englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Sorg eða léttir?

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að ná að standa undir þeirri ábyrgð að vera í sambýli með öðru fólki. Ég tala nú ekki um þegar þetta fólk er læknir, lögfræðingur og hagfræðingur.

Ég var á húsfundi í gær - nei - ég var með húsfund í gær. Ég er nefninlega húsvörður á ásvallagötunni. Það á að ráðast í framkvæmdir. Ég sagði þeim fyrir jól að akkúrat nákvæmlega núna væri ekkert sérstaklega góður tími fyrir mig að fara út í stórframkvæmdir.
Ég sagði þeim það skýrt og skilmerkilega og ákvað því að endurtaka það ekki í gærkvöldi. Hugsaði með mér að ef þau væru með það slæmt minni að þau væru búin að gleyma því sem ég hafði sagt, þá væru margir sjúklingar í hættu og KB banki færi líklegast bráðum á hausinn.

Það lá eitt tilboð fyrir og hljóðaði það upp á 350þús. Ekki svo svakalegt. Ég hugsaði með mér að ég gæti sjálfsagt kyngt mínum hlut af þeirri upphæð. Gæti reddast. Ég segi ekki orð.

En svo var það teppið...og ásvallagatan skal svo sannarlega aðeins fá það besta og teppið er sérpantað frá útlöndum. 250 þús. Enn ákvað ég að þegja.

Og svo segir læknirinn (þau ykkar sem hafa lesið bloggið mitt frá upphafi, þá er það sami maður og hefur aldrei komið inn í Bónus - gat verið) : Jóda mín, ég veit alveg að aðstæðurnar eru kannski ekki upp á það besta hjá þér (jæja, gott fyrir sjúklingana hans) en ég er nú orðinn svo gamall maður að ég vil bara gera þetta allt í einu og held að við ættum að kaupa nýjar hurðir í leiðinni. 200 þús. Enn þegi ég. Hins vegar grét ég örvæntingarfullum gráti inní mér, ekki vegna mín, heldur þeirra.

Ef ég tryði ekki á líf eftir dauðann, myndi ég hiklaust vísa kattarófétinu sem býr í leyfisleysi í húsinu, út á gaddinn. Ég veit að það væri kannski ekki óskastaða fyrir eigendurna en ég er nú bara ung kona sem er með ofnæmi fyrir köttum. En ég trúi á líf eftir dauðann...

Minn hlutur er uþb 170 þús. og eins og ég sagði þá er ég búin að vera að hugsa og hugsa og hugsa. Komst svo að þeirri niðurstöðu að ég gæti kannski selt bílinn minn. Þannig að ég spyr: er einhver, eða einhver sem þekkir einhvern sem myndi vilja fjárfesta í drossíunni minni?
Gengur eins og klukka, góð sál og náttúrulega alveg tryllingslega flottur!