englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Hjálmar fyrir allan peninginn

Fór loksins að hlusta á Hjálma í gærkvöldi. Mikið sem það var nú gaman. Fannst reyndar undarlegt að ganga inn í reykelsismökk á Nasa. Þriðji hver maður gekk um með reykelsi í hönd. Miðað við tónlist Hjálma, dró ég þá ályktun að reykelsinsstækjan væri til að eyða annarri lykt. En ég veit svosem ekkert um það.

Húsið var stútfullt og þakkanði ég fljótlega fyrir að hafa endað í pilsi í stað gallabuxna. Tónlistin er náttúrulega skemmtileg, og gaman að fylgjast með þeim flytja hana. Greinilegt að hljómsveitarmeðlimir eru vinir sem hafa gaman af því að spila saman tónlist.

Flóra gesta var mikil. Fannst mér venjulegt fólk sem óvenjulegt fólk (hvernig sem sú aðreining á sér stað) vera jafn áberandi. Stórt og lítið, en þó fleiri ungir en aldnir - þó vissulega sé aldur afstæður.

Nokkrir frekar skemmtilegir karakterar voru sjáanlegir og verður þeim vonandi gerð skil seinna meir.

Mikið skemmti ég mér vel, dillandi mér við upplífgandi, seiðandi tónlist í góðum félagsskap...