englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Heimur okkar allra

Það er svo merkilegt að þegar maður lítur úr sínum eigins rassi, þá er bara fullt af öðru fólki til, sem er að gera fullt af skemmtilegum, skrítnum og sniðugum hlutum.
Ég fór í sveitaferð um síðustu helgi. Í sveitinni veiddi ég 57 fiska og gerði að þeim (ok ekki öllum, var pínu hæg til verka) og svo sigldi ég upp að Langjökli og hlustaði á hann stynja. Ég stakk hendinni ofan í vatnsuppsprettu. Á meðan ég var stödd í þessum ævintýra heimi var fólk að marsera niður Laugarveginn í skrautlegum klæðnaði og fagnaði innilega. Gleðin þeirra var ekkert síðri en mín, kannski bara öðruvísi. En það þarf ekkert einu sinni að vera að hún hafi verið öðruvísi. Gleðin yfir ástandi, fallegu ástandi.

Ólíkt mögum þeirra sem marseruðu niður aðal verslunargötu Reykjavíkur, var ég ekki timbruð á sunnudaginn. Ég var enn í vímu. Hreint súrefni og símasambandsleysi getur gert manni gott.

Annað er kannski ekki eins gott. Það virðist sem að á sama tíma og ég hélt upp á 32 ára afmæli mitt, var gamall maður að deyja í Noregi, ofan í blaðið sitt. Enginn saknaði hans. Það var ekki fyrr en tryggingafélagið tilkynnti að gamli hefði ekki sótt bæturnar sínar í 9 mánuði, að farið var að grenslast um hann. Og fannst hann látinn.

Reyndar minnir mig að ég hafi ekki haldið upp á afmælið mitt á neinn hátt og jafnvel verið eitthvað ófestlige. Kannski það hafi verið samúðin fyrir þeim sem deyja einir og enginn saknar?


Veltið því fyrir ykkur þegar þið lesið þessi orð, hvað hinir í heiminum eru að gera á þessum tímapunkti.

Njótið tilverunnar!