englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, janúar 31, 2005

Damn

Ég fór í alvörunni næstum því að gráta þegar Örn múrari (og flísakall) sagði að því miður sæi hann ekkert annað í stöðunni en að taka flísarnar niður og leggja þær aftur!

Stundum verður maður svo mikill aumingi inní sér. Ég sem var svo ótrúlega stolt af mér að geta lagt þessar flísar...er ekkert endilega svo stolt lengur.

Ef ég fer ekki bráðum að fá vinnu er ég að hugsa um að fara í Iðnskólann til að læra einhverja góða og gagnlega iðn.

Þvílíkur mánudagur!

sunnudagur, janúar 30, 2005

Best

Það er fátt yndislegra en fallegur maður sem talar um ást og umhyggju.

laugardagur, janúar 29, 2005

Að gefnu tilefni

Að gefnu tilefni langar mig til að segja frá því að það er langt síðan mér hefur liðið eins vel og mér líður þessa dagana. Ég tók erfiða ákvörðun og óx mikið sem manneskja við hana. Það er bjart hjá mér og ég er glöð.

Það eina sem angrar mig er að ég er því miður ekki eins mikill iðnaðarmaður/kona í mér og ég hef hingað til verið að halda fram. Mig bráðvantar flísalagningamanneskju sem er til í að vinna fyrir afskaplega lítinn pening. (Alveg án gríns)

föstudagur, janúar 28, 2005

Vanlíðan

Ég velti því stundum fyrir mér, afhverju fólk er vont við sig þegar því líður illa.
Borðar of lítið eða of mikið. Drekkur fullt fullt af brennivíni. Hættir að sinna skyldum sínum. Reykir rosalega mikið. Mig langar aldrei eins mikið í sígarettu og þegar mér líður illa. Sé mig fyrir mér í kuðli í einu horni sófans og keðjureyki. Stundum hefur mig langað til að drekka óendanlega mikið af brennivíni en hef ekki látið verða af því (ekki við svona aðstæður sko) vegna þess að þó svo að það sé gott að drekka svona til að byrja með, þá missi ég tökin á vanlíðaninni þegar ég er orðin drukkin.

Ég dofna upp og get þar af leiðandi ekki látið mér líða eins illa og án áfengis. Þegar mér líður illa, vil ég auðvitað að það “læknist” en á sama tíma vil ég viðhalda vanlíðaninni.
Ég held að í verstu vanlíðan sem ég hef upplifað hafi mig langað til að sprauta í mig grænu eitri. Ekki til að láta mér líða vel, heldur ver.

Svo er það hárið. Konur eru gjarnar á að klippa hár sitt ef þeim líður illa. Ég hef reyndar aldrei látið þetta að mér hvarfla. En það er kannski bara vegna þess að hárið mitt verður aldrei betra en “flott klipping”. Þetta er mjög algengt í bíómyndum. Þegar söguhetjan er alveg að snappa, eða á meðan hún er að snappa, þá klippir hún hárið – alltaf mjög illa.
En þetta er ekki bara í bíómyndunum, ég á mjög góða vinkonu sem gerði þetta einu sinni.

Það er vont að horfa á manneskju í sjónvarpinu, grátandi, frávita af óhamingju en berjandi sjálfa sig á sama tíma. En enn og aftur bendi ég á að þetta er ekki bara í sjónvarpinu. Þetta er nær ykkur en þið haldið. Kannski þekkja einhverjir svona viðbrögð hjá sjálfum sér, eða hafa séð til einhvers bregðast svona við.

Af hverju reynum við allt sem við getum til að rífa okkur meira niður? Í stað þess að byggja upp?

Ég bara skil ekki afhverju!

Mental note!

Alls ekki fara út úr húsi á morgnanna án þess að drekka kaffið þitt. Amk ekki ef þú þarft að koma aftur inn og rúmið er óumbúið!

Jésúss pétur

Er smuga á að Bjartmar Guðlaugsson sé á einhverju í þættinum hjá honum Jóni Ólafssyni???

fimmtudagur, janúar 27, 2005

úrelt - úrsérgengið - dautt

Hérna - Taktu það
Bíttu í það - skerðu í það
Éttu það – skyrptu því út úr þér
Hentu því upp í loftið – notaðu það sem körfubolta
Nú eða fótbolta - það er frjáls aðferð
Eldaðu það – gefðu hundunum það
Stingdu spjótum í gegnum það – grillaðu það

Þú mátt gera hvað sem þú vilt
Ég er búin að slíta það svo oft úr mér að það passar ekki lengur
Engir taugaendar eftir til að græða við það
Hef líka sýnt að ég hef ekkert með það að gera að eiga það
Kann ekkert að fara með svona grip

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Hlutir sem ég ekki skil



það þarf að stafa þetta ofan í mig!
Þessa dagana er mikið rætt um hækkandi hitastig loftlagsins og þær hörmulegu afleiðingar sem það kemur til með að hafa á heiminn. Ég, eins og sjálfsagt fleiri íslendingar, hef bara hugsað mér gott til glóðarinnar og ekki geta beðið eftir því að leggja nagladekkjunum og ullarsokkunum.

En nei

Það sem þeir (þeir þarna, hverjir sem það nú eru) segja er að ekki verði aftur snúið ef við pössum okkur ekki og Grænlandsjökull gæti bara bráðnað og Golfstraumurinn heyri sögunni til. Í kjölfarið af þessum atburðum verður Ísland óbyggilegt.

það sem mér finnst alveg vanta í þennan hræðsluáróður er að segja mér (og ykkur hinum sem ekki skiljið þetta heldur) hvernig Ísland verður óbyggilegt. Verður það af því að Ísbirnirnir koma allir hingað? Eða af því að allt vatnið úr Grænlandsjökli gæti drekkt landinu? Eða er málið með Golfstrauminn? Ef hann hættir að vera, fáum við þá ekkert andrúmsloft???? Ég meina ég bara skil þetta ekki!
--------------------------------------------------------------------------------

Stund barnanna okkar

Í Fréttablaðinu er á hverjum degi lítil auglýsing frá DV , þar sem stærsta mál blaðsins er tíundað. Í dag er fyrirsögnin "Foreldrar reiðir. Dóp, morð og nauðganir í Stundinni okkar"
Ég verð að viðurkenna að ég missti af þessu með dópið og morðið og nauðganirnar (og hef ekki lesið greinina í DV)
hins vegar horfði ég á hluta af þessum klassíska sjónvarpsþætti síðastliðinn sunnudag. Það sem ég sá voru tvö söngatriði. Ég hafði það á tilfinningunni að þetta væri atriði úr einhverjum söngskóla. Stór hópur barna og í hvoru atriði fyrir sig söng eitt barn aðalasönginn. Fyrst kom strákur sem var að rappa og rappaði hann um kellingar, druslur og brennivín - sem betur fer var hann það óskýr í máli að ég heyrði ekki allt sem hann sagði (o.þ.a.l. væntanlega ekki börnin sem voru að horfa á)

Seinna atriðið var mun skýrara kveðið. Þar var ung stúlka að tala við sinn guð. Hún var að biðja hann um að hjálpa sér. Bað hann um að láta hana grennast, svo hún endaði ekki sem fituklessa sem dansaði ein.

Eðlilega brá mér töluvert og jafnvel hugsaði mér að láta í mér heyra. Það væri skemmtilegt að heyra hvaða mögulegar afsakanir stjórnendur þáttarins gætu haft fyrir því að sýna svona atriði.
Það gæti líka verðið félagslega áhugavert að fá að kíkja í þennan ímyndaða söngskóla. Nú eða að fá að hitta foreldra blessaðra barnanna, sem væntanlega hafa verið að hjálpa þeim við undirbúninginn fyrir frægðarstund í Stundinni okkar.


þriðjudagur, janúar 25, 2005

Loksins

Loksins átti ég dag eins og ég er búin að vera að reyna að eiga síðan um áramótin.
Ég vaknaði vel fyrir hádegi, gerði stöff og sofnaði ekkert.

Vann í ritgerðinni minni og sótti um vinnu.

Fór út að hlaupa og lenti í kappi við einhvern brjálæðing – auðvitað vann ég kappið (sem segir okkur að hann sé brjálæðingur eða ég???)
Kannski vissi greyið ekki að hann væri í kappi við mig? Jæja það er bara verst fyrir hann.

Skrifaði þrjú bréf og sendi þau öll. Og það er sko afrek. Allt efni sem hefur legið töluvert á mér. Mjög erfitt að opna sig svona og láta fólk vita hvað er í gangi í sálartetrinu.
Eitt bréfið var erfiðast. Enda blæðir mér enn. Sjáum hvað setur.

Þegar ég var svo á leiðinni í pottinn, var mér boðið í mat. Þannig að ég rétt náði að heyra eina slúðursögu um okkar ástkæra landbúnaðarráðherra. – sem samkv. einum af fastagestunum hefur nú aldrei verið talinn gáfaður af neinum í pottinum. (sel það ekki dýrara en ég keypti það)
Svo heyrði ég líka smá slúður um Kárahnjúkavirkjun. En tók ákvörðun um að segja ekkert um það mál. Vil ómögulega vera að hræða fólk sem á einhverja ástvini þarna fyrir austan.

Klikkaður matur og auðdrekkanlegt rauðvín. Góður tími með enn betra fólki.

Ég er sátt. Finnst eins og dagurinn í dag hafi verið á mínu valdi. Það er góð tilfinning. Svona til tilbreytingar.

mánudagur, janúar 24, 2005

Uppgötvun

Þessi helgi er búin að vera eitthvað svo full af öllu. Full tilfinninga. Full þroska. Full óþroska. Full lærdóms og uppgötvana.
Umkringd góðu fólki, en samt uppfull söknuðar. Umkringd ást en þó svo ástlaus.
Full gleði en þó svo ósköp sorgmædd.

Ég komst að því að maður verður að hlusta fyrst og fremst á sitt hjarta. Maður getur ekki ákveðið að svona (eins og hjá hinum) eigi líf manns að vera. Mitt líf er alveg einstakt í sinni röð.

Það hugsar enginn eins og ég, er enginn eins og ég og því veit enginn nema ég hvernig best er fyrir mig að haga hlutunum.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Þvílíkt rugl

Um nokkurt skeið hef ég verið að heilsa manni, þegar ég mæti honum úti á götu. Þetta er maður sem ég kannast við úr fortíðinni. Við tölum ekkert saman, bara heilsumst eða brosum til hvors annars.

Sá hann útí búð um daginn, með dóttur sinni. Ég var með syni mínum og kemur í ljós að þau þekkjast. Eru skólasystkini. Þegar við vorum búin að hittast nokkrum sinnum án þess að tala saman ákvað ég að láta slag standa og spjalla við hann þegar ég rakst á hann, ekki alls fyrir löngu.

Við erum búin að tala saman í stutta stund, þegar ég segi við hann að sonur minn þekki dóttur hans. Hann verður voðalega hissa og finnst mér eins og honum finnist það ótrúlegt.
"Já, er hún ekki í Vesturbæjarskóla?"
"Nei, hún er bara fimm ára og er enn í leiksskóla"

hugsi hugsi hugs...hvernig kem ég mér úr þessum ógöngum???

"Nú, þá veit ég bara ekkert hvernig þau þekkjast" segi ég og brosi mínu blíðasta. Þegar hér er komið við sögu eru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég líklegast var að gera það sem ég hef svosem áður gert: verið að heilsa tveimur mönnum.

Annan þekki ég, en hinn ekki.

þegar hann fór að ganga á mig með það hvernig ég vissi yfir höfuð að hann ætti barn, hvað þá hvernig börn okkar þekktust, ákvað ég að gera það sem best er að gera í þessari stöðu: fara undan í flæmingi, brosa og segja: ég veit ýmislegt! Brosa svo aðeins meira og segja að það hafi verið gaman að spjalla, en nú sé tími til að halda áfram.

Áðan hitti ég skólasystur mína, sem er kominn með nýjan kærasta. Ég hafði einmitt séð hana á gangi með "vini mínum" (þessum sem á stelpuna í Vesturbæjarskóla) og á þeim tímapunkti hugsað með mér: "aha... svona er lífið þá" og hélt að hann væri sá sem ég þekkti.

Til að enda þessa hringavitleysu mína, ákvað ég að spyrja hana aðeins nánar út í nýja kærastann. Hún sagði mér einmitt frá dótturinni, og hann starfaði sem fræðimaður á allt öðru sviði en "minn" raunverulegi kunningi.

Og svona rétt til að slá endapunktinn á þetta, þá spurði ég hana hvað maðurinn héti og viti menn og konur... þeir eru nafnar!!!

Hvernig er þetta hægt? Ég bara spyr!!!

miðvikudagur, janúar 19, 2005

engill

Stundum ákveður maður eitthvað og svo þegar það gengur ekki eftir verður maður voðalega sorgmæddur. Ég lenti í svoleiðis aðstöðu í dag. Í marga tíma var ég með tárin í augunum og "köttinn" í hálsinum (reyndar eiginlega heila kattafjölskyldu- voða erfitt að anda)

Hringdi nokkur símtöl, til að láta vorkenna mér. Sat svo í sófanum og beið eftir að þessi dagur yrði búinn, svo ég gæti farið að sofa. Allt í einu glymur í dyrasímanum. Kominn er engill með gjöf til mín.

Gjöfin var góð og falleg en þó ekki eins góð og falleg og engillinn sjálfur.

Eins og aðrir englar, flögraði hann fljótlega burt - þurfti öðrum að sinna. Eftir sat ég með gjöfina. Eða öllu heldur gjafirnar. Tvær voru þær. Gjöfin sjálf og svo hvötin að gjöfinni.

Kærleikur og umhyggja.

Ég þekki nokkra engla - en engan eins og þennan. Eitthvað gott hef ég gert, úr því ég fæ svona veru inn í mitt líf.




Arghh

Þetta virðist ætla að vera eitthvað þrálátt. Tölvan er aftur orðin lasin og liggur nú á spítalanum.
Ég vona að ég fái hana fyrir helgi. Ég meina hvernig ætti ég að meika helgina án tölvunnar?
Ég get ómögulega BARA drukkið rauðvín.

mánudagur, janúar 17, 2005

Bækur - 5

Enn glymur í dyrabjöllunni og ég stekk til dyra. Er ekki smiðurinn mættur og ég varla byrjuð að tæma skápinn. Ég rausa eitthvað um stundvísa iðnaðarmenn en er enn með hugann við dótakassann. Á meðan smiðurinn fer úr skónum, stekk ég inn og með snörum handtökum fleygi ég dótinu mínu í ruslið, loka pokanum og mæti smiðnum í dyragættinni.

- Ég þarf aðeins að fara út með ruslið

Sigmar og smiðurinn fara inn í svefnherbergi og skoða aðstæður. Ég heyri að ég er greinilega í náðinni hjá Sigmari. Hann ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur til að ég komi sem best út úr þessu. Hér verður sko ekki svindlað (amk ekki á mér).

Kristján sýndi mikla karlmannlega tilburði þegar hann kom og sýndi mér blæðandi fingur og bað mig um plástur. Sagðist hafa verið full ákafur í rörunum. Hann afþakkaði tattú plástur en leyfði mér að setja “venjulegan” plástur á sig og sagði að þetta væri alls ekki svo slæmt. Ég veit ekki hvort hann var að tala um sárið eða hjúkku hæfileika mína. Ákvað að vera ekkert að spyrja.

Smiðurinn mældi og mældi og sagðist koma aftur seinnipartinn.

Þá vorum við aftur orðin ein. Við þrjú.

Þegar ég kem heim til fólks, þá skoða ég oft í bókahillur þeirra. Út frá þeim bókum sem ég sé, byggi ég oft persónugreiningu mína á viðkomandi fólki. Kristján fór vel í gegnum mínar hillur. Ég hugsaði með mér að hann væri aldeilis að komast að því hvaða mann ég hef að geyma. Fyrst að skoða í fataskápinn minn, svo láta mig hjúkra sér og svo bókahillurnar. Ég veit ekki hvað ég á margar bækur, en þær eru þónokkrar. Mér var allri lokið þegar Kristján tekur eina bók úr hillunni. Bara ein bók að það þurfti að vera þessi!!! Varnir og verjur. Leiðbeiningar um takmörkun barneigna. Með 24 myndum. (frá 1951)

Ég reyndi að halda andlitinu og sagði að þetta væri mjög gagnleg bók. Þarna væru til dæmis mjög ýtarlega leiðbeiningar um það hvernig ætti að þvo og geyma smokka. Og hvaða ráðum konur geti beitt, til að losna við meyjarhaftið fyrir brúðkaupsnóttina.

...þessi endurnýjun á okkar samskiptum var að verða vægast sagt áhugaverð

laugardagur, janúar 15, 2005

Sonur Sigmars - 4

Ég þakkaði mínu sæla fyrir að hafa hitt hann á barnum þarna um daginn. Þar höfðum við náð að klára þetta beisik dæmi sem þarf að klára, þegar fólk hittist aftur eftir mörg ár. Þannig náðum við að hafa það “eðlilegt” á okkar milli. Eða svona eins eðlilegt og það getur orðið, þegar ein manneskja er að míga á sig af hlátri, með slef út á miðjar kinnar og hin manneskjan er sonur Sigmars.

Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvort hann væri svona afslappaður í minn garð, vegna okkar fyrri kynna eða vegna þess að hann kippti í kynið. En þegar pabbi hans fór út í bíl að ná í einhverja sög, þá stormaði gamli elskhuginn inn í svefnherbergi og vildi fá að kíkja inn í skápana mína.

Þeir feðgar voru búnir að segja mér að það væri búið að hafa samband við smið, sem ætlaði að skoða skápana og því þyrfti ég að tæma þá. Ég var rétt byrjuð að dúlla mér í litla horninu sem ég náðasamlegast leyfi Sverri að geyma fötin sín í, en nei, það var ekki það horn sem elskhuginn hafði áhuga á.

(Til að fyrirbyggja allan misskilning hætti ég hér með að kalla hann elskhuga og kalla hann sínu rétta nafni: Kristján)

Hann rauk beint að skápnum þar sem ég geymi kjólana mína og pilsin og annað tilfallandi. Bíður eftir að ég opni hann. Sem ég og geri. Hann horfir inn í skápinn og hættir að anda. Ég finn hvernig ég byrja að hitna í framan og fæ hálfgerðan aumingjahroll niður eftir bakinu og ónot í magann. Hann dæsir, lítur á mig og segir þetta orð sem konur eiga stundum svo erfitt með að kyngja: “stelpur!

Svo gerir hann heiðarlega tilraun til að færa fötin til á slánni svo hann sjái bakið á skápnum, en án árangurs. Ég er orðin eldrauð í frama og segi við hann að sama hvað hann haldi, þá eigi ég samt engin föt.

Hann segir að fataskápurinn sinn sé einn þriðji af mínum skáp og þar geymi hann öll fötin sín (ég á reyndar bágt með að trúa því..nema þá að skápurinn sé svona svakalega djúpur) Hann eigi þrenn jakkaföt og nokkrar skyrtur og það dugi honum (sem ég líka voðalega bágt með að trúa)

Mér fannst samskipti okkar vera farin að færast á ískyggilega persónulegt plan. Næsta skref yrði líklegast að hann færi að skoða nærfataskúffuna mína eða færi inn í hillu og rækist á... ó nei shit... dótakassinn minn!!!!



föstudagur, janúar 14, 2005

Pólverjar - 3

Sigmar var búinn að segjast koma kl níu, þannig að ég snúsaði til 8:50. Átti ekki von á honum fyrr en í fyrsta lagi kl 10. Ég var rétt komin í buxur og búin að tannbursta mig, þegar dyrasíminn gefur frá sér sín skerandi óhljóð. Sigmar var kominn og allt í rúst. Það kom ekki að sök, því Sigmar elti mig bara um íbúðina á meðan ég gerði morgunverkin.

“Við” fórum að ræða innflytjendur á Íslandi og sagði Sigmar mér t.d. ýmislegt um pólska innflytjendur á meðan ég bjó um rúmið mitt. En hann hélt að það væru frekar tælendingar og rússar að vinna á Grund. Ég var farin að sjá fyrir frekar erfiðan dag og spyr í örvæntingu hvort hann verði einn eftir allt saman? Nei, félagi hans var á leiðinni.

Ég var orðin frekar spennt að sjá hver væri félagi Sigmars. Hvernig eru vinnufélagar Sigmars? Eins og hann? Eða “góði hlustandinn” týpan? Þegar dyrasíminn emjaði aftur, fannst mér hljóðið alls ekki vera svo slæmt. Bara nokkuð kærkomið. Ég fór fram á gang til að taka á móti félaganum...

Varla klædd...með hárið allt út í loftið, stýrur í augunum og slefið á kinnunum...

- Góðan daginn..nei, hæ!!!

Gengur ekki elskhuginn gamli niður tröppurnar hjá mér.
Ég hélt ég myndi míga á mig, auðvitað var Sigmar pabbi hans...


fimmtudagur, janúar 13, 2005

Fortíðardraugur - 2

Einu sinni fyrir mörgum árum, þegar ég var ung stelpa, átti ég einhverskonar elskuga. Þessi strákur var að læra að vera pípari, eins og pabbi hans og unnu þeir feðgar saman. Rétt um það leiti sem við hættum að elskast saman, sprakk klóakið heima hjá mér – hljómar ekki eins slæmt og það í raun var.

Nema hvað að þegar ég kem heim úr skólanum, þá var verið að vinna í þessu: pabbinn, elskhuginn og besti vinur hans. Ég viðurkenni fúslega að ég skammaðist mín örlítið.
Árin liðu og ég sá hann ekki meir. Ég frétti þó af honum annað slagið í gegnum sameiginlega vini. Held að ég geti sagt með vissu að ég hafi ekki séð hann í a.m.k. 12 ár, eða þangað til um daginn.

Hittumst á bar og rifjuðum upp gamla tíma. Mér til mikills hryllings var minnið hans það gott að hann mundi vel eftir klóakinu sprungna. Við hlógum að gömlu tímunum. Tímunum þegar maður var ungur og saklaus og lék sér þar sem vindurinn blés manni.
Þegar var kominn tími til að kveðjast, kvöddumst við. Ég hugsaði með mér að þetta hefði nú verið skemmtilegt - Lifandi fortíðardraugur.

Framhald....

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Sigmar pípari - 1

Mér finnst voðalega gott að gera ekki allt í einu, eiga eitthvað eftir til að hlakka til. Ekki rjúka upp um öll fjöll í einu og ekki lesa allar bækur stax o.s.frv. Eitt af því sem ég hef verið að spara mér er að hringja í tryggingafélagið mitt og fá mann til að meta rakann hjá mér. Hef nefninlega haft það svolítið lengi á tilfinningunni að hann væri aaaaðeins meiri en hann ætti að vera. Svo missti einhver það út úr sér að þetta væri auðvitað tryggingamál...þannig að ég hringdi.

Sigmar pípari kom áðan – með mæligræjuna sína.

Ég sagði honum að ég hafi fyrst haldið að Geirfinnur væri falinn bak við skápinn inní svefnherbergi. Sumir myndu flokka það undir mistök.

Fyrir þá sem ekki þekkja til íbúðar minnar, þá er baðherbegið lítið og gluggalaust. Ég stend þar inni og Sigmar stendur í dyragættinni og ég býð eftir því að hann byrji að mæla, en nei, hann hafði annað í huga. Hann þurfti aðeins að ræða við mig um Geirfinn (ekki þennan ímyndaða inní svefnherbergi, heldur orginallinn).

Það var nefninlega eitt sem þeir skoðuðu aldrei, en það var að konan hans Geirfinns hélt framhjá honum. Og um leið og Geirfinnur var horfinn, flutti viðhaldið út frá konunni sinni og inn til konu Geirfinns. (Þegar hér var komið við sögu, hélt ég að hann væri búinn og færi bráðum að mæla – en nei aldeilis ekki)

Hann sagði mér frá Klúbbnum og Kidda sem var glæpamaður, rétt eins og allir Framsóknarmenn.

Sigmar gleymir aldrei þeim ráðum sem móðir hans (á níræðisaldri) gaf honum: alltaf að treysta innra gutsi. Svo sagði hún við hann: “myndir þú treysta Finni Ingólfssyni fyrir 1000kalli?” Og Sigmar svara: “nei, svo sannarlega ekki!” og bætir svo við: "Ef maður er ekki viss, á maður að fara inní sig og spyrja sig hvað manni finnst og taka ákvörðun út frá því."

Nú er mér orðið illt í maganum og á erfitt með að anda - fer þessi maður ekki bráðum að hætta þessu blaðri og vinna vinnuna sína þess í stað???

Nei, aldeilis ekki. Hann þurfti aðeins að tala meira illa um Framsóknarmenn – og fékk hann leyfi til þess. Auk þess þurfti hann að segja mér frá spíra sem hann og aðrir starfsmenn Keflavíkurflugvallar, stálu í gamla daga.
Þegar ég var búinn að standa þarna í u.þ.b. 20 mín (leið eins og það væru 20klst.) þá sagði ég honum að ég þyrfti því miður bráðum að fara á fund. Þannig að hann mældi – og tók það hann 1 sek að finna út að það væri bullandi raki í veggnum hjá mér og hann kæmi í fyrramálið og rifi húsið í sundur.

Ég fylgdi honum fram (eftir að hafa reist hann upp, því auðvitað datt hann í tröppunni minni) og hann spyr mig hvort ég sé í vinnu, og ég segi honum að ég sé í skóla og verði því heima í fyrramálið.

“Nú hvað ertu að læra?”
“Mannauðsstjórnun”
... og hann byrjar aftur... í þessari ræðu fékk ég að vita allt um gamla starfsmannastjórann í Landsbankanum og þann nýja og hvað hún væri leiðinleg og af hverju hún (og aðrar konur) væru svona strangir stjórnendur...
Þegar hann sagði mér að hann hafi verið giftur konu í 30 ár, sem vann í Landsbankanum, sá ég allt í einu fyrir mér að hann myndi byrja á 1. hjúskaparári þeirra og halda svo áfram fram að skilnaði – mundi ég allt í einu eftir fundinum sem ég var að verða of sein á og sagðist hlakka til að sjá hann á morgun.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Sambönd

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir þá er ástin mér hugleikin. Sambönd eru það líka, enda oft nátengd ástinni. Ég var að tala um ástina og sambönd við vin minn um daginn. Hann er tiltölulega nýkominn úr löngu sambandi og segist núna vera að læra upp á nýtt að vera “ég” í stað “við

Ég var eitthvað að reyna að gefa honum sýn á hvernig mér finndist þetta eiga að vera: tveir einstaklingar sem eru samferða, en ekki tveir eintaklingar sem verða einn og fara sömu leið.

Ég og þú saman.

Eftir á fór ég að hugsa um hvort ég hefði komið þessu almennilega frá mér. Ég veit það ekki, hef ekki spurt hann. En hins vegar mundi ég allt í einu eftir spekingnum Kahlil Gibran og því sem hann segir um þessi mál:


Þið fæddust saman, og saman skuluð þið verða að eilífu ...
En verið þó sjálfstæð í einingu ykkar, og látið vinda himinsins leika milli ykkar.
Elskið hvort annað, en látið ástina ekki verða að fjötrum ...
Fyllið hvors annars bikar, en drekkið ekki af sömu skál.
Gefið hvort öðru brauð ykkar, en borðið ekki af sama hleifi.
Syngið og dansið saman og verið glöð, en leyfið hvort öðru að vera einu, eins og strengir fiðlunnar eru einir, þótt þeir leiki sama lag.
Gefið hvort öðru hjarta ykkar, en setjið það ekki í fangelsi.
Og standið saman, en ekki of nærri hvort öðru: Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og kýpursviðurinn vaxa ekki hvort í annars skugga.

Svo fallegt og svo rétt...


mánudagur, janúar 10, 2005

Af hverju?

Ég er búin að velta því fyrir mér í mörg, mörg ár en án þess að fá botn í málið:
Hvernig fara snúrur að því að flækjast af sjálfu sér???

sunnudagur, janúar 09, 2005

Ástin

Það er ekki hægt að segja að ástin sé auðveld og að hún gangi alltaf upp. Ég hef tekið þátt í ótal (misgáfulegum) samræðum um ástina. Stundum hefur mér fundist hún svo erfiður húsbóndi að ég hef ætlað að segja skilið við hana. En tilhugsunin ein um að loka á hana, gerir mig sorgmædda.
Kona, mjög nákomin mér, sagði mér að hún væri búin að sjá að hin rómantíska ást sé ekki raunhæf og hún hafi valið maka eftir mun skynsamlegri leiðum. Ég get ekki sagt að mér sýnist hún vera hamingjusamari en þeir sem notast við “gömlu” aðferðina. Mér hefur líka alltaf fundist hálf sorglegt að vita að hún sé ekki skotin í manninum sínum.
Ég vil rómantík og rjóðar kinnar. Ég vil vera skotin og finna að einhver sé skotin í mér. Ég trúi því statt og stöðugt að svoleiðis hlutir séu mikilvægir til að sambönd gangi upp.

Ég verð svo glöð þegar ég sé ástfangið fólk. Að sjá ástina sem er á milli tveggja einstaklinga. Traustið. Virðinguna. Algjörlega ómetanlegt.

Ég á mér uppáhalds pör. Fólk sem ég hugsa til þegar ég er við það að missa trúna á ástina. Brad og Jenifer. Og hún þarna ljóshærða með stútmunninn og hann þarna hvað hann nú heitir. Elizabeth Taylor og John Warner, eða var það Larry Fortensky eða Richard Burton eða... eða... eða...eða Michael Jackson...nei þau eru bara vinir...Svo klúðra þau þessu fyrir mér.

Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér en mér virðist sem það sé einhver skilnaðar bylgja í gangi. Erum við orðin svona fyrrt? Förum við of fljótt í samböndin? Förum við of fljótt úr þeim? Skuldbindum við okkur of snemma? Skuldbindum við okkur ekki? Eða gefum við hvort öðru ekki nógu mikið af tækifærum?

Elskum við kannski ekki nógu mikið?

föstudagur, janúar 07, 2005

Halldór Ásgríms

Ég sá Halldór Ásgríms í fréttunum í gær. Það er hræðilegt að sjá manninn. Ætli hann þjáist af díoxíneitrun?

Keypti mér nýja dagbók á nýju ári. Þessi bók er þeim kostum gædd að hafa "spakmæli" af einhverjum toga á hverri opnu. Ég var að fletta í henni og sá nokkur alveg snilldar góð:

- Minni kostingarþátttaka bendir til þess að færri kjósendur hafi farið á kjörstað. (Dan Quayle, varaforseti Bandaríkjanna)

- Það er sannarlega við hæfi að við komum hér saman í dag til þess að minnast Abrahams Lincolns, sem fæddist í bjálkakofa er hann reisti með eigin höndum. (Ronald Regan hinn eini sanni)

Jiii hvað ég er þakklát fyrir að vera bara vesturbæingur frá Dalvík.