Bleikur
Í gær kom ég mér loksins í það að byrja að mála. Málaði loftið. Fyrir áhugasama amatöra þá er komin á markað snilldar loftmálning, sem er ljósbleik en verður hvít þegar hún þornar. Sem þýðir enga helgidaga.
Ég varð svo fúl þegar gaurinn í BYKO sletti málningu á Sverri, þegar við vorum að kaupa græna málningu um daginn að ég gleymdi að kaupa málningu á veggina. Þannig að nú er bara að spartsla og skella sér svo aftur í BYKO.
Veit þó ekki alveg hvað mikið kemst í verk fyrir laugardaginn...þar sem næstum hver andardráttur og hugsun verður tileinkuð maraþoninu.
Talandi um maraþon. Sagði Sverri í morgun að ég væri að fara að hlaupa í maraþoni á laugardaginn. Brúnin lyftist á honum - það sem hann er endalaust stoltur af móður sinni...en brúnin seig jafn fljótt niður og hún hafði risið, þegar ég sagði honum að ég ætlaði að hlaupa hálft maraþon. Eitthvað voðalega lélegt við að gera eitthvað til hálfs. Hann tilkynnti mér að hann ætlaði að hvetja mig þegar ég hlypi heilt maraþon.
<< Home