englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, september 06, 2005

Af hverju?

Ég er komin í nýja vinnu. Það er nokkuð gaman í þessari vinnu, ég er að takast á við fullt af spennandi og krefjandi verkefnum. Mér finnst yfirleitt gaman, en ekki alltaf. Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvað maður er skrítinn. þegar eitt er ekki gaman, er eins og hitt verði ekki gaman heldur. þegar mann langar til að leggjast út af á einum stað, langar mann að liggja bara út í eitt.

Ég veit nú alveg að ég læt þetta ekki ná tökum á mér. Ég kem ekkert til með að liggja, hvorki þar né hér.

En það er samt gaman að spá í það, hvað maður er einfaldur eftir allt saman. þarf oft ekki annað til en eitt urr, eitt öðruvísi en planað var, eitt bros eða klapp á bakið - til að breyta viðhorfi manns til alls annars.

Já stuðning. Það er kannski það sem hjálpar manni í gegnum allt. Ef maður finnur stuðning þeirra sem manni standa næstir. "Ég skil ekki endilega hvað þú gerir, og hef ekki endilega áhuga á því, en ég styð þig og ég er tilbúin til að tala við þig og sýna þér að líðan þín skiptir mig máli" það er kannski svoleiðis hugsunarháttur og viðhorf sem hjálpar manni í gegnum dagana...