englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, ágúst 22, 2005

menning

Við mæðginin vorum því miður aðskilin á menningarnótt. Við ætluðum að reyna að hittast (þ.e. rekast á hvort annað) en einhverra hluta vegna gekk það ekki alveg upp.
En hann kom í heimsókn daginn eftir og þá spjölluðum við aðeins um daginn og kvöldið.
Hann spurði að sjálfsögðu hvernig mér hafði gengið í hlaupinu og var bara eftir allt saman nokkuð sáttur við að ég hefði bara farið hálft maraþon. Reyndar var hann greinilega ekki alveg sáttur við að ég hefði bara lent í 26. sæti í mínum flokki, en medalían var flott.
- Vá mamma, þetta er stærsta medalía sem þú hefur fengið!!!

Við ræddum pínu um gildi þess að vera með og ekki endilega vinna sér inn sæti á verðlaunapalli... bla bla bla... (fannst honum a.m.k.)

- Sástu Rúslönu?
- Ha? var hún að spila á menningarnótt?
- Já, en ekki á stóra sviðinu. Hún var á litla sviðinu!
- Nei, ég hef bara alveg misst af því.
- Já, ég líka.

- Sástu fulla manninn?
- hmmm... það getur verið
- var hann í hvítum bol?
- tja..jafnvel
- þá er það sá sami og ég sá

- En sástu fullu konuna?
- örugglega
- var hún að syngja og henda rusli?
- nei, það held ég ekki
- þá hefur það ekki verið sú sama

- Sástu flugeldasýninguna?
- Já, sást þú hana líka?
- Já
- Gaman, þá höfum við verið að horfa á hana á sama tíma
- Já, fannst þér ekki gaman þegar allir voru að telja?
- Jú, það heitir að telja niður.
- Já, taldir þú?
- Já, ég líka

Þannig að þegar upp er staðið þrátt fyrir að við höfum ekki náð að hittast, þá töldum við saman niður og horfðum saman á flugeldasýningu í grenjandi rigningu og sáum fulla manninn í hvíta bolnum. Hjörtun slóu saman þó við héldumst ekki í hendur. Það gerðum við bara á sunnudaginn.