englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Konudagar sem aðrir dagar

Það var konudagur um daginn. Bóndadagurinn í upphafi þorra og Valentínusardagur einhversstaðar þarna á milli. Mér heyrðist á umræðunni að flestir hafi tekið þann pólinn í hæðina að taka ekki þátt í amerískum valentínusardegi. Þessi dagur væri hallærislegur og kaupmenn smekklausir að reyna að ginna viðskiptavini sína til að kaupa eitthvað sem þeir geta svo vel verið án. Svo er alltaf góður hópur sem gefur ekki nein blóm eða gjafir á konu og bóndadegi, segist sko ekki standa í svona fáránlegum “kaupmannadögum” gefi bara blóm þegar þau vilja – á einhverjum öðrum, venjulegri dögum.

Ég er svolítið búin að velta þessu fyrir mér. Ég slysaðist til að láta það út úr mér á Valentínusardaginn að mér myndi alveg finnast gaman ef einhverjum sem þætti vænt um mig, myndi láta mig vita af því á þessum degi - og var með það sama stimpluð "smáborgari". Ég tek það þó fram að ég yrði ekkert sérstaklega uppnumin ef ég fengi bangsa, með hjarta í fanginu, með áletruninni “I love you”. Ekki að ég sé eitthvað á móti ástarjátningum, þessi stíll á bara ekki við mig. Ég fékk engar ástarjátningar og enga bangsa og ekkert konfekt. Lifi það af, en held áfram í vonina.

Svo kom konudagurinn. Konudagurinn er miklu skemmtilegri en bóndadagur. Bóndadagur er einhvernveginn fyrir “bóndann” en konudagurinn fyrir konur almennt. Ég fór í göngutúr og hitti fullt af konum, sem voru að fagna þessum degi – einar, saman eða með karlkyns vinum sínum eða elskhugum. Þær óskuðu hverri annarri til hamingju með daginn og nutu þess að eiga hann. Ég fékk eina hamingjuósk frá karlmanni. Það var frændi minn, sem var á leiðinni út í bakarí – sjálfsagt til að kaupa konudagsköku fyrir konuna sína. Hann kallaði hátt og snjallt yfir Laugarveginn “Til hamingju með daginn!”

Mér var reyndar boðið í bíó um kvöldið. Veit ekki hvort að tilefnið var þessi ákveðni dagur. Það var ekkert minnst á það og ég ákvað að vera ekkert að spyrja – algjör óþarfi að gera “deitið” vandræðalegt. Kannski var það bara tilviljun, en hef ákveðið að trúa að svo sé ekki.

Það var nú samt ekki þetta sem ég ætlaði að tala um...

Það sem ég er búin að vera að hugsa og velta fyrir mér er að “við” erum alveg á hnefanum til að vera ekki að gera kaupmönnum til geðs með því að kaupa konfekt og blóm á þessum gjafadögum. En liggjum svo í bollunum í heila viku í kringum bolludag og reynum að drepa okkur af saltkjötsáti. Svo koma jólin og við eyðum og eyðum og eyðum. Svo fermum við börnin okkar og það tekur okkur nokkur ár að greiða það niður... ég gæti haldið endalaust áfram.

Svo segjum við fullum hálsi að við tökum sko ekki þátt í einhverjum fáránlegum amerískum ástardögum – þetta sé ekki íslenskur siður! Fáum okkur svo hamborgara í kvöldmat og skolum honum niður með kókakóla – best ef það er nú McDonalds.