englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, september 06, 2004

Grenjuskjóður

Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að ég beri hjartað mitt utan á mér. Móttækileg fyrir allskyns vitleysu - jákvæðri og neikvæðri.
Þetta getur verið kostur en stundum dragbítur.

Ég á yfirleitt ekki erfitt með að setja mig í spor annarra. Reyni að skilja ástæður sem liggja að baki athafna, þó svo ég sætti mig ekki endilega við þær.
Ég á mjög auðvelt með að lifa mig inn í bíómyndir. Það eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að uppfylla, ef það er gert skiptir yfirleitt ekki miklu máli hvort um ræðir góðar myndir eða vondar.

Eins og með velskrifaðar bækur, flyst ég inn í bíómyndina. Verð hlutlaus þátttakandi í henni. Hlutlaus að því leitinu til að skrímslið getur aldrei náð mér og ég á enga möguleika á að giftast Brad Pitt - en ég reyni þó að veikum mætti að ræða við leikarana, benda þeim á bestu útgönguleiðir. Segi þeim hvar morðinginn felur sig og að hætta þessari vitleysu - hann sé góður strákur, sem sé bálskotinn í henni...

Ef ill fer - fer ég að gráta
Ef leikararnir hlusta á mig og allt fer vel að lokum - fer ég líka að gráta

Það eru margar bíómyndir sem ég hef grátið yfir og haft fullan rétt á því. Þrátt fyrir að fólkið í kringum mig hafi ekki alltaf haft fullan skilning á því. Ég man eftir því þegar ég var lítil stelpa og fór að sjá ET í bíó. Mamma mín (sem ber höfuð og herðar yfir allar grenjuskjóður) og frænka mín voru með mér. Eðlilega grétum við óskaplega (enda mjög, mjög sorgleg mynd). Þegar við vorum búnar að gráta í góðar 20 mínútur og tómu popppokarnir voru farnir að flæða niður bíósalinn - snéri unglingsstrákurinn sem sat fyrir framan okkur sér við og sagði: æ, getið þið ekki hætt að grenja maður!!!

Ég grét óskaplega yfir pretty in pink. Ég með minni sérstöku næmni sá að hún (Molly Rignwald) var að gera stærstu mistök lífs síns með því að velja þennan ríkisbubba (Andrew McCarthy), í stað vinar síns (Jon Cryer) sem hún náði svo vel til og ..... svo hann svona harður af sér, lét eins og honum stæði alveg á sama..en ég vissi betur..
Ég hef alveg fengið fólk til að viðurkenna að endir þessarar bíómyndar var sorglegur. Ver hefur mér þó gengið að fá fólk til að viðurkenna "rétt" minn til að háskæla yfir enda 9 og hálfrar viku.
Ég hef séð þessa mynd nokkrum sinnum og alltaf skal ég gráta jafn mikið (með ekka og allt) svo þegar hún (Kim Basinger) lokar hurðinni að íbúð folans (Mickey Rourke) og hann byrjar að telja, kalla ég til hennar, á milli ekka soganna "SNÚÐU VIÐ HANN ELSKAR ÞIG!!!"

En hlustar hún á mig? Nei og því fer sem fer....

Að gráta yfir bíómyndum er fjölskyldusiður, sem gengur í beinan kvenlegg.
Nei, ætli sé ekki réttara að segja: að gráta við minnsta tilefni er fjölskyldusiður, sem gengur í beinan kvenlegg.

Mamma mín er drottning í Táradalnum en við systur komum sterkar inn. Ég hef stundum gert grín að því þegar mamma kom sér alltaf vel fyrir í sófanum á sunnudögum til að eiga notalega stund með fjölskyldunni á sléttunni, þessari sem átti heima í húsinu.
Alltaf sama rútínan: Þátturinn rétt byrjaður og mamma byrjuð að gráta. Mín ástkæra systir er mun líklegri en ég, til að taka við af móður okkar sem drottning Táradals. Svo tilfinningarík er hún. Ég hef horft á myndir með henni, sem eru svo vondar að mér líður illa í maganum - en hún háskælir yfir.

Þegar ég ber mig saman við þær, þá upplifi ég mig sem hálfgerðan nagla, sem kallar ekki allt ömmu sína. Og í skjóli þess, get ég gert svolítið grín að þeim.
Ég var eitthvað að bauna á mömmu mína um helgina..að hún væri nú svo mikil grenjuskjóða að ....bla bla bla...

Þá sagði hún: Jahh...það var ekki ég sem grenjaði yfir lokahátíð Olympíuleikanna!!!

en...þetta var svo hátíðlegt og fallegt allt saman...öll þessi börn og þessi ljós...allir svo stoltir...ég gat bara ekki tára bundist...svo var ekki eins og ég hefði verið með ekka eða neitt..