englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, júlí 29, 2005

Jæja, loksins

Jæja þá er ég komin með skjá og get hafið frásögn af ferðum mínum og sonar míns um heimsins höf og lönd. En veit ekki alveg hvar ég á að byrja, fæ svipaða tilfinningu og þegar ég lít yfir íbúðina mína og mér fallast hendur... svo mikið að gera að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ætli ég geri ekki eins og þegar ég byrja að taka til...á fötunum.

Við keyptum föt.

En fyrst fórum við í Legoland. Má eiginlega segja að ástæðan fyrir því að ég þarf ekki að fara í útilegu þessa helgi er sú að ég fór í útlilegu í Legolandi. Legoland er frábær skemmtigarður. Fyrir þá sem ekki hafa farið þangað, þá er einn dagur eiginlega ekki nóg. Taka tvo daga í þetta.
Ferðin varð reyndar hálf endasleppt hjá okkur Sverri, þar sem honum tókst að togna í hálsinum í stærsta rússíbananum. Við þurftum að fara með sjúkraleigubíl í næsta bæ og hitta lækni. Læknirinn gaf grænt ljós á að farið væri í Tivolí helgina á eftir.

Sú ástæða sem sonurinn gaf fyrir tognuninni var sú að þegar við fórum niður fyrstu brekkuna, þá öskraði hann og opnaði þ.a.l. munninn upp á gátt og þá kom voðalega mikill vindur upp í munninn á honum og hann tognaði í hálsinum.

Ég viðurkenni fúslega að ég átti mjög erfitt með að halda tárunum inní augunum og hnúturinn í maganum var voða voða stór. En einhverra hluta vegna treysti ég þessum sænska lækni (sem talaði við mig á einhverskonar skandinavísku og ensku við sverri) og eftir að heim í tjald var komið og tveir bjórar komnir í magann, leystist hnúturinn og tárin fóru aftur inn í pokana.

Rennandi blaut og frekar köld sofnuðum við svo öll svefni þeirra sem eiga hann skilið og sváfum alveg þangað til við vöknuðum.