englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, september 13, 2004

Verslaðu í þinni heimabyggð

Ég las um daginn grein í bæjarblaði Akranesbæjar, grein eftir kaupmann í plássinu.
Hans umræðuefni var hvað verslun í bænum hafði minnkað með tilkomu Hvalfjarðarganganna.
Ég man ekki nákvæmlega hvað mikið í prósentum talið samdrátturinn var mikill fyrir staðarkaupmenn, en talan var nokkuð há.
Hann tók þó nokkur dæmi af akurnesingum sem enn versluðu hjá honum og hrósaði þeim vel fyrir.
Skiljanlega er mikilvægt að halda verslun í heimabyggð.
Það finnst mér íþm.

Ég bý í vesturbæ Reykjavíkur. Þó ég sé ættuð að norðan, þá finnst mér ég vera Reykvíkingur. Ég segi stolt frá því að ég haldi með KR (þó í nokkru gríni - því í leyni held ég með öðru félagi). Ég elska Kjötborg og eina búðin sem slagar upp í hana í flottheitum er Melabúðin.

En er ég hreinskilin?

Ég versla bara í þessum búðum ef ég neyðist til, annars versla ég í Bónus á Seltjarnarnesi og klára innkaupin í Hagkaup í sama bæjarfélagi. Bensínið kaupi ég á bílaplani Hagkaupa á Nesinu. Ég kaupi áfengið mitt á Eiðistorgi. Fötin mín eru hreinsuð á sama stað. Þegar ég fer út að hlaupa, fer ég út á Nes. Fjöruferðir með syni mínum eru farnar á Gróttu.

Þegar ég reikna saman eyðslu mína, þá eru um 90% af henni á Seltjarnarnesi.
Hin 10% fara í eyðslu á öldurhúsum Reykjavíkur.

Flestum þykir þetta sjálfsagt ekki vera neitt tiltökumál. En ég spyr: er í lagi að versla ekki í sinni heimabyggð, ef heimabyggðin er stór?

Er bara bannað að stríða minni máttar? Má leggja hina vinsælu í einelti? Mega minnihlutahópar vera vondir við meirihlutahópa?
Eða skiptir það kannski ekki neinu máli í mínu tilfelli, þar sem það er sama fjölskyldan sem á verslanir á Seltjarnarnesi og í Reykjavík?

Ég hreinlega veit það ekki...