englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, febrúar 07, 2005

Frú Elín

Ég er búin að öðlast ákveðinn status í lífinu. Sigurður smiður kallar mig frú Elínu. Ég er frekar sátt við það, þar sem þetta er virðulegur titill. Sigurður er frá Akureyri og kom með annan mann með sér í dag, hann Jóhann frá Ólafsfirði. Ég skal ekki segja hvort ætterni þeirra hafi einhver áhrif en ég fæ mjög góða þjónustu frá þessum piltum.

Þeir eru búnir að snúa heimili mínu á hvolf. Undir parketinu inní svefnherbergi fundum við trégólf og svo nokkrum sentimetrum neðar fundum við steingólf. Þetta er mjög áhugavert. Voða vond lykt, en ekkert bólar á Geirfinni...spurning hvort eitthvað sé undir steingólfinu?

Næsta mál á dagskrá er að fá einhverja slöngu sem á að fara ofan í trégólfið og hinn endinn á að liggja út um svefnherbergisgluggann minn...yfir rúmið. Þetta er gert til að þurrka gólfið.

Ég hló inní mér þegar ég opnaði bréf frá tryggingafélaginu mínu áðan, þar var ávísun stíluð á mig. Ég var nefninlega svo ótrúlega góður viðskiptavinur í fyrra að ég borgaði bara og borgaði og vildi ekkert í staðin. Mér segir svo hugur að ég komi ekki til með að fá sambærilega ávísun í byrjun næsta árs.