englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, september 30, 2004

Hagfræðitímadagur

Ég var í hagfræðitímanum mínum í dag. Í fyrsta tímanum vorum við uþb 20 - í dag 5. Rosa vinsæll kennari.
Í dag vorum við að ræða um langanir neytendans út frá jafngildislínum.
Jafngildislína er lína sem sýnir samsetta neyslu sem gefur af sér sömu ánægju. Sem þýðir í raun að við þurfum alltaf að velja og hafna. Við getum aldrei keypt allt sem okkur langar í, alveg sama hvað við erum rík. Ef við kaupum eina peysu, getum við bara pantað eina pizzu. Ef við kaupum tvær peysur - getum við bara pantað brauðstangir. Við veljum og sættum okkur við valið.

Sagði hann (kennarinn) að þetta væri ekki bara hjá einstaklingum, heldur stæðu þjóðir einnig frammi fyrir þessum vanda. Algengt dæmi um þetta væri byssur vs smjör.
Hvort ættu þjóðir að byrgja sig upp af vopnum eða smjöri? (smjör stendur þá fyrir nauðsynjar)
Svo sagði hann: það er til hagfræðilegur brandari um þetta vandamál!

(og nú halda allir niðrí sér andanum)

"Þetta væri í raun hvorki mikið vandamál né erfitt val fyrir þjóðir. Því það hafa fleiri dáið af smjöri en byssum".

Mér finnst þetta bara alls ekkert fyndið.

Svo ég haldi áfram með hann, þá er ég með tilvitnun í hann - svo ég nái kannski að kasta örlítilli týru á hvað er að stuða mig. Eftirfarandi setningar koma frá honum, þegar við erum að fara yfir glærur sem hann sendi okkur sjálfur og var að kenna:

"Ég ætla ekki alveg að hætta mér út í þetta. Ég þarf að skoða þetta betur sjálfur ef ég á að fara í þetta með ykkur. ...hvað um það, ég held allavegana að þetta skilyrði gildi... við getum örugglega skoðað þetta í bókinni."


miðvikudagur, september 29, 2004

Orðastelpa

Mig langar til að segja söguna af stelpunni sem elskar orð.
Hún elskar þau svo mikið að hún gleymir sér stundum í þeim. Hún tekur þau, hellir þeim í baðkarið og baðar sig í þeim. Sum orð gæla við hana. Orð eins og mjúkur, strjúka, sleikja, njóta og ást. Henni líður vel þegar þessi orð umljúka hana.
Það eru ekki öll orð sem eru góð við stelpuna. Orð eins og stinga, svíkja, hræsni og óheiðarleiki, eru henni erfið. En vegna þess að stelpunni finnst að allir eigi að vera jafnir, þá baðar hún sig líka í erfiðu orðunum.

Ég fann hana í vatninu og bað um sögu hennar.
Hvort ég mætti segja frá því hvernig orðin strjúka henni og stinga?

Hún horfði á mig blóðvotum augum og sagði:

"Það lekur úr augunum mínum
Ég horfi á þig og hjartað mitt fyllist angist
Þú svo fallegur
Ert hjá mér er ég horfi
Mig svíður í augun
Það er erfitt að halda þeim opnum svona lengi
Ef ég loka þeim hræðist ég að týna þér

Það blæðir
Lekur niður á hvít brjóst mín

Ástinni tek ég glöð með öllum sínum sársauka
Því þú ert hjá mér er ég horfi"

Svo lokaði hún augunum og rann til mín
Inn í mig
Skrifa um hana í leyni - elska hana opinberlega

mánudagur, september 27, 2004

Píparar

Nú er mér allri lokið. Um daginn fékk ég til mín pípara. Ég hélt ró minni, jafnvel þó kauði færi illa með flísarnar mína og gerði holu í vegginn.
Hann var eitthvað svo mikil dúlla, með stýrurnar í augunum og hárið allt út í loftið.
Þegar ég horfði stórum augum á holuna í veggnum og spurði hann hvort hann ætlaði að laga þetta eftir sig, sagði hann bara "nei, en viltu að ég reddi múrara fyrir þig?"

Ég hugsaði með mér að þó ég gæti margt, þá væri múrverk ekki eitt af því...og ég ákvað að taka boðinu. Hann sagðist ekki alveg vita hvenær hann gæti komið, það væri mikið að gera hjá honum - því hann væri bara einn núna.
Hann lofaði að hringja í mig á næsta hálftíma, til að segja mér hvenær múrarinn kæmist.

Einum og hálfum tíma seinna hringir pilturinn (þ.e. píparinn með ógreidda hárið) og spyr hvort ég hafi verið að auglýsa herbergi til leigu.
Ég fór að hlæja og sagði svo ekki vera. "Nú" segir hann, mjög hissa í röddinni, "ég hef þá skrifað þetta eitthvað vitlaust niður"

Síðan er liðin vika og ég hef ekki heyrt meira í þessum pípara.

Pabbi vinkonu minnar kom og múraði upp í gatið og svo ætlaði ég núna í kvöld að skella blöndunartækjunum á..hugsaði með mér að ég gæti jafnvel farið í sturtu um helgina og ef ég væri ótrúlega heppin þá jafnvel fyrir helgi.

En auðvitað ekki...

Ég er búin að vera í hálftíma að reyna að ná þessum helv. töppum af rörunum í veggnum...rörin snúast alltaf með...og nú blóta ég því að hafa ekki leigt stráknum herbergi...það hefði verið svo fínt að hafa hann hérna hjá mér.

sunnudagur, september 26, 2004

Sund

Eftir að hafa valið Laugardalslaugina í síðustu sundferðum, vegna þess hve auðvelt er að smygla drengnum inn - vs. ómögulegt í Vesturbæjarlaug, ákvað ég að taka á honum stóra mínum og fara í hverfislaugina mína.
Ég spurði Sverri hvort hann vildi fara í strákaklefann, eða hvort við ættum ekki bara að smygla honum upp með mér?
Eftir umræður um það hvort nornin væri að vinna og hvernig þetta gengi allt fyrir sig, ákvað hann að fara niður í strákaklefann.

Rúnar tók á móti honum, sýndi honum skápinn hans, blandaði fyrir hann sturtuna og fylgdi honum út.

EKKERT MÁL!


Þegar við fórum upp úr, fór ég í stelpuklefann og Sverrir í strákaklefann. Ég er að blanda sturtuna mína, þegar ég sagt fyrir aftan mig: "mamma, ég finn ekki baðvörðinn!" Ég segi honum að fara niður og biðja einhvern sem er í sturtu að blanda fyrir hann. "Einhvern ókunnugan, mamma! má ég ekki bara fara í sturtu hér?"
Ég ráðlagði honum að fara aftur niður og leita aðeins betur að baðverðinum og ef hann kæmi ekki í leitirnar, þá væri örugglega í lagi að fá ókunnugan til að blanda sturtuna - hann myndi bara þakka fyrir sig og ekki tala meira við kauða. (þetta var náttúrulega algjörlega gengt minni sannfæringu, þar sem allsberir gamlir kallar í sturtu hljóta að vera perrar!)
Hann fór niður og fann Rúnar.

Hann sagði mér eftir sundferðina að honum þætti þetta eiginlega skemmtilegra en að fara með mér í stelpuklefann.
Ég hef það á tilfinningunni að ég sé að missa tökin. Þegar hann er farinn að geta blandað sturtuna sjálfur, er ég orðin óþörf. Af veikum mætti reyni ég þó að sýna að ég hef enn eitthvert vald - kortavald - með því að halda upp á fullorðins skrefið sem strákurinn tók, splæsti ég ís á línuna..og það ekki einu sinni á ísdegi!!!


föstudagur, september 24, 2004

Föstudagsdjókur

Einn af betri bröndurum sem ég hef heyrt lengi...

Eldri maður giftist mun yngri konu og voru þau mjög ástfangin. Gallinn
var þó sá að hversu mikið sem þau reyndu gat maðurinn ekki veitt spúsu
sinni fullnægingu í rúminu.
Ákváðu þau því að leita til læknis. Sá hafði ráð undir rifi hverju og eftir að hafa hlustað á söguna ráðlagði hann þeim að ráða til sín ungan og glæsilegan mann.
"Á meðan þið njótið ásta skuluð þið fá hann til þess að veifa handklæði yfir ykkur. Ímyndunarafl konunnar ætti þannig að fara á fullt og hún ætti að fá sterka fullnægingu."
Hjónin ákváðu að reyna þetta og réðu til sín fjallmyndarlegan og vöðvastæltan mann til að veifa handklæðinu.

Þrátt fyrir það gekk henni ekkert betur að fá fullnægingu. Þau ákváðu því að tala aftur við lækninn. Hann ráðlagði þeim að skipta um hlutverk.
"Nú skuluð þið fá unga manninn til að nóta ástar með konunni á meðan þú veifar handklæðinu," sagði hann við gamla manninn. Aftur ákváðu þau að fara að ráðum læknisins og fór ungi maðurinn í rúmið með konunni á meðan sá gamli sá um handklæðið.

Ekki leið á löngu þar til konan fékk gríðarlegar fullnægingar, aftur og aftur svo herbergið lék á reiðiskjálfi. Þegar þau höfðu lokið sér af leit sá gamli brosandi á unga manninn.
"Þarna sérðu," sagði hann sigri hrósandi. "Það er SVONA sem maður á að veifa handklæði."

Góða helgi elskurnar mínar.

Dýrin

Ég í einhverju framtaksæðiskasti fór að taka upp úr pokanum sem Sverrir kom með úr leikskólanum síðasta daginn sinn. Ef ég man rétt þá var sá dagur einhverntímann í júni (þó á þessu ári).

Þar kenndi ýmissa grasa. Fullt af skemmtilegum myndum og öðru föndri. Ánægðust var ég þó með trölladeigsdótið.
Þetta voru tvö verk. Annað líktist einhverskonar eggjum, datt mér helst í hug köngulóa egg - svona þyrping. Seinna verkið var mun augljósara. Þó undarleg væri í laginu, var þetta greinilega kind.
Stolt móðir sótti nagla og hamar og kom naglanum haglega fyrir í "kindaveggnum" - á þeim vegg eru hlutir sem eru tengdir kindum, en þó súrríalískum kindum. Eins og t.d. eiturgrænt veggteppi úr þæfðri ull. Að mínu mati átti þessi kindarlega kind vel heima á þessum kindavegg.

Þegar Sverrir kom heim sýndi ég honum hvað ég hafði fundið. Aðspurður sagði hann að eggin væru egg (en ekki hvað?) Ég spurði hvernig egg og hann sagði þetta vera venjuleg egg, bara mörg í hrúgu.
Nú jæja, ekki köngulóaegg en egg þó.

- Ég fann annað líka, manstu eftir að hafa gert meira?
- Nei, hvað var það?

Ég fylgi honum að kindaveggnum og hann segir:
- já..alveg rétt
- hvað er þetta?
- Hæna..

Ég verð hálf kindarleg í framan og gef frá mér langt svona jaaaááá....
- En falleg hæna
- Hvað hélstu að þetta væri?
- hmmm... kind..

Þá lítur drengurinn á mig með augnarráði þess sem allt veit og beinir því að þeim sem ekkert veit:
- Kind með appelsínugulan munn!!!!

Maður þarf greinilega eitthvað að fara kíkja í gömlu dýrafræðibækur sínar...

miðvikudagur, september 22, 2004

Kennarar

Í dag viljum við helst ekki setja börnin okkar á leikskóla, nema þar starfi fullt, fullt af leikskólakennurum. Það er ekki nóg fyrir okkur að leikskólastjórinn sé með þartilgerða menntun. Ó nei, a.m.k. einn á deild, takk fyrir. Helst allir.

Grunnskólakennarar eru í verkfalli í dag. Þeir krefjast launa sem er í takt við ábyrgð þeirra. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir "leiðbeinendur" að fá vinnu sem kennara. Menntaðir kennarar ganga fyrir störfum í grunnskólum og eru "góðir leiðbeinendur" hvattir og studdir af skólayfirvöldum til að afla sér réttinda. Það heyrir algjörlega til undantekninga að við rekumst á kennara í prjónavestum, klossum og með kaffibollann í hendinni - þessa önnina hér og næstu önn í öðrum skóla. (Þetta eru ekki fordómar, heldur máttlaus leið til að lýsa minningu minni um réttindalausa kennara æsku minnar)

Það er biðröð fyrir utan framhaldsskólana. Fyrirgefið, biðraðirnar eru víst tvær. Önnur þeirra inniheldur nemendur sem ekki fengu inngöngu í skóla nú í haust - en menntamálaráðerra telur að þetta komi allt til með að leysast er líður að jólum. Hina röðina fylla framhaldsskólakennarar - sem ekki fá vinnu. Ef þú ert ekki með réttindi til að kenna í framhaldsskóla, er ómögulegt fyrir þig að fá vinnu þar. Ef þú ert með réttindi, gætir þú þrátt fyrir það þurft að standa í þessari röð í nokkur ár.

Þetta finnst okkur vera nokkuð eðlilegt. Við gerum réttilega kröfu um fagmennsku. Við viljum ekki að einhverjir vitleysingar sjái um þessi ábyrgðarmiklu verkefni. Kennslufræðin er vel viðurkennd fræðigrein. Í mörg horn er að líta og að mörgu að hyggja og allt það...

En í Háskóla Íslands er í gildi önnur stefna. Í Háskóla Íslands þarf enginn að vera með nein kennsluréttindi. Engrar grunnmenntunnar er krafist.
Í Háskóla Íslands komast kennarar upp með að segjast vera glærulesarar og það sé bara þeirra kennsluaðferð. Í Háskóla Íslands komast kennarar upp með að segjast ekki ætla að vera með verkefni, af því að þeir nenni ekki að fara yfir þau. Í Háskóla Íslands þurfa kennarar ekki að þekkja til neinna kennslufræða og finnst jafnvel í lagi að gera lítið úr þeim fræðum.

Léleg kennsla - léleg menntun? Ég skil ekki alveg af hverju við látum bjóða okkur þetta? Getur verið að við séum svona metnaðarlaus í okkar eigin garð? Ég veit það ekki. Ég veit þó að sumir "kennarar" hefðu gott af því að fá smá kennslu leiðbeiningar frá þartilgerðu fólki.

Þar til það gerist höldum við bara áfram að vona að við lærum eitthvað þegar við komum úr náminu...

þriðjudagur, september 21, 2004

Rómantík er tík tíkanna

Já, einu sinni var rætt um rómantískar flísar. Svo var eitthvað minnst á að rómantíkin í þeirra garð væri þverrandi. Jú, mikil ósköp - sú rómantík er gjörsamlega horfin.
Ég var búin að setja mér það markmið að klára baðherbergið fyrir miðvikudag (síðastliðinn) og það kvöld átti ég bara eftir að setja upp blöndunartækin...

þá fór allt að fara til fjandans...

það bara lak og lak og lak. Á mig, á nýju flísarnar og nýja kíttið. Í raun var barasta allt á floti. Sá vökvi sem ekki kom úr lögnunum í veggnum, kom úr augunum mínum.
Þetta gat ekki verið að gerast.

En jú, jú..

Þetta var svo sannarlega að gerast. Ég fékk pípara í morgun. Þessi elska - þessi hjartans elska -
BORAÐI STÓRA HOLU Í VEGGINN MINN - Eyðilagði fullt af flísum og eina sem hann sagði var: ég þarf að fara aðeins neðar...
...og fleiri flísar fuku í sturtubotnin

Núna er hola í veggnum sem er á stærð við stóra álfasundlaug. Og enn einhver bið á að ég komist í sturtu.

og ég sem er alveg að verða búin með ilmvatnið mitt...

Sælir eru óupplýstir

í dag fékk ég símtal frá góðum manni í útlöndum. Í dag endurheimti ég góða vinkonu mína. Í dag fékk ég að reiða son minn á bögglaberanum. Ég fékk lífrænt ræktaðar gulrætur í dag. Ég náði að lesa allt sem ég setti mér fyrir. Ég fékk tvö súkkulaðistykki og popp.

Nokkuð góður dagur fyrir mig.

Svo sér maður mynd eins og Fahrenheit 9/11 og spyr sig hvort heimurinn sé til andskotans að fara? Og hvernig standi á því að það sé í alvöru talið raunhæfur möguleiki að Bush nái endurkjöri (eða kannski raunverulegu kjöri í þetta sinnið)

sunnudagur, september 19, 2004

manngæskan

Ég er í sjokki. Sjokk mitt er margfalt. Sjokk mitt er fyrst og fremst tengt því sem ég tel mig hafa orðið vitni af, en ekki minna vegna viðbragða "þartilgerðra aðila" þegar ég leitaði aðstoðar.

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöldið. Það var mjög gaman, hitti fullt af skemmtilegu fólki. Fólki úr nútíð, fortíð og framtíð. Eins og svo oft áður barst leikur á 22.
Ég hef oft velt því fyrir mér, hvað málið sé með 22. Af hverju sæki ég svona í þennan stað? Hann er orðin óskaplega sjúskaður og andrúmsloftið þar er ekki ... jahh... segjum bara að Jesú myndi ekki vilja hanga mikið þar (nema þá kannski til að bjarga týndum sálum)

Á 22 hitti ég stelpu sem ég hafði hitt nokkrum helgum áður. Þá helgi höfðum við hist á klósettinu og blaðrað saman út í eitt. Lífleg og fjörug stelpa. Mjög skemmtileg.
Á föstudaginn var hún ekki í minna stuði. Greinilega mjög gaman hjá henni og vinkonum hennar.
Við töluðum ekki saman, vinkuðumst bara og brostum og héldum áfram að dansa við vini okkar.

Ég sá hana aftur þegar ég var að fara heim.

Hún var ekkert sérstaklega hress. Ég hugsaði með mér hvort gæti verið að hún væri orðin svona svakalega drukkin. Hún virtist ganga í leiðslu. Með henni var strákur. Ég horfði á þennan strák og fannst hann alls ekki vera týpa sem hún myndi vera með. En hvað veit maður svosem?
Ég veit það náttúrulega ekki, en ég fékk það á tilfinninguna, út frá samtali okkar á klósettinu fyrr í mánuðinum, að hún ætti ekki kærasta.
Hann studdi við hana, þannig að hún datt ekki.
Þau töluðu ekkert saman. Hún sýndi þess í raun ekki merki að hún þekkti hann nokkuð.
Þegar ég var komin út, sá ég þau aftur. Hún stóð framarlega til hliðar við hann og hélt hann í handlegg hennar, og virtist stýra henni.

Ég fór heim.

Í gærkvöldi var ég heima og var eitthvað að fara yfir kvöldið í huganum. Þá rifjaðist þetta atvik upp fyrir mér. Ef hún hefði verið svona drukkin og hefði verið að fara heim með kærastanum sínum, hefði hún hallað sér upp að honum og hann hefði haldið utan um hana (hann virtist vera nokkuð edrú). Ef þetta hefði verið einnar nætur fling, hefði slefið sjálfsagt ekki slitnað á milli þeirra.
Ég fékk sjokk. Hún var ekki að fara heim með honum. Þetta var ekki kærastinn hennar. Þetta var ekki einnar nætur gamanið hennar. Gat verið að hann væri að taka hana heim, án hennar samþykkis?

Guð minn góður! Af hverju sá ég þetta ekki? Af hverju talaði ég ekki við hana? Af hverju veit ég ekki hvað hún heitir?

Eftir að hafa hugsað um þettta í marga tíma, hringdi ég í mömmu. (Eins og allir vita, þá geta mömmur svarað öllum mögulegum og ómögulegum spurningum) Hún ráðlagði mér að hringja í Stígamót (sem reyndust svo bara vera með opið á virkum dögum!)
Út frá því hrindi ég í neyðarmótöku Landspítalans. Sagði konunni sögu mína og sagði að ef stúlkan hefði komið til þeirra, þá gæti ég lýst manninum nokkuð vel.
-Veistu hvað hún heitir?
- Nei, en ég get lýst henni mjög vel. Hún er mjög sérstök í útliti.
- Nei, ég get ekkert hjálpað þér. Það er ekkert skráð niður, ef hún hefur á annað borð komið hingað.
-Ég vil ekki fá neinar upplýsingar um hana. Vildi bara láta vita af mér. Ef ské kynni að hún hefði komið til ykkar. Þannig að þið gætuð haft samband við mig, ef þið hélduð að það gæti hjálpað.
- Það þarf fyst að biðja um hjálpina... þú verður að tala við hana sjálf

(NB ég var náttúrulega búin að segja konunni að ég þekkti þessa stelpu ekki og væri að fara þessa leið, vegna þess að ég vissi ekki hvernig ég ætti að nálgast hana.)

- ... hún veit ekki að ég sá hana..
- Því miður getum við ekkert gert... það sést hvort eð er ekki lengur í blóðinu hennar, ef henni hafa verið gefin nauðgunarlyf!

...

Og ég spyr...

Eigum við ekki að reyna að hjálpa? Jafnvel þó það sé langsótt og erfitt?
Og jafnvel þó að ekki sé bara með því að láta vita að maður sé til staðar, ef þörf sé á hjálp?

fimmtudagur, september 16, 2004

Hindranir

Við mæðginin vorum á rúntinum í rigningunni.
- Mamma, hvað er hindrun?
- Hindrun er eitthvað sem stoppar t.d. einhvern í að gera eitthvað sem hann gæti annars gert...
- Já...Mamma, hvað er hraðahindrun?

Ég átti einmitt von á þessari spurningu og svaraði henni skammarlaust:

- Hún kemur einmitt í veg fyrir að fólk getir keyrt hratt.
- Já...en mamma, hvað er viðskiptahindrun?
- ...

Ég var næstum því búin að keyra útaf. Þessi spurning rifjaði upp fyrir mér svipað samtal sem átti sér stað fyrir uþb 2 árum. Spaugstofan hafði verið að gera grín að starfslokasamningi einhvers mikilmennisins. Sverrir hafði horft á þennan þátt, steinþegjandi og hljóðalaust (því þrátt fyrir góðan vilja, þá er spaugstofan alls ekki fyndin)
Daginn eftir erum við að keyra og hann (aldrei þessu vant) hefur setið hljóður í dágóða stund, greinilega mjög djúpt hugsi.

Svo spyr hann:
- Mamma, hvað er starfslokasamningur?
Ég útskýri það fyrir honum og hann segir bara "já" og heldur áfram að hugsa

Daginn eftir er hann kominn til pabba síns og fer að fræða hann um starfslokasamninga...
og svo kemur "hugsuþögnin"
og..
-Pabbi, hvenær fæ ég starfslokasamning?
- ...

Ég veit ekki alveg upp úr hvaða tunnu þessi drengur er dreginn.
Í gær kom hann inn með bekkjarbróður sínum og á leið sinni inn í unglingaherbergið kemur hann inní stofu til mín og spyr:
-mamma, áttu eitthvað gott rokk?

Rokk..auðvitað á ég milljón rokkdiska handa barninu
mér sýnist að nú sé komið að uppeldisatriði sem ég er ekkert svakalega sleip í..ég lánaði honum Leaves og er hún á fullu blasti..málið er að hvorki ég né Sverrir erum alveg með það á hreinu hvort Leaves sé rokkhljómsveit!

miðvikudagur, september 15, 2004

Meira um hagfræði

Í síðustu viku var ég alveg að gefast upp á þessu hagfræðinámskeiði sem ég er skráð í. Kennarinn þurr, leiðinlegur glærulesari. Ekki snefill af metnaði hjá honum til að gera efnið áhugavert.
Voginni var náttúrulega misboðið þetta óréttlæti að þurfa að sitja svona leiðinlegan kúrs (sem hún þarf reyndar alls ekki að gera - því þetta er auka, auka val), henni var einnig misboðið metnaðarleysi kennarans og deildarinnar... þannig að eftir að hún var búin að leggja fram semíformlega kvörtun, þá fór hún á stúfana og leitaði að nýju námskeiði til að sækja.

Eftir að hafa legið í einhvern tíma yfir kennsluskránni, þá mundi ég allt í einu eftir því að ég er ekki svona kvitter. Ég leita að mótvindi og legg svo af stað, beint upp í vindinn.

Þannig að ég ætla að harka þetta af mér.

Í morgun var kennarinn alveg jafn illa undirbúinn og í fyrri tímunum. Var alveg jafn óöruggur með dæmin sem hann var að gefa. Hann var alveg jafn mikill glærulesari og áður..en hann gerði eitt sem varð til þess að maginn á mér herptist saman og hefur ekki enn komist í samt horf aftur...

Hann sagði brandara.

Mér krossbrá. Ekki vegna þess að þessi "þurri, leiðinlegi maður" sagði brandara.. heldur vegna þess að mér fannst hann fyndinn!!!

Ætli geti verið að ég sé svona mikið kameljón?
Eða er ég kannski ekki með eins góðan húmor og ég hef hingað til haldið???

mánudagur, september 13, 2004

Verslaðu í þinni heimabyggð

Ég las um daginn grein í bæjarblaði Akranesbæjar, grein eftir kaupmann í plássinu.
Hans umræðuefni var hvað verslun í bænum hafði minnkað með tilkomu Hvalfjarðarganganna.
Ég man ekki nákvæmlega hvað mikið í prósentum talið samdrátturinn var mikill fyrir staðarkaupmenn, en talan var nokkuð há.
Hann tók þó nokkur dæmi af akurnesingum sem enn versluðu hjá honum og hrósaði þeim vel fyrir.
Skiljanlega er mikilvægt að halda verslun í heimabyggð.
Það finnst mér íþm.

Ég bý í vesturbæ Reykjavíkur. Þó ég sé ættuð að norðan, þá finnst mér ég vera Reykvíkingur. Ég segi stolt frá því að ég haldi með KR (þó í nokkru gríni - því í leyni held ég með öðru félagi). Ég elska Kjötborg og eina búðin sem slagar upp í hana í flottheitum er Melabúðin.

En er ég hreinskilin?

Ég versla bara í þessum búðum ef ég neyðist til, annars versla ég í Bónus á Seltjarnarnesi og klára innkaupin í Hagkaup í sama bæjarfélagi. Bensínið kaupi ég á bílaplani Hagkaupa á Nesinu. Ég kaupi áfengið mitt á Eiðistorgi. Fötin mín eru hreinsuð á sama stað. Þegar ég fer út að hlaupa, fer ég út á Nes. Fjöruferðir með syni mínum eru farnar á Gróttu.

Þegar ég reikna saman eyðslu mína, þá eru um 90% af henni á Seltjarnarnesi.
Hin 10% fara í eyðslu á öldurhúsum Reykjavíkur.

Flestum þykir þetta sjálfsagt ekki vera neitt tiltökumál. En ég spyr: er í lagi að versla ekki í sinni heimabyggð, ef heimabyggðin er stór?

Er bara bannað að stríða minni máttar? Má leggja hina vinsælu í einelti? Mega minnihlutahópar vera vondir við meirihlutahópa?
Eða skiptir það kannski ekki neinu máli í mínu tilfelli, þar sem það er sama fjölskyldan sem á verslanir á Seltjarnarnesi og í Reykjavík?

Ég hreinlega veit það ekki...

Baba nam kevalam

Baba nam kevalam
baba nam kevalam
baba nam kevalam
baba nam kevalam
baba nam kevalam
baba nam kevalam
baba nam kevalam

ást er allt sem er
ástin í mér
ástin í þér
ástin í okkur öllum

sunnudagur, september 12, 2004

Í lausu lofti

Hér var ég byrjuð á miklum pælingum um mikilvægi hugleiðslu og einhverskonar tengingu við æðri mátt. En sá mjög fljótlega að þessum hugleiðingum yrði að gera betri skil en í nokkrum línum, skrifuðum í flýti.

Kveikjan að þessum hugleiðingum er þó eitthvað á þessa leið:
ég er dugleg. ég er að gera góða hluti. ég stend mína plikt og gott það.
ég á yndislega vini. ég elska og er elskuð.

Samt skortir mig eitthvað.
Ég er ekki sátt.
Mig skortir tengingu við almættið. Tengingu sem ég hafði en sinnti ekki og ég finn hvernig böndin eru að rofna á kostnað innri friðar.
Mér finnst ég hlaupa áfram í takt við skipanir gráu mannanna í Mómó.

Áður en þeir eignast mig alveg, verð ég að gera eitthvað...

Nornir í glerbúrum kasta steinum

Stundum skilur maður ekkert í því hvert lífið er að fara með mann.
Í gær fórum við Sverrir í sundlaug Vesturbæjar, til að fara í sturtu. Litla skinnið er með í eyrunum og mátti því ekki fara ofan í laugina.

Ég hef verið viðskiptavinur þessarar laugar í 21 ár (eða frá fæðingu) og þrátt fyrir marga galla hennar, finnst mér hvergi betra að vera og kem alltaf aftur og aftur.

Það er enn sami sundlaugavörður að vinna þarna og var að vinna þegar ég var í skólasundi.
Og það sem meira er, hún man eftir mér frá því í gamla daga!!!
Svona yndislegt er þetta.

Já, við sverrir ætluðum í sturtu...
Samviskusamlega rétti ég afgreiðslukonunni, sem er miðaldra með litað svart hár - og kannast ég ekkert við hana, kortin okkar mæðgna.

(Mér fannst svolítið merkilegt að kaupa fyrsta sundkortið fyrir Sverri. Fannst það vera pínu fullorðins. En það venst. Reyndar venst það svo vel að núna blóta ég því að þurfa að borga fyrir hann.)

Konan tekur við kortunum og réttir mér lykilinn minn og lítur á soninn og segir: "hann er strákur, er það ekki?"
Nokkuð augljóst finnst mér, en ég jánka því og bæti við að hann þurfi ekki lykil, þar sem hann fari með mér inn og noti skápinn minn.
- Já, en hann er strákur!!!
- Já, ég veit það en hann fer bara með mér inn...
- Já, en það eru stelpur þarna uppi og hann er strákur!!

Nokkuð augljóst fannst mér, en var ekkert að benda á það.

Við stóðum þarna í góða stund, ég og aumingjans Sverrir, sem skildi ekki neitt í neinu. Þar sem ég virkilega þurfti á baði að halda, reyndi ég eftir fremsta megni að halda ró minni.
Kellingin, með litaða hárið, sat bak við glervegginn sinn og ætlaði hreinlega ekki að gefa sig, var farin að tala um spéhræðslu sex ára stelpna og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég sleppti því að benda henni á að það væri einmitt svona viðhorf sem gerði sex ára stelpur (og auðvitað stráka) spéhræddar.

Fyrir rest fengum við náðasamlegast að fara í sturtu.
Vorum ein í búningsklefanum, fyrir utan eina eldri konu.

Ég var alvarlega að hugsa um að skilja lykilinn eftir í búningsklefanum, svo ég þyrfti ekki að hitta nornina aftur. En tók á honum stóra mínum og fór niður með lykilinn.
Sem betur fer var hún fjarri góðu gamni og annað andlit, kunnuglegt og mjög vingjarnlegt, komið í hennar stað..ég skilaði lyklinum okkar með bros á vör og við héldum hrein og fín út í rigninguna.


föstudagur, september 10, 2004

hvunndagshetjan

Eftir að hafa legið upp í rúmi í tæpa tvo tíma í morgun og þjáðst af framkvæmdarkvíða, skellti ég mér í gallann og blandaði flísalím.
Er rúmlega hálfnuð. Auðvitað er þetta ekki alveg fagmannlega beint eða neitt svoleiðis...

EN

ef þær halda fram að jólum, þá er ég ekki alveg viss um hvað það er sem er svona merkilegt við það að vera karlmaður...


fimmtudagur, september 09, 2004

Sævar

Það er til maður sem heitir Sævar. Sævar er bifvélavirki og á heima á Seltjarnarnesinu. Ég er ekki alveg viss, en ég held að Sævar komi beint frá guði.
Í vetur bilaði bíllinn minn. Fyrst sprakk á honum (ok það er ekki bilun, ég veit það - en samt sem áður var hann óökufær). Gísli stjúpguðfaðir minn kom og lánaði mér tjakkinn sinn og gat ég druslast á honum heim - bílnum, ekki Gísla.

Til að auka skilning á því hvað ég meina með að druslast á bílnum heim, þá vil ég leggja áherslu á að þetta var á því tímabili vetrar sem snjóaði, og ég var enn á sumardekkjum (sem fóru svo beint í ruslið á dekkjaverkstæðinu 2 vikum seinna). Þannig að ég druslaðist.

Þegar heim var komið hringdi ég í Sævar frá guði og spurði hvort hann væri til í að skoða bílinn minn. Það væri svo lélegur gangurinn í honum. Sævar var auðvitað til í að skoða bílinn.
Daginn eftir að við Gísli höfðum skipt um dekk (nei, reyndar gerði Gísli það, ég var mest í því að búa til engla með Sverri) og ég á leið til Sævars - fór bíllinn ekki í gang.

Ég hringdi í Sævar og sagði farir mínar ekki sléttar. Það væri ekki nokkur leið að koma bílnum í gang. Hann sagði það nú ekki vera mikið vandamál, hann kæmi bara og sækti bílinn. Svo kom hann um kvöldið, við annan mann og dró bílinn minn á verkstæðið sitt.
Þegar bíllinn var tilbúinn fórum við Sverrir út á Nes til að sækja hann. Sævar gaf Sverri tvö súkkulaði, eitt til að borða strax og annað til að borða þegar kæmi nammidagur.
Svo sýndi hann mér ofan í vélinni hvað hann hafi lagað - áður en hann lokaði húddinu þá signdi hann vélina. Ég get svo guðslifandisvariðfyrirþað - þessi maður er náttúrulega ekki eins og við hin.

Núna um daginn fór ég með bílinn minn í skoðun. Ekki nema 5 mánuðum of seint - hvað er það? Tíminn er hvort eð er svo afstæður. Pústið er ónýtt. Án þess að ég sé nokkur bifvélavirki, þá hugsa ég að lætin í elskunni minn geti stafað af ónýtu pústi.

Og ég hringi í Sævar...

Auðvitað vill hann laga pústið mitt. Þegar ég kom til hans áðan, spurði hann mig hvort að það væri í lagi ef bíllinn yrði ekki tilbúinn fyrr en á morgun - hann þyrfti nefninlega að fara á annað verkstæði með hann (af því að hann á ekki svona lyftara)...svo bauð hann mér nammi.
Ég sagði honum að ég þyrfti ekki bílinn fyrr en á mánudaginn, því þá væri síðasti dagur fyrir endurskoðunina. Hann sagð þá að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, hann færi með bílinn í skoðun fyrir mig...

Svo geri ég mig klára til að fara...þá segir hann: "hvernig ætlar þú að komast heim?" Það tók mig langan tíma að sannfæra hann um að ég væri vatnsheld og hefði gott af göngutúr og því þyrfti hann ekki að skutla mér heim...





miðvikudagur, september 08, 2004

Svona dagur

VOG 23. september - 22. október
Það er óvenjumikil hætta á því að þú verðir fórnarlamb einhvers konar glæps í dag.
Haltu þig frá hættulegum stöðum og ofbeldishneigðu fólki.

Þessi merkilega stjörnuspá er tekin af vef morgunblaðsins og eins og alþjóð veit þá lýgur hann nú ekki.
Mikið er ég fegin að þessi dagur er að kveldi kominn og ég virðist vera hólpin.

þriðjudagur, september 07, 2004

Hagfræði er svoooo spennandi fag

Því hefur stundum verið haldið fram að hagfræðingar séu mjög sérstakir. Ekki skal ég draga það í efa. Ég er í einhverjum hagfræðikúrs í vetur. Það er reyndar ekki komin næg reynsla á það hvort ég skilji þar sem þar fer fram...
EN...
það lítur ekki vel út, ef eftirfarandi dæmi gefur tóninn fyrir önnina:

"Verðteygni eftirspurnar er hlutfallsleg breyting á eftirspurðu magni að gefinni hlutfallslegri breytingu á verði"

Ég meina skilur þetta einhver???

Rómantískar flísar

Ef einhver hefur haft það á tilfinningunni að ég hafi séð það í rómantískum hyllingum að fara að taka baðherbergið mitt í gegn - þá má vel vera að sá hinn sami hafi rétt fyrir sér.

En - það má breyta

Eftir langa mæðu, fóru flísarnar af. Mesta mildi þykir að ég missti ekki nema 3 fingur við þetta tiltæki og er einungis með 4 marbletti á vinstri hönd. Tveir þeirra eru nokkuð skemmtilegir. Minna á blóðpoka, eins og eru í blóðbankanum, nema "mínir" eru fyrir álfa.
Hægri handleggurinn er farinn að hugsa sjálfstætt og leitar eins og vitlaus væri að Stjána bláa - ætlar víst að skora á hann í sjómann.

Mér tókst að losa sturtuklefann frá sturtubotninum. Hélt í hreinskilni talað að hann væri límdur við botninn. En mikið puð og púl sá ég að máltækið "að hanga saman á skítnum" er ekki gripið úr lausu lofti...og ekki orð um það meir.

Nú lyktar berstrípað baðherbergið mitt eins og eyðibýli og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera næst..kannski ég flytji bara???



mánudagur, september 06, 2004

Grenjuskjóður

Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að ég beri hjartað mitt utan á mér. Móttækileg fyrir allskyns vitleysu - jákvæðri og neikvæðri.
Þetta getur verið kostur en stundum dragbítur.

Ég á yfirleitt ekki erfitt með að setja mig í spor annarra. Reyni að skilja ástæður sem liggja að baki athafna, þó svo ég sætti mig ekki endilega við þær.
Ég á mjög auðvelt með að lifa mig inn í bíómyndir. Það eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að uppfylla, ef það er gert skiptir yfirleitt ekki miklu máli hvort um ræðir góðar myndir eða vondar.

Eins og með velskrifaðar bækur, flyst ég inn í bíómyndina. Verð hlutlaus þátttakandi í henni. Hlutlaus að því leitinu til að skrímslið getur aldrei náð mér og ég á enga möguleika á að giftast Brad Pitt - en ég reyni þó að veikum mætti að ræða við leikarana, benda þeim á bestu útgönguleiðir. Segi þeim hvar morðinginn felur sig og að hætta þessari vitleysu - hann sé góður strákur, sem sé bálskotinn í henni...

Ef ill fer - fer ég að gráta
Ef leikararnir hlusta á mig og allt fer vel að lokum - fer ég líka að gráta

Það eru margar bíómyndir sem ég hef grátið yfir og haft fullan rétt á því. Þrátt fyrir að fólkið í kringum mig hafi ekki alltaf haft fullan skilning á því. Ég man eftir því þegar ég var lítil stelpa og fór að sjá ET í bíó. Mamma mín (sem ber höfuð og herðar yfir allar grenjuskjóður) og frænka mín voru með mér. Eðlilega grétum við óskaplega (enda mjög, mjög sorgleg mynd). Þegar við vorum búnar að gráta í góðar 20 mínútur og tómu popppokarnir voru farnir að flæða niður bíósalinn - snéri unglingsstrákurinn sem sat fyrir framan okkur sér við og sagði: æ, getið þið ekki hætt að grenja maður!!!

Ég grét óskaplega yfir pretty in pink. Ég með minni sérstöku næmni sá að hún (Molly Rignwald) var að gera stærstu mistök lífs síns með því að velja þennan ríkisbubba (Andrew McCarthy), í stað vinar síns (Jon Cryer) sem hún náði svo vel til og ..... svo hann svona harður af sér, lét eins og honum stæði alveg á sama..en ég vissi betur..
Ég hef alveg fengið fólk til að viðurkenna að endir þessarar bíómyndar var sorglegur. Ver hefur mér þó gengið að fá fólk til að viðurkenna "rétt" minn til að háskæla yfir enda 9 og hálfrar viku.
Ég hef séð þessa mynd nokkrum sinnum og alltaf skal ég gráta jafn mikið (með ekka og allt) svo þegar hún (Kim Basinger) lokar hurðinni að íbúð folans (Mickey Rourke) og hann byrjar að telja, kalla ég til hennar, á milli ekka soganna "SNÚÐU VIÐ HANN ELSKAR ÞIG!!!"

En hlustar hún á mig? Nei og því fer sem fer....

Að gráta yfir bíómyndum er fjölskyldusiður, sem gengur í beinan kvenlegg.
Nei, ætli sé ekki réttara að segja: að gráta við minnsta tilefni er fjölskyldusiður, sem gengur í beinan kvenlegg.

Mamma mín er drottning í Táradalnum en við systur komum sterkar inn. Ég hef stundum gert grín að því þegar mamma kom sér alltaf vel fyrir í sófanum á sunnudögum til að eiga notalega stund með fjölskyldunni á sléttunni, þessari sem átti heima í húsinu.
Alltaf sama rútínan: Þátturinn rétt byrjaður og mamma byrjuð að gráta. Mín ástkæra systir er mun líklegri en ég, til að taka við af móður okkar sem drottning Táradals. Svo tilfinningarík er hún. Ég hef horft á myndir með henni, sem eru svo vondar að mér líður illa í maganum - en hún háskælir yfir.

Þegar ég ber mig saman við þær, þá upplifi ég mig sem hálfgerðan nagla, sem kallar ekki allt ömmu sína. Og í skjóli þess, get ég gert svolítið grín að þeim.
Ég var eitthvað að bauna á mömmu mína um helgina..að hún væri nú svo mikil grenjuskjóða að ....bla bla bla...

Þá sagði hún: Jahh...það var ekki ég sem grenjaði yfir lokahátíð Olympíuleikanna!!!

en...þetta var svo hátíðlegt og fallegt allt saman...öll þessi börn og þessi ljós...allir svo stoltir...ég gat bara ekki tára bundist...svo var ekki eins og ég hefði verið með ekka eða neitt..



föstudagur, september 03, 2004

Sæt gömul kelling

Eftir að hafa velt þessu fram og aftur, hætt við nokkrum sinnum en ákveðið aftur..fór ég og keypti mér nýtt sturtuhorn í gær. Svakalega fínt, með alvöru gleri í og hurðum á hjólum og ég veit ekki hvað og hvað.
Í sömu búð fékk ég líka flísar sem fara inn í sturtuhornið. Frábær þjónusta í alla staði, strákurinn í flísadeildinni bauð mér meira að segja að koma til sín ef mér gengi illa að flísaleggja og hann myndi þá kenna mér þetta almennilega. Þ.e. ef ég finn ekki "how to flísalegg" á netinu.

Stolt segi ég systur minni frá þessari fjárfestingu. Sagði að flísarnar hefðu ekki kostað nema 3000 og sturtuhornið hefði kostað 18.000 en hafi átt að kosta 35.000.
ÓTRÚLEGT TILBOÐ!
Ég sagði henni að ég hefði notað svona afláttarmiða til að fá þennan afslátt.
Það var þögn í símanum.
- Finnst þér það ekki sniðugt? Er ég ekki hagsýn?
- Halló..ertu þarna?´
-Já, ég er hér..mér finnst það nú frekar plebbalegt.
-Ha..plebbalegt..er það? svolítið amerískt kannski..

Ég byrjaði að svitna og sá fyrir mér allar þessar bíómyndir þar sem verið er að gera grín að fólki sem verslar fyrir afsláttarmiða. Mundi meira að segja allt í einu eftir gamalli konu sem ég sá einu sinni í Bónus, með svona Bónusblað og var að versla eftir því...á þeim tíma hugsaði ég "en sæt gömul kelling"
Var svona komið fyrir mér?

Ég reyni eitthvað að klóra í bakkann í þessu samtali mínu við systur mína. Ég er ekki alveg tilbúin að viðurkenna plebbaskap minn án baráttu.
-En er ég ekki bara hagsýn...hmm?
Systir mín eins góðhjörtuð og hún er, vill ekki að mér líði illa og réttir mér strá:
- kannski svona hagsýnn plebbi!!!
Bætir svo við að það sé ekkert endilega slæmt. Það sé mjög misjafnt hvað fólk telur vera plebbahátt.
- Sumum finnst hagsýni vera plebbaskapur, öðrum finnst plebbalegt að lesa bækur...
- Plebbalegt að lesa bækur..nú er mér allri lokið.

Ég sá allt í einu líf mitt fyrir mér...krýning á Íslandsmeistarakeppninni í plebbaskap. Ég var í fyrsta sæti, fékk kórónu og allt. Bíl merktan titlinum mínum, tíu tíma í gerfibrúnku, mitt eigið stæði í Smáralindinni og ég veit ekki hvað og hvað...

Áður en hún færi að segja að sumum þætti plebbalegt að fara á hjóli í Bónus, sagði ég henni að ég yrði að hætta að tala við hana, því það væri verið að endursýna brúðkaupsþáttinn JÁ í sjónvarpinu og ég þyrfti að rjúka...

miðvikudagur, september 01, 2004

Þroskamerki

Ég hef alltaf átt svolítið erfitt með IKEA. Ekki það að mér finnist leiðinlegt að fara þangað, heldur á ég voðalega erfitt með að hemja mig. Einhverra hluta vegna virðist ég alltaf eyða miklu meiri pening en ég ætla mér í upphafi IKEA ferðar.

Sem dæmi um þetta má nefna að einu sinni átti ég litla IKEA tréhillu, sem ég hafði spreyjað gyllta. Ég var búin að fá leið á gyllta litnum, en ekki hillunni sjálfri. Þessi hilla kostaði ekki nema 500 kr en í einhverju hagsýniskasti ákvað ég að pússa hilluna upp, frekar en að kaupa nýja.
En þegar ég var búin að djöflast á hillunni í rúman hálftíma og rétt búin með eitt lítið horn, ákvað ég að tími minn væri of dýrmætur fyrir þetta rugl og ég gerði mér ferð í stóru sænsku búðina. Hillan kostaði hvort sem er ekki nema 500kr og svo átti ég bæs, til að bera á hana.

Hins vegar þegar ég kom út úr búðinni var ég með vörur fyrir rúmlega 6000kr í pokanum mínum...

Ég fór aftur í IKEA í dag..
mig vantar hnífaparauppvasksdót. Það var ekki til eins og ég vildi. Nú úr því ég var komin gat ég allt eins rölt um og skoðað nýja dótið...
- nú er komið svona..en sniðugt!
- ohh, en fallegur litur á þessum kertum
- fínir kassar, þá má alveg geyma eitthvað sniðugt í þeim

Svo gerðist það...
einhver hvíslaði í eyrað mitt: Jóda, ertu viss um að þig vanti þetta? viltu ekki frekar fara með bílinn í viðgerð? Eða klára að kaupa skólabækur???
...og ég snéri við og skilaði öllu dótinu aftur á sinn stað. Gekk út - brosandi allan hringinn - alveg svakalega þroskuð og með mikinn sjálfsaga.

Ég átti líka erindi í Kópavoginn
úr því að ég var komin þangað, gat ég alveg eins skotist í Smáralindina - þurfti hvort eð er að tala við Ogvodafone strákana...

- Langt síðan ég hef komið hingað...
- Nei, en fínt...
- Vá alveg eins og mig hefur alltaf vantað...

ZARA...
Zara sem er komin frá sama landi og El Diablo...ætli það sé tilviljun???

Og ég sem hélt að ég væri orðin svo þroskuð..ætli ég sé bara IKEA þroskuð??