missa menn sína. Missa þá hvort sem er í dauða eða bara missa þá eitthvað annað. Það virðist ekki skipta máli hvernig þessar konur tapa mönnum sínum, sorgin er sú sama.
Ég sagði við hana að ég hefði nú nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að fólk sem missir maka sinn sjálfviljugt, gangi líka í gegnum sorgarferli. Kannski ekki eins kraftmikið, en sorgarferli engu að síður. Þá sagði hún mér að fólk sem skildi sjálfviljugt, fengi samt sem áður bækling um sorgina þegar það færi að tala við prest.

Mér finnst þetta merkilegt. En samt svo eðlilegt.

Að vera í sorg er ekki góður staður til að vera á. Anna sálfræðingur sagði í sjónvarpinu að maður ætti umfram allt að passa að vera ekki einn (var þá að vísa til ástarsorgar en ég held að það megi heimfæra þetta yfir á aðrar tegundir sorgar) - en málið er hins vegar að það er oftast hægara sagt en gert að fara að mingla uppfull af sorg. Þá er bara mun auðveldara að halda sig til hlés.

Mér finnst það sorglegt. En samt svo eðlilegt.